Fáviska ráðherra

Auðvitað verður staðið við búvörusamninginn, annað kemur vart til greina. Menn standa jú við gerða samninga!

ÞAð er magnað að heyra hvernig ráðamenn þjóðarinnar hafi talað um vanda sauðfjárbænda. Reyndar hefur lítið heyrst frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, nema Viðreisnar og satt best að segja er sorglegt hvernig þeir hafa opinberað fávisku sína um málið. Nú stígur sjálfur forsætisráðherranna, verkstjóri ríkisstjórnarinnar, fram og sussar á samráðherra sína. Því miður er þó að sjá að hans þekking sé litlu meiri en hinna, þó hann átti sig á þeirri staðreynd að gerðir samningar skuli standa. Þegar menn gagnrýna eitthvað, er gerð krafa um að viðkomandi hafi aðra lausn og láti hana í ljósi. Þetta er enn ríkara þegar gagnrýnin kemur frá hendi ráðmanna þjóðarinnar.

Fram til þessa hefur ómað frá ráðherrum Viðreisnar að vandinn liggi í nýgerðum búvörusamningi, að ekkert sé hægt að gera umfram þann samning og þegar þeir lenda í rökþrotum, er talað um að ekki megi fara út fyrir fjárlög.

Nýgerður búvörusamningur tók gildi síðasta haust, framleiðsla þessa árs af lambakjöti er að öllu leyti fjármögnuð utan þess samnings og framleiðsla næsta árs að stórum hluta einnig. Því er með öllu fráleitt að tala um að vandinn sé þeim samningi um að kenna. Margt má segja um þennan samning og víst að lítil sátt var um hann, á báða bóga. Í honum er þó ákvæði um endurskoðun innan ákveðins tíma og sú vinna þegar hafin, eftir að ráðherra landbúnaðamála var nánast búin að rústa því ákvæði með því að skipa nýja nefnd um þá endurskoðun. Það er því nánast grátlegt að heyra fjármálaráðherranefnuna tala um að endurskoða þurfi samninginn!

Að ekkert sé hægt að gera umfram það sem samningurinn heimilar er í raun ávísun á að lítið sem ekkert skuli gera. Vandi sauðfjárbænda er ekki vegna búvörusamninga, hvorki nýrra né gamalla. Vandi sauðfjárbænda er til komin af öflum sem þeir ekki ráða við né hafa nokkur áhrif á. Vanda sauðfjárbænda má fyrst og fremst rekja til pólitískrar ákvörðunar Alþingis um að fylgja ESB í refsiaðgerðum á Rússa. Hátt gengi krónunnar eykur síðan þann vanda. Það er ekkert sem bændur hafa gert sem veldur þeim vanda sem nú mun leggja margar sveitir landsins nánast í eyði, þeir hafa fylgt þeirri línu sem búvörusamningar hafa á þá lagt gegnum árin.

Það er vissulega gott þegar ráðherrar sýna slíka ábyrgð að vilja halda sig innan fjárlaga. Það væri betra að það ætti þá við um öll útlát ríkissjóðs, ekki bara þegar kemur að ákveðnum hópum í þjóðfélaginu. Upp koma ófyrirséð fjárútlát, þau fara síðan í aukafjárlög. Skýrasta dæmið er að einn málaflokkur er nú þegar komin fram yfir fjárlög um nokkra milljarða króna og líklegt að þegar ári lýkur muni sú framúrkeyrsla verða jafnvel meiri en búvörusamningur greiðir til sauðfjárframleiðslu landsins. Þó fjalla fjölmiðlar næsta lítið um þessa umframkeyrslu á fjárlögum!!

Nú loks, þegar verkstjóri ríkisstjórnarinnar hastar á sína samráðherra, eftir að þeir hafa í alltof langan tíma fengið að básúna fávisku sína í öllum fjölmiðlum landsins, kemur á óvart að hann virðist ekki heldur skilja vandann. Talar um að "ýta vörum út af markaði" og "minnka sauðfjárstofninn".

Ég verð að segja að ég átta mig ekki alveg á hvað hann á við um að "ýta vörum af markaði". Er hann þar að tala um að eyða matvælum? Hélt reyndar að slíkt væri bannað.

Um hitt atriðið að "fækka sauðfjárstofninum" þá má kannski segja að það atriði eigi heima í viðræðum um upptöku samningsins, þ.e. ef menn vilja fara þá leið að hér verði einungis framleitt fyrir innanlandsmarkað og engu skeytt um matarþörf hins ört stækkandi sveltandi heim. En það er ekki nóg að tala um að "fækka í sauðfjárstofninum" nema menn hafi einhverja hugmynd um hvernig það skuli gert. Síðustu fjörutíu ár hefur búfjárstofni fækkað verulega hér á landi, einnig sauðfé, þó afurðir hafi aukist verulega. Þetta kallast framþróun og verðmætaaukning. Samhliða fækkun í bústofni hafa bú stækkað, einnig í nafni framþróunar og verðmætaaukningar. En þessu fylgir böggull hildar. Það er útilokað að fækka bústofni og stækka búin án þess að byggð raskist og það hefur vissulega gerst. Heilu byggðarlögin hafa lagst í eyði á þessu tímabili og önnur ramba á barmi þess að falla sömu leið. Vill forsætisráðherra halda lengra á þeirri leið, eða hefur hann einhverja patent lausn á því hvernig hægt er að fækka enn frekar í bústofni landsmanna, án þess að byggð raskist frekar en orðið er.

En hvað um það, þessar hugmyndir forsætisráðherra koma ekkert við þeim vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir nú. Það er bráðavandi sem þarf að leysa og það ekki síðar en strax. Á morgun getur það orðið of seint. Verði ekkert að gert mun fjöldi bænda taka ákvörðun um að hætta búskap á allra næstu dögum, með tilheyrandi enn meiri of framleiðslu á kjöti nú í haust. 

Það þarf að viðurkenna orsakir þessa vanda og leysa hann út frá því. Það þarf að klára það mál sem hófst þegar Alþingi Íslendinga ákvað að fara í þá för með ESB að setja á refsiaðgerðir á Rússa. Það er ekki nóg að samþykkja slíkar aðgerðir nema stjórnvöld séu tilbúin að bæta þeim skaða sem af hljóta. Hvers vegna eiga bændur að taka á sig það tjón sem stjórnvöld stofna til?!

Bráðavandann þarf að leysa strax, endurskoðun búvörusamningsins er svo allt annað mál. Þá þurfa menn að hafa einhverja sýn á framtíðina og hvernig við viljum stjórna okkar matvælaframleiðslu til framtíðar. Þar þíðir ekki að horfa á daginn í dag og þau tímabundnu vandamál sem steðja að nú.

Reyndar þarf enginn að óttast framtíðina í íslenskum landbúnaði, þ.e. ef ráðamönnum ber sú gæfa að leysa vandamálin út frá raunverulegum vanda. Þessa stundina er hins vegar íslenskur landbúnaður í þröngri stöðu og auðvelt að velta honum af kolli. Þá munum við verða upp á aðrar þjóðir komin með mat. Þegar svo annað hrun dynur á þjóðinni, eins og haustið 2008, nú eða upp kemur stríðsástand í löndum nærri okkur, munum við einfaldlega svelta!

 

 

 


mbl.is Staðið verður við búvörusamninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Höfuð vandi sauðfjárbænda stafar af því að kvótinn var í raun tekinn af með afnámi útflutningsskyldu en það þýddi að öll framleiðslan gat farið á innanlandsmarkað ef það sem var umfram innanlandsneyslu seldist ekki út. 

Menn héldu í kjölfar hrunsins að gengi yrði lágt um langa framtíð og gagn yrði af framleiðslu og útflutningi kindakjöts, þannig séð skiljanlegt að kvótinn var afnuminn.  Þetta reyndist því miður mistök og af þeim er verið að súpa seiðið nú. 

Þegar Bjarni Ben talar um að ýta vörum af markaði og takmarka sauðfjárstofninn þá er hann í raun að tala fyrir kvótasetningu. 

Í því felst viðurkenning á því að óheftar markaðslausnir eiga ekki við í landbúnaði, a.m.k. sauðfjárrækt. 

Vandi Íslendinga í dag er of hátt gengi með þeim ruðningsáhrifum sem það hefur á útflutningstengdar atvinnugreinar en það eru einmitt þær sömu og skapa hér helstu verðmæti. 

Þannig séð eru sauðfjárbændur kanarífuglinn í námunni, þegar illa gengu hjá þeim og ekkert hægt að selja út þá er hagkerfið sjálft í röngumf fasa. 

Bjarni Bjarnason (IP-tala skráð) 20.8.2017 kl. 08:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband