Komið verði til móts við verslunina

Tillögur landbúnaðarráðherra, með samþykki fjármálaráðherra, munu ekki hjálpa bændum en hins vegar mun verslunin græða verulega. Þar liggur hundurinn grafinn, ráðherra vill ekki styggja verslunina í landinu og velur því þá lausn sem mun kosta ríkissjóð mikla fjármuni án nokkurs árangurs, í stað þess að velja þá leið sem kostar minna og er leið út úr vandanum.

Uppkaup kvóta um 20% mun einungis auka á vanda sauðfjárbænda. Þetta mun leiða til enn frekari uppsöfnunar á kindakjöti strax í haust og fyrirséð að næsta haust munu byrgðir verða enn meiri en nú!

Þá eru einungis tveir kostir til fækkunar sauðfjár í landinu, annars vegar að bændur hætti búskap eða að bændur dragi úr framleiðslu. Sennilega verður þetta blanda af báðu.

Fækki búum enn frekar mun byggð skerðast, jafnvel svo að sveitir leggist í eyði.

Dragi bændur úr framleiðslu, mun það auðvitað leiða til enn frekari skerðingar á launum þeirra, til viðbótar við þá skerðingu sem þegar hefur orðið. Það má því segja að sú aðkoma sem ríkið er tilbúið að leggja til bænda muni sjálfkrafa hverfa úr höndum þeirra, vegna minni búa og lægri tekna!

Þarna er verið að færa fé úr einum vasa bænda yfir í annan, og allir tapa. Eftir stendur mikill vandi strax að ári!

Bent hefur verið á að útflutningsskylda kosta ríkið ekki krónu. Einu  fjárframlögin þar yrðu til mjög illa stæðra bænda, fyrst og fremst yngri bænda sem nýlega hafa hafið búskap. En þessi leið þóknast ekki versluninni í landinu og því er hún slegin út af borðinu af lágtvirtum ráðherrum Viðreisnar. Sorglegt er að svokallaður formaður Framsóknar skuli láta leiða sig í vitleysunni.

Ísland er ekki sjálfbært í matvælaframleiðslu. Auðvitað munu sum matvæli seint verða framleidd hér á landi, en við getum framleitt nógu mikið af nógu fjölbreyttum matvælum til að geta talist sjálfbær. Ekki síst í kjötframleiðslu.

Nú er verið að berjast við "offramleiðslu" upp á 1000 tonn af kjöti. Árið 2015 voru flutt inn 3000 tonn af kjöti. Eftir stendur að í raun vantar 2000 tonn upp á að við gætum talist sjálfbær í kjötframleiðslu. Þegar Rússabannið var sett á lokuðust markaðir fyrir norskt kindakjöt. Þeirra svar var að loka á innflutning á móti. Hvers vegna má ekki beita sömu meðulum hér á landi?!

Verslunin heldur því fram að mun ódýrara sé að flytja þessi matvæli til landsins. En er það svo? Ekki er svo að sjá í kjötborðum verslana. Til dæmis bjóða Hagar upp á reyktar svínakjötsneiðar, ágætar á grillið. Þegar lesið er á pakkningarnar má finna, ef vel er leitað, upplýsingar um upprunaland. Merkingar eru að öllu leyti eins, nema með mjög litlum stöfum má finna þessar upplýsingar. Enginn verðmunur er þó á því hvort varan er með danskt eða íslenskt upprunaland!

Þá má ekki gleyma þeirri einföldu staðreynd að verð á matvælum erlendis er eftir að ríkisstyrkir hafa verið greiddir. Ekki þarf nokkrum manni að detta til hugar að aðrar þjóðir séu tilbúnar til að niðurgreiða kjöt til okkar, til lengdar. Víst er að fljótlega kæmi krafa um að framleiðsluverð verði greitt. Hver er hagnaðurinn þá?

Ekki ætla ég að tala um heilnæmi innfluttra matvæla, nægir að benda á að hvert hneykslið af öðru hefur dunið á eftirlitsstofnunum Evrópu, þar sem svindl í matvælaframleiðslu uppgötvast. Sjaldnast vegna þess að viðkomandi stofnanir uppgötvi svindlið.

Svo virðist sem ráðherrum Viðreisnar ætli að takast að grafa svo undan íslenskum landbúnaði að vart verið við snúið. Sorglegt er að þeir flokkar sem staðið hafa vörð um þá eðlilegu stefnu að landið verði sjálfbært í matvælaframleiðslu, svo langt sem slíkt er hægt, skuli taka undir með fulltrúum verslunar í ríkisstjórn.

Takist þetta markmið Viðreisnar mun verslunin kætast, en neytendur gráta!!


mbl.is Komið verði til móts við bændur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband