Hátt hreykir heimskur sér
19.2.2017 | 09:30
Þorgerður Katrín, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra hrópar húrra fyrir sjálfri sér. Þykist hafa unnið stórsigur.
Kjaradeila sjómanna nú, er (var) einhver sú erfiðasta hingað til. Þegar loks kom að því að deiluaðilar náðu saman stóð eitt mál útaf, skattur á matar og dagpeninga. Um réttlæti þess afsláttar má lesa í síðasta pistli mínum og ætla ég ekki að fjölyrða um það hér, en ítreka að starfsfólk ráðuneyta, þ.m.t. ráðherrar njóta slíkra fríðinda, jafnvel þó allur kostnaður sé greiddur.
Deiluaðilar mættu á nokkra fundi með ráðherra og reyndu hvað þeir gátu að koma henni í skilning um hvað málið snerist, en ráðherra gaf sig ekki. Það var svo loks í fyrrakvöld sem ráðherra mætti á fund deiluaðila með "sáttatillögu". Ekki hefur fengist upp gefið hvað fólst í þeirri tillögu, en samningsaðilar höfnuðu henni, kannski vegna þess að ráðherra veifaði byssu um lögbann, ef ekki væri gengið frá samningi. Reyndar hefur ráðherra sagt að hún hafi ekki hótað neinu, þó hún gerði deiluaðilum ljóst að lögbann yrði sett á verkfallið, ef ekki væri samið. Hvernig ráðherra skilgreinir hótun verður hún auðvitað að hafa fyrir sig.
Eftir þennan fund með ráðherra settust samningsaðilar niður og gengu frá samningi, enda ekki um annað að ræða. Lausnin fólst í að útgerðin greiði matinn fyrir sjómenn. Nú veit ég ekki hvort í tillögum ráðherra var að sú lausn myndi leysa sjómenn undan því að greiða skatt af fæðishlunnindum, að öðrum kosti breytir engu fyrir sjómenn þó útgerðin skaffi þeim frítt fæði. Hafi, hins vegar, í tilboði ráðherrans falist loforð um skattleysi á matarhlunnindi, er ljóst að kostnaður ríkisins verður mun meiri en ef skattleysi á matarpeninga hefði verið samþykk. Það hefur komið fram að þessi breyting á kjarasamningnum mun kosta útgerðina töluverða peninga og þann kostnað mun hún auðvitað setja inn í reksturinn. "Tapaðar" skatttekjur ríkisins munu því verða umtalsvert hærri með þessari lausn, en ef gengið hefði verið að kröfum sjómanna.
Ef sjómenn þurfa að greiða skatt af þessum hlunnindum, mun "tekjutap" ríkisins verða minna, þó hærra en ef matarpeningar hefðu verið gerðir skattlausir. Þá mun hins vegar verða erfitt að fá þennan kjarasamning samþykktan.
Allir vita hvað það þíðir ef samningurinn verður felldur, ráðherra hefur sagt það sjálf. Þá verða strax sett lög á deiluna, lögbann á verkfallið. Jafnvel þó allir viti hver staðan er, skal ráðherra ekki ganga út frá því sem gefnu að samningurinn verði samþykktur. Veigamesta atriðið fyrir sjómenn er að þeir viti hvort fæðishlunnindin verða undanþegin skatti.
Ef svo er, ef ráðherra hefur lofað samninganefndunum að sjómenn yrðu undanþegnir skatti af matarhlunnindum, er ljóst að ráðherrann valdi mun dýrari leið til lausnar deilunni. Ekki verður séð annað en að það hafi þá verið vegna fádæma þrjósku. Að vegna ótímabærra yfirlýsinga á fyrri stigum málsins hafi ráðherra frekar valið dýrari leiðina en að éta ofaní sig vanhugsuð ummæli.
Slíkur ráðherra er með öllu óhæfur í starfi!!
Eitt stórt takk og húrra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég hef fylgst nokkuð með fréttum af þessari deilu og svo fréttatengdu bloggi og það er einkennandi fyrir alla þessa umfjöllun alvarlegt skilningsleysi á kjaramálum sjómanna og þeim kröfum sem þeir settu fram. Fyrir það fyrsta þá er sjómannaafslátturinn og frítt fæði tvennt ólíkt og fáránlegt að blanda því saman. Í öðru lagi þá hefur útgerðin greitt fyrir fæði sjómanna í formi fæðispeninga í tugi ára svo hér er ekki um miklar kjarabætur að ræða. Þótt vissulega hafi getað munað umtalsverðu á milli skipa hver viðbótarkostnaður skipverja var. Það er mismunurinn á fæðispeningum og raunverulegum fæðiskostnaði. Sumir kokkar gátu þó jafnvel skilað afgangi á meðan aðrir eyddu í óþarfa eða fóru illa með. Ef þessi breyting er metin á tugi þúsunda þá er það eingöngu vegna þess að þessir liðir hafa ekki hækkað í takt við verðbreytingar vegna þess að samningar hafa verið lausir í svo mörg ár.
Og svo er það þriðja atriðið sem þarfnast leiðréttingar sem er skiptaprósentan. Heiðrún Lind komst ítrekað upp með að fara með rangt mál varðandi skiptaprósentuna vegna þekkingarleysis fréttamanna. Hún annaðhvort skilur ekki hlutaskiptakerfið eða laug blákalt án þess að nokkur gerði athugasemdir. Heiðrún Lind sagði alltaf að sjómenn fengju 40% og útgerðin 60%. Þetta er þvæla. Vegna mismunandi útgerðarflokka þá er misjafnt hvernig hlutaskiptin eru reiknuð út. En að jafnaði þá er byrjað að draga hlut útgerðar frá aflaverðmætinu og þetta nemur 30%. Það sem þá er eftir skiptist á milli útgerðar og áhafnar í hlutföllunum 70-76% sem er hlutur útgerðar og 26-30% sem er þá skiptahlutur áhafnar. Þannig að hið rétta er að skiptahlutur er nær því að vera 20% heldur en 40% eins og framkvæmdastjóri SFS bullaði um.
Þótt þessi samningur verði samþykktur þá mun áfram ríkja tortryggni milli aðila útaf verðmyndun aflans. Til að höggva á þann hnút dugar ekkert annað en aðskilnaður útgerðar og vinnslu og að í framhaldinu fari allur afli í gegnum uppboðssölukerfi.
Á meðan útgerðarmenn fá að selja sjálfum sér aflann þá munu þeir alltaf snuða sjómenn og þar af leiðandi ríkissjóð um réttmætan hlut í þessari einokunaratvinnugrein.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.2.2017 kl. 20:12
Ég stórefa að Þorgerður Katrín geti kallazt "heimsk".
Þvert á móti hefur hún oft sýnt, að hún er afskaplega sleip að hugsa og tala hratt.
Þú ert bara reiður út í hana, Gunnar, og sjálfur gerði ég mig eðlilega reiðan út af hennar afskiptum í þessu máli.
Má ekki frekar segja um hana eins og einhvern í Sturlungu: að meir sé hún grunuð um græsku.
Jón Valur Jensson, 20.2.2017 kl. 03:28
Auðvitað er ég reiður út í framkomu Þorgerðar Katrínar, ég reiðist yfir óréttlæti. Persónulega hef ég þó engu að gæta.
Vel getur verið hægt að finna eitthvað fallegra orð yfir ÞKG en heimsku, en merkingin verður alltaf söm. Það er ekkert annað en heimska þegar kastað er fram fullyrðingum án innistöðu, Það er síðan enn meiri heimska að geta ekki viðurkennt að hafa rangt fyrir sér.
Það er hins vegar ekki heimska að stíga fram á pólitískan völl eftir að hafa haft nærri tvö þúsund milljónir af þjóðinni,það kallast siðleysi. Það er ekki heldur heimska að þiggja sjálf dagpeninga án þess að þurfa að leggja fram reikninga á móti og það skattfrjálsa en vilja ekki una öðrum þess sama, það er einnig siðleysi.
Það er klár heimska að beita grímulausum hótunum til að standa á sínu máli. Slíkt leysir ekki vandann,einungis frestar honum og gerir enn erfiðari næst.
Sjálfur stóð ég í þeirri meiningu að ÞKG væri vel yfir meðallagi í greind og sjálfur vildi ég gjarnan aðskilja hana frá eiginmanninum varðandi kúlulánið, jafnvel þó ég eigi erfitt með að skilja að annar aðili í hjónabandi geti tekið lán upp á nærri tvo milljarða án vitundar hins.
Eftir framgöngu hennar síðustu daga er ég farinn að stór efast um greindarfar ÞKG og ég er fyrir nokkru hættur að reyna að fyrirgefa henni kúlulánið sem þjóðin borgaði fyrir þau hjón!
Ekki öfunda ég bændur þegar þeir byrja á samskiptum við þessa konu. Ef hún hagar sér við þá á sama hátt og í þessari deilu, er eins víst að henni takist að rústa landbúnaðinum hér á landi áður en árið er úti.
Gunnar Heiðarsson, 20.2.2017 kl. 05:58
Þú segir nokkuð, Gunnar!
Jón Valur Jensson, 20.2.2017 kl. 13:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.