Píratar að fatast flugið?

Á Eyjunni segir frá því að Píratar segja Katrínu Jakobsdóttur gamaldags og að umræðan á pírataspjallinu gegn Katrínu sé óvægin. Ástæða þessa er að Katrín lét í viðtali sína skoðun upp um að Píratar þyrftu að skilgreina sig í pólitík, hvort þeir væru til vinstri eða hægri.

Þetta líta Píratar sem árás á sinn flokk og vilja halda því fram að slík skilgreining sé óþörf.

Pólitík skiptist að megin hluta í tvær fylkingar, forsjárhyggju og frjálshyggju. Þetta hefur verið skilgreint sem vinstri og hægri í pólitík, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Menn geta auðvitað fundið upp einhver önnur nöfn á þessar skilgreiningar, en vinstri og hægri hafa virkað ágætlega og í hugum fólks er sú skilgreining skýr. Stundum er líka notaðir litir í þessu sambandi og rauður hafður lengst til vinstri og blár lengst til hægri. Aðrir flokkar velja sér svo aðra liti þar á milli.

Enginn getur tekið þátt í pólitík án þess að skilgreina sig. Annað hvort hallast viðkomandi að forsjárhyggju eða frjálshyggju. Hvor skilgreiningin um sig getur síðan skiptast niður í ýmsa hópa, þar sem áherslur geta verið mismunandi á ákveðin málefni.

Það verður því að taka undir orð Katrínar, Píratar verða að skilgreina sig í pólitík. Viðbrögð þeirra við þeirri kröfu sanna hins vegar að þessi flokkur er ekki stjórntækur. Reyndar vissu það allir fyrir.

Annað sem fram kemur í ummælum Katrínar er hins vegar frekar þunnt og sumt bara bull.

Sjálf segist hún setja á oddinn sjálfbæra þróun, kynjajafnrétti, aukið gagnsæi og betra lýðræði. Þessi atriði eru í hávegum hjá öllum stjórnmálaflokkum, nema kannski Pírötum, þekki það ekki. Hins vegar, þó flestir eða allir stjórnmálaflokkar hafi þessi gildi í hávegum, einkum á hátíðlegum stundum og fyrir kosningar, hefur engum tekist að framfylgja þeim þegar á hólminn er komið, ekki heldur Katrínu Jakobsdóttur og hennar félögum í VG. Þvert á móti börðust þau hatrammlega gegn þessum gildum allt síðasta kjörtímabil, jafnvel eftir að sú ríkisstjórn hafði ekki lengur meirihluta á þingi.

Sjálfbær þróun, kynjajafnrétti, aukið gagnsæi og betra lýðræði segir ekkert til um hvar á pólitíska litrofinu hver flokkur er, enda allir með þessi gildi inni hjá sér. Það eru allt aðrir hlutir sem ráða hvar menn flokkast í pólitík.

Forsjárhyggjan byggir á því að ríkið eigi að vera með sem mest tögl og haldir í sem flestu. Frjálshyggjan byggir á frelsi einstaklingsins til orða og gerða, auðvitað innan þeirra marka sem lög kveða.

Það er síðan af verkunum sem stjórnmálamenn verða dæmdir, hvernig þeir nýta tækifærið þegar þeir komast til valda. Á síðasta kjörtímabili var vinstristjórn, "fyrsta tæra vinstristjórnin" var hún nefnd af formönnum þeirra flokka sem að henni stóð. Vissulega jókst forsjárhyggjan á því kjörtímabili og skattar hækkuðu. En að öðru leyti var þessi ríkisstjórn verkfæri fjármagnsaflanna og stóð vörð þeirra. Jafnvel hörðustu kapítalistar skömmuðust sín fyrir þá varðstöðu ríkisstjórnar Samfylkingar og VG.

Það má hins vegar fagna deilum Pírata við formann VG. Þetta sannar fyrir fólki að þessi flokkur er samansafn fólks sem engri samstöðu nær. Sumt alveg ágætis fólk sem vill vel, en að stórum hluta fólk sem veit ekki hvað það vill, annað en að vera á móti.

Deilur innan þessa flokks hafa ekki farið framhjá landsmönnum. Árásir flokksins á núverandi ríkisstjórnarflokka hefur heldur ekki dulist neinum. Nú þegar þessi flokkur er farinn að deila á stjórnarandstöðuflokkanna, er fokið í flest skjól hjá þeim.

Kannski má leita skýringa í yfirlýsingum stjórnmálafræðinga um að fylgi Pírata, sem fer lækkandi, færist yfir til VG. Að vegna þessara orða fræðinga, þá sé VG nú helsti andstæðingur Pírata. Það er a.m.k. alveg í takt við hvernig Píratar hafa unni, að þjóðfélagsumræðan hverju sinni stjórni orðum og athöfnum þeirra.

Þetta geta Píratar gert, einmitt vegna þess að þeir vilja ekki skilgreina sig. En hvernig mun slíkur flokkur funkera í ríkisstjórn, flokkur sem ekki hefur ákveðna skilgreiningu og í krafti þess lætur stjórnast dag hvern af þjóðfélagsumræðunni og skoðanakönnunum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi orð - vinstri og hægri - segja ekki neitt.  Ef fólk festist í þessum frösum þá horfir það ekki á verkin.  Nú er Stefán Ólafsson að hæla Gunnari Smára fyrir grein um kerfisbundin skattsvik með blessun yfirvalda.  Hann reynir að tengja misréttið við hægrið, segir að stjórnvöld, "sem oftast voru undir forystu Sjálfstæðisflokksins, beinlínis leyfðu efnafólki margvísleg undanskot og vik frá þeim reglum sem almennum launaþrælum var gert að fara eftir í hvívetna."  Hann er greinilega búinn að steingleyma vinstri velferðarstjórninni og Verne holding.  Hvernig í ósköpunum eiga Píratar að skilgreina sig í þessu umhverfi?  Eiga þeir að staðsetja sig til hægri eða til vinstri í spillingarforinni?  Er það virkilega eftirsóknarvert?     

 

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.4.2016 kl. 10:42

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

"Það verður því að taka undir orð Katrínar, Píratar verða að skilgreina sig í pólitík. Viðbrögð þeirra við þeirri kröfu sanna hins vegar að þessi flokkur er ekki stjórntækur. Reyndar vissu það allir fyrir"

Af hverju þurfa Píratar að skilgreina sig eftir úreltum viðmiðum um hægri og vinstri pólitík? Og hvað þýðir að vera stjórntækur? Framsóknar og flugvallarvinir í Borginni voru sagðir óstjórntækir vegna skoðana þeirra á ókeypis úthlutun lóða til trúfélaga.  Er þetta að vera óstjórntækur?

Píratar þurfa ekkert að skilgreina sig.  Þeir eru fyrst og fremst lausnamiðaðir og binda sig ekki við fyrirfram gefnar forsendur og hefja sig í raun yfir flokksþrasið þótt eðli máls samkvæmt þá sé ágreiningi í málefnavinnu veitt meiri athygli af fjölmiðlum og sjálfskipuðum stjórnmálaskýrendum eins og þeim sem þennan pistil skrifartongue-out

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.4.2016 kl. 10:56

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Vel skrifuð grein Gunnar sem jafnan. Kjósendur verða að hafa einhverja hugmynd um hvernig flokkar hyggjast taka á m.a.mikilvægum málum,eins og sambandið við EBSB/EES og efnahagsmál. 

Helga Kristjánsdóttir, 16.4.2016 kl. 13:38

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Jóhannes, þó ég setji mínar skoðanir fram, hvort heldur er um stjórnmál eða annað, gerir það mig ekki að stjórnmálaskýranda. Eða er það svo að hver sem tjáir sig er þá samstundis orðinn sérfræðingur á því sviði? Telur þú þig vera stjórnmálaskýranda vegna þess að þú sjálfur ritar um stjórnmál?

Látum af svona barnaskap og ræðum málin út frá þeirri hugsun sem við höfum, skiptumst á skoðunum án þess að reyna að niðurlægja hver annan. Það gerir okkur bara að minni mönnum.

Út frá athugasemd þinn má ætla að þú teljir að stjórnmálasamtök þurfi ekki að skilgreina sig á pólitísku litrófi. Það er þín skoðun og ég virði hana. En þá spyr ég á móti; ef pólitísk samtök vilja ekki skilgreina sig á pólitíska litrófinu, geta þau þá talist pólitísk?

Að afgreiða málið með því að kalla "hægri/vinstri" í pólitík úrelt, eru fátækleg rök. Viðmið í pólitík verða aldrei úrelt, þó stefnur og málefni geti sannarlega úrelst. Grunnhugsunin og hvernig að henni er gengið, verður hins vegar aldrei úrelt. Þeir sem ekki hafa slíka grunnhugsun, hafa ekki skilgreinda grunnstefnu, geta aldrei orðið að neinu.

Þú spyrð hvað sé að vera óstjórntækur?

Nærtækasta dæmið liggur auðvitað í þeirri ríkisstjórn sem fór með völd á síðasta kjörtímabili. Annar stjórnarflokkurinn var þar sannarlega óstjórntækur. Það lýsti sér í því að þingmenn flokksins flúðu flokk sinn, einkum vegna svika forustunnar við kjósendur. Þú nefnir að Framsókn og flugvallarvinir hafi verið taldir óstjórntækir eftir síðustu borgarstjórnarkosningar. Vissulega var hann það með þeim meirihluta sem kosinn var, enda eiga Framsókn og flugvallarvinir fátt sameiginlegt með þeim flokkum sem eru að leggja borgina í fjárhagslega rúst.

Fullyrðing mín um að Píratar séu ekki stjórntækir byggi ég fyrst og fremst á þeirri ósamstöðu sem innan þess flokks ríkir. Flokkur sem ekki getur haldið samstöðu meðan hann er í stjórnarandstöðu, getur sannarlega ekki haldið samstöðu í stjórn, þegar taka þarf erfiðar og stundum sársaukafullar ákvarðanir. Ákvarðanir sem oftar en ekki þarf að semja um milli tveggja eða fleiri flokka sem mynda ríkisstjórn, flokka sem hafa að mörgu leyti sameiginlega sýn en á sumum sviðum mismunandi.

Sú staðreynd að Píratar vilji ekki skilgreina sig gerir það að verkum að í þann flokk getur nánast hver sem er gengið. Hann þarf ekki að velja sér flokk eftir fyrirfram ákveðinni skilgreiningu, einungis að hafa þann vilja að koma sjálfum sér á framfæri.

Ég vil taka það skýrt fram aftur, svo það valdi ekki misskilningi, að það er margt gott og gengt fólk sem fylgir nú Pírötum. Fólk sem vill vel og hefur margt gott fram að færa. Því miður mun þetta fólk ekki ná langt innan þessa flokks né koma sínum góðu málum fram. Til þess er söfnuður Pírata of sundurleitur, enda engin ákveðin skilgreining á pólitískri sýn sem bindur hann saman.

Gunnar Heiðarsson, 16.4.2016 kl. 13:40

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk Helga.

Gunnar Heiðarsson, 16.4.2016 kl. 13:41

6 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Gunnar ég ætlaði á mótmælin en svo hætti ekki að rigna...innocent

Menn sem kinnroðalaust fella alls kyns palladóma um fólk með öndverðar stjórnmálaskoðanir eru sínir eigin stjórnmálaskýrendur. Ég hins vegar geri kröfu um hlutlægni af "fræðingunum"  En nóg um það.

Varðandi pólitíska litrófið þá var ég einfaldlega að benda á að þetta litróf er ekki bein lína frá hægri til vinstri. Með frjálshyggju á hægri vængnum og félagshyggju á þeim vinstri eins og þú lýsir því. Pólitíska litrófið spannar mun víðfeðmari svið.  En til einföldunar má byrja á að bæta við lóðréttum ás og láta hann heita "Lýðræði" Þar sem lýðræðisásinn sker lárétta ásinn verður til það norm sem hér gildir og kallast fulltrúalúðræði. Ef við förum svo niður þann kvarða aðhyllumst við þrengra og þrengra form lýðræðis og endum á einræði. Fyrir ofan lárétta ásinn eru þeir sem aðhyllast meira einstaklingsfrelsi, minni ríkisforsjá og endum á anarkisma sem er hástig lýðræðis.  Í anarkisma eða stjórnleysisstefnu kristallast hið algera frelsi einstaklingsins.

Ef við lítum svona á pólitíska litrófið þá verður það ómögulegt að skilgreina sig einfaldlega til hægri eða vinstri.  Sérstaklega þegar þeir kvarðar hafa fengið á sig óorð vegna óheilinda stjórnmálamanna sem hafa ranglega staðsett sig á þessari línu. Dæmi VG og Sjálfstæðisflokkurinn.    Varðandi Pírata, sem ég hef engin tengsl við, nota bene, þá ímynda ég mér að í grunninn aðhyllist flestir píratar meira lýðræði en önnur starfandi stjórnmálasamtök gera.  Það eitt staðsetur flokkinn fyrir ofan lárétta ásinn. En hvorki til hægri né vinstri.  Athugaðu það!

Með þetta í huga er eðlilegt að þér finnist píratar óstjórntækir. Fyrst þín skilgreining á stjórntæki, snýst um flokksræði og hlýðni þá ertu hræddur við nýja hugsun í pólitík eins og margir fleiri. En þegar þú ræðst gegn nýrri hugsun þá ertu að ráðast gegn lýðræðinu og þess vegna svaraði ég þessum pistli þínum.  Ekki til að gera lítið úr þér.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.4.2016 kl. 15:21

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Við búum við fulltrúalýðræði Jóhannes og engar líkur á að því verði breytt. Á meðan er skilgreingin til vinstri og hægri fullgild. Til að skipta út fulltrúalýðveldinu þarf að taka upp annað hvort einræði eða anarkisma. Vonandi mun þjóðin aldrei velja annan þeirra kosta.

Það tekur sennilega hvert mannsbarn undir með þér að stjórnmálamenn hafa ekki sýnt þroska né heilindi gagnvart kjósendum og skiptir litlu hvaða flokkur er nefndur í því sambandi. En það kemur ekkert við hvort sú útsetning fulltrúalýðveldis sem við höfum valið okkur sé ill eða góð. Það segir okkur það eitt að stjórnmálamenn, svona almennt, eru ekki starfi sínu vaxnir. Ekki er að sjá marga innan forustu Pírata sem munu breyta því, þó vissulega sé til fólk sem aðhyllist þann flokk sem er heiðvirt. Það á við um alla flokka.

Pólitískt litróf er vissulega ekki bein lína, eins og kemur reyndar fram í athugasemdum mínum hér fyrir ofan. Og ef við hugsum okkur einhvern lóðréttan ás í því sambandi, þá er hann ekki heldur beinn né klýfur hina á einhverjum einum stað. Jafnvel ekki einn heldur margir. 

En grunnurinn í pólitík er alltaf hinn sami, jafnvel þó ást manna til lýðræðis sé mikil. Sú ást rúmast á öllu litrófinu og flestir landsmenn sem elska bæði lýðræðið og landið, þó sumir komi þeirri ást sinni svolítið undarlega til skila.

Hlýðni hefur aldrei skaðað nokkurn mann, svo fremi hún sé ekki í blindni. Kannski er skortur á hlýðni, svona almennt, að fara illa með okkur sem þjóð.

Varðandi pólitíkina þá þarf að vera einhver stefna, eitthvað sem límir fólk saman. Þú getur kallað það flokksræði, ég kýs kalla slíkt samvinnu. Að þannig farnist okkur best, en að sundurlyndið muni verða okkar feigð. 

Og þú ert alltaf velkominn á athugasemdakerfið mitt. Kannski svara ég þínum athugasemdum, kannski ekki.

Gunnar Heiðarsson, 16.4.2016 kl. 16:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband