Nýr búvörusamningur, sitt sýnist hverjum
22.2.2016 | 17:15
Langt er frá að eining ríki um búvörusamninginn og víst er að innan bændastéttarinnar eru æði misjafnar skoðanir á þeim breytingum sem samningurinn hefur í för með sér.
Sumir gagnrýna samninginn út frá innihaldi hans og fara þar fremstir þeir bændur sem ekki eru sáttir. Það sem þeir hellst gagnrýna er afnám beingreiðslna, enda hafa þær verið notaðar sem stjórntæki á framleiðsluna. Þessir bændur óttast að til offramleiðslu komi og því fylgi verðfall á búvörum. Fari svo munu hinir stóru hugsanlega hafa burði til að standa slíkt verðfall af sér, sér í lagi ef þeir eru með góðan bakhjarl eins og útgerðafyrirtæki, en smærri bændurnir, fjölskyldubúin, munu hins vegar eiga erfiðara með að taka á sig slíkar lækkanir. Þetta gæti hæglega orðið til mikillar samþjöppunnar í landbúnaði með enn frekari fátækt á byggð í landinu, fátækt sem síðan bitnar á öllu samfélaginu. Þorp og smærri kaupstaðir munu blæða og ferðaþjónustan gæti hrunið.
Flestir gagnrýna þennan nýja búvörusamning til þess eins að gagnrýna hann. Þarna fara fremstir í flokki hinir ýmsu misvitru álitsgjafar og bloggarar. Engin haldbær rök hefur þetta fólk, er bara einfaldlega á móti. Um þennan hóp er ekkert frekar að segja.
Svo stíga nokkrir á stokk og gagnrýna þennan samning út frá eigin græðgihugsun, telja að hann muni hamla eitthvað þeirra eigin möguleikum til enn frekari gróða. Þarna fer fremstur í flokki formaður samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) og margir sem gípa hans "rök" á lofti og apa þau eftir.
Formaður SVÞ gerir sér leik að því að koma fram með tölur sem enga skoðun standast og bera þær saman við annað sem kemur þessu máli ekkert við og er alls óskylt. Jafnvel hefur hann borið saman þessar tilfærslur á fé hér innanlands við útkast á fjármunum úr landi Ber ekki saman epli og appelsínur, heldur epli við vínber.
Andrés Magnússon tekur heildargreiðslu samningsins á fyrsta ári, margfaldar hana með samningstímanum og leggur síðan við þá tölu einhverja ímyndaða upphæð sem hann kallar tolla og aðflutningsgjöld, upphæð sem er jafn há samningsupphæðinni og fær út úr dæminu að þetta kosti launþega landsins eitthvað yfir tvöhundruð milljarða króna. Ofaná þetta lætur Andrés eins og þessi upphæð sé viðbót við útgjöld ríkissjóðs. Þvílíkt og annað eins hefur sjaldan sést á opinberum vettvangi og að það skuli koma úr ranni þess manns sem er í forsvari fyrir verslun í landinu er aldeilis ótrúlegt.
Auðvitað er þessi útreikningur Andrésar eitt bull, frá upphafi til enda.
Fyrir það fyrsta þá er nú þegar í gildi samningur við bændur. Nýi samningurinn er 900 milljónum hærri á fyrsta ári og fer síðan lækkandi. Þarna fellur grunnurinn af dæmi Andrésar. Þá verður í þessari umræðu að benda á að sumarið 2009 stigu bændur fram af fyrra bragði og buðu þáverandi ríkisstjórn að lækka gildandi samning um einn milljarð króna. Þetta boð var þegið og því má segja að hækkunin nú sé langt frá því að bæta bændum þessa fórn. Engin önnur atvinnugrein né nokkur annar hópur í landinu tók þessa framgöngu bænda til fyrirmyndar. Og auðvitað urðu bændur landsins síðan að taka á sig ýmis áföll og skerðingar, til jafns við aðra landsmenn, skerðingar sem urðu til vegna afleiðinga hrunsins.
Að leggja saman við þessa umræðu tolla og innflutningsgjöld, eins og Andrés gerir, er auðvitað kol rangt. Tollar og innflutningsgjöld af landbúnaðarvörum hafa farið mjög lækkandi undan farin ár og áratugi og sú stefna er enn í gangi. Nýlegur samningur landbúnaðarráðherra við ESB á þessu sviði var heljarstökk og ekki enn séð hvaða afleiðingar hann mun hafa fyrir landbúnað hér á landi. Að taka síðan stöðuna á þessum greiðslum, eins og hún er áður en samningur landbúnaðarráðherra við ESB tekur gildi og uppfæra hana til næstu tíu ára, er ekki bara svindl. þetta er vísvitandi lygi og sæmir ekki formanni SVÞ að láta slíkt frá sér.
Þá er rangt hjá Andrési að tala um að þetta sé tekið úr vasa launafólks í landinu. Vissulega eru skattatekjur ríkissjóðs af launafóli hærri en gott má telast, en það eru samt fyrirtækin sem standa undir stæðstum hluta af greiðslum í ríkissjóð.
Þegar litið er á dæmið og það reiknað út á réttum grunni, kemur í ljós að þessi nýi búvörusamningur sparar ríkissjóð strax á fyrsta ári einhverjar hundruð milljóna króna og eykst sá sparnaður ár frá ári eftir það. Þar mælist stæðst að ekki er leiðrétt sú lækkun sem bændur sjálfir færðu stjórnvöldum, þegar landið var í djúpum sárum, eftir framgöngu auðhyggjumanna.
En um hvað er raunverulega verið að tala með búnaðarsamningnum?
Sumir eru mjög áfram um að tengja tölur við landsframleiðslu og vilja mæla sem flest með þeirri mælistiku. Þetta gera líka alþjóðleg samtök stundum, þegar þau bera saman lönd.
Eftir að þessi nýi búvörusamningur tekur gildi mun hann verða um 1% af landsframleiðslu. Útilokað er að nota þennan samanburð varðandi landbúnaðarstyrki ESB, þar sem engin landsframleiðsla er á þeim bænum, einungis útgjöld. En ef landbúnaðarstyrkir ESB eru reiknaðir af landsframleiðslu þeirra landa sem að sambandinu standa, kemur í ljós að þeir eru um 0,8% og mitt þarna á milli kemur síðan Noregur, með alla sína olíusölu, með landbúnaðarstyrki upp á 0,9% af landsframleiðslu. Því er ljóst að búvörusamningurinn hér á landi er nánast sambærilegur þeim löndum sem við miðum okkur við.
Varðandi tolla og innflutningsgjöld, þá þekist ekkert slíkt milli þeirra landa sem að ESB standa, en eru þeim mun hærri inn á sambandið. Í þeim samanburði getum við borið höfuðið hátt.
Það má vissulega gagnrýna þennan nýja búvörusamning, en sú gagnrýni hlýtur að beinast að innihaldi hans. Og þar má finna margt gagnrýnivert.
Að halda uppi áróðri, á fölsuðum forsemdum, er hins vegar skammarlegt.
Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að hér á landi ríkir sama aðferðarfræði og í öllum hinum vestræna heimi, að niðurgreiða matvörur með fé úr sameiginlegum sjóðum. Vel má vera að þetta sé röng stefna, sé gamaldags. En það kostar að framleiða matvæli og þann kostnað verður að greiða, annars eru engin matvæli framleidd. Því yrði að hækka laun fólks sem þessu nemur svo það geti brauðfært sig. Ekki er ég viss um að Andrés sé tilbúinn að hækka laun hjá kassadömunum sínum.
Auðvitað má hætta að framleiða matvæli hér á landi og flytja þau bara inn. Því miður eru flestar þær matvörur sem framleiddar eru hér á landi dýrari erlendis, þ.e. þær sem eru næstar því að teljast jafn hollar og vistvænar og íslensk matvælaframleiðsla. Því myndi matarverð hækka verulega við þau skipti, nema við gengisfellum verulega kröfur um heilnæmi þeirra. Þá þarf ekki nokkur maður að láta sér detta til hugar að ESB, Noregur eða hvaða það land sem við myndum vilja versla við, muni vera tilbúið að selja okkur vörurnar á því verði sem þegnar þeirra landa fá þær á. Þessi lönd fara ekki að niðurgreiða úr eigin sjóðum landbúnaðarvörur til okkar, nema því aðeins að við séu tilbúin að borga okkar hlut í þeim niðurgreiðslum.
Er þá ekki betra að greiða niður matvælaframleiðslu hér heima og vera á sama grunni og aðrar vestrænar þjóðir, a.m.k. þar til komist er að samkomulgi milli allra þjóða hins vestræna heims að hætta þeirri aðferðarfræði? Að stuðla þannig að nýtingu landsins og styrkingu byggðar um allt land og að framleiða hér áfram matvæli sem eru á algjörum sérklassa hvað hreinleika varðar.
Að lokum má benda á að þessi nýi búvörusamningur er í raun niðurgreiðsla til launagreiðenda í landinu, þó menn kalli það niðurgreiðsla á mat til neytenda. Kostnaðurinn við þennan samning getur varla talist hár í samanburði við þann kostnað sem þjóðin hefur þurft að reiða fram til hinna ýmissa fyrirtækja á sviði verslunar hér á landi, eftir hrun. Bara vegna einnar verslunar þurfti þjóðin að taka á sig byrgðar upp á rúma 300 milljarða króna og það á einum degi, haustið 2008!
Þetta er frágengið mál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.