Húsnæðisvandinn

Það eru allir sammála um að húsnæðisvandi er mikill hér á landi, einkum þó á Reykjavíkursvæðinu. Um orsökina er fólk ekki sammála og enn síður lausnir.

Það er merkileg og góð skrif eftir Guðlaug Þór Þórðarson á pressan.is og full ástæða fyrir fólk að lesa þau skrif. Þar kemur ýmislegt á óvart.

Guðlaugur nefnir að 237 milljarðar hafi farið í þennan málaflokk frá hruni, beint og óbeint. Þetta eru gífurlegir peningar. Þá nefnir hann lóðaverð hafi hækkað um 508% síðustu 12 ár og að um þriðjungur íbúðaverð séu gjöld til hins opinbera. Nýja byggingareglugerðin ein sér hafi hækkað byggingakostnað um 8,5%!

Getur það verið að því meira fé sem ausið er í þennan málaflokk þá aukist vandi húsbyggjenda, að allir þeir peningar fari í millilið af ýmsu tagi. Að sveitarfélög hækki hjá sér lóðagjöld og alls kyns gjöld sem húsbyggjendur þurfa að greiða séu hækkuð og við þau bætt. Getur verið að þegar húsaleigubætur eru hækkaðar þá hækki bara húsaleigan að sama skapi. Allir vita að vaxtabæturnar eru í raun einungis niðurgreiðsla til bankanna, skuldarinn nýtur þeirra sjaldnast.

Það þarf vissulega að taka á þessum málum. Auðvitað verður ríkissjóður alltaf að koma að þeirri lausn, en tryggja þarf að þeir styrkir skili sér til fólksins, ekki í einhverja hít sveitarfélaga eða banka.

Það getur varla verið eðlilegt að sveitarfélögum sé í sjálfs vald sett hvaða gjöld þeir setja á húsbyggjendur eða hversu há. Að gjöld til hins opinbera, sem í flestum tilfellum eru sveitarfélögin, skuli vera orðin nærri þriðjungur af kostnaði við að byggja hús eða íbúð, getur varla talist eðlilegt. Það er sjálfsagt að húsbyggjendur borgi þann kostnað til sveitarfélaga, sem þau sannarlega verða fyrir vegna slíkra bygginga, en að þau geti nýtt sér þetta til tekjuöflunar er fráleitt.

Það er vægast sagt undarlegt að sveitarfélög skuli geta hækkað lóðaverð á nokkrum árum um hundruð prósenta, með því einu að skammta lóðir á markað. Verð lóða á að sjálfsögðu að miðast við þann kostnað sem sveitarfélög verða fyrir vegna lóðasölu, s.s. gatnagerð og tenginga lóða. 

Það er eitthvað heiftarlega rotið við framkomu sveitarfélaga við húsbyggjendur. Það er eins og þau átti sig ekki á þeim verðmætum sem fylgja hverjum nýjum íbúa, hverri nýrri íbúð sem byggð er. Þar liggja tekjurnar hjá sveitarfélögunum, til frambúðar, ekki í því hversu mikið er hægt að kreista út úr fólki meðan það stendur í að koma sér þaki yfir höfuðið.

Byggingareglugerðin er sér kapítuli. Þegar núverandi reglugerð var gerð að lögum þrengdist verulega að húsbyggjendum og kostnaður jókst. Það gerðist einnig þegar reglugerðin þar á undan var samþykkt. Þó er ekki að finna nokkurn skapaðan hlut í þessum reglugerðum sem gerir hús sterkari eða betri, einungis settar fram ýmsar kvaðir sem fáum eða engum gagnast.

Þarna þarf vissulega að taka til hendi. Það er t.d. nánast útilokað fyrir nokkurn að nýta eigin hendur við byggingu eigin íbúðar, krafa um að allir hlutir séu unnir af fólki með til þess gerð réttindi. Vissulega má ekki leyfa neitt kúsk við húsbyggingar, en því er ekki útrýmt með reglugerð. Sá sem vinnur að eigin byggingu er sjálfsagt sá sem síst vill sjá kúsk. Með því að opna aftur á að fólk geti unnið meira að eigin byggingum, má lækka útlagðan kostnað húsbyggjenda verulega og þá um leið lántökukostnað.

Húsnæðisbætur og vaxtabætur eru nauðsynlegar, en eingöngu til þeirra sem verst standa og tryggja þarf að þessar bætur skili sér til þessa fólks, að leigusalar og bankar hirði ekki þær bætur beint í eigin vasa. Hvernig það er gert veit ég ekki, en það hlýtur að vera hægt með einhverjum ráðum.

Þá er eitt atriði sem hefur bein áhrif á þennan vanda, bæði skort á húsnæði sem og verðmyndun þess og þá um leið leiguverð, en það er eign bankastofnana á íbúðahúsnæði. Þar má auðveldlega setja lög um að bankastofnanir geti ekki átt íbúðahúsnæði sem þær komast yfir, nema skamma stund. Að innan mjög skamms tíma beri þessu stofnunum að koma þeim í sölu og ef ekki tekst að selja þær innan ákveðins tíma, beri þeim að setja þessar íbúðir á leigumarkað.

Hugarfar fólks í dag þarf einnig að breytast. Mörgum þykir hið besta mál að mega sem minnst koma að byggingunni, vilja ekki þreyta bak sitt né skíta út hendurnar. Það er ekkert nauðsynlegt að íbúð eða hús séu full kláruð þegar flutt er inn. Það þótti ekkert tiltölumál fyrr á árum þó fólk flytti inn í nánast fokheld hús og bættu svo við eftir efnum. Það er heldur ekkert nauðsynlegt að kaupa einn eða tvo nýja bíla, þegar flutt í nýja íbúð. Það er ekkert athugavert við þó gömul drusla standi í innkeyrslunni, svona fyrstu árin. Og engum er vorkunn að sleppa utanlandsferðum fyrstu ár eftir að flutt er í nýtt húsnæði.

Það verður vissulega að taka á húsnæðisvanda landsmanna. En það er ekki bara hægt að kalla eftir auknum útlátum ríkissjóðs. Reglugerðir þarf að bæta, sveitarfélög verða að sýna smá skynsemi, koma þarf böndum á bankakerfið og síðast en ekki síst, hugarfar fólks verður að breytast.

Um verðtrygginguna þarf ekki að rita, hún er auðvitað stæðsti óvinur húsbyggjenda hér á landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband