Undarleg stjórnsýsla

Borgarstjórn ásamt fríðu föruneyti mætti á ráðstefnu í París, þar sem loftlagsmál heims voru rædd. Ekki þótti borgarstjóra Reykjavíkur vera nógu langt gengið í þeim loforðum sem þar voru samþykkt, jafnvel þó séð sé að erfitt eða útiokað verður að standa við þau. Nei, borgarstjóri Reykjavíkur vildi vera stærri maður og lofaði enn frekari aðgerðum gegn "loftlagsvánni".

Hvað er svo gert þegar heim er komið og allar veislur þar ytra eru búnar. Jú, það fyrsta sem frá borgarstjórn kemur er að enn frekar skuli þrengt að akandi bílum. Með því er verið með beinum hætti að auka mengun vegna umferðar. Frekar hefði maður viljað sjá þá peninga fara í annað, t.d. til að viðhalda þjónustu við aldraða. Nú ef borgarstjórn vill endilega nota á annað hundrað milljóna af lánsfé borgarinnar til umferðamannvirkja, ættu þær milljónir auðvitað að notast til liðkunnar fyrir akandi umferð og minnkandi mengunar, svona í anda þess sem borgarstjóri lofaði heimsbyggðinni, þegar hann var í París á dögunum.

En það er hægt að vinna gegn "loftlagsvánni" á fleiri vegu en með því að minnka mengun. Ræktun trjáa og grænblöðunga er viðurkennd aðferð í þeim tilgangi. Borgarstjóri velur þó að höggva tré og útrýma gróðri, í þeim tilgangi að auka fé borgarsjóðs. Eða eru kannski önnur sjónarmið sem þar blunda undir? Er kannski verið að hygla einhverjum góðvinum með þessu skógarhöggi.

Engu skiptir fyrir borgarstjórn þó þarna sé verið að höggva lund sem gerður var af fyrrverandi forseta landsins, forseta sem Íslendingum er kær, forseta sem setti mark sitt á skógrækt í landinu, forseta sem hafði sitt aðalsmerki að skilja eftir sig arfleifð í formi trjáa vítt um okkar land. Hvar sem er á Íslandi eru þau tré og þeir runnar sem Vigdís Finnbogadóttir skildi eftir sig sem heilagir, nema auðvitað í Reykjavík.

Og rökin sem hellst eru tilgreind vegna þessa skógarhöggs borgarstjórnar, auk fjárhagslegs ávinnings, eru að landið umhverfis Vigdísarlund Rekvíkinga sé hvort sem er í órækt og nýtist því lítt til útivistar. Hefði þá ekki verið meiri sómi af því að laga umhverfið og heiðra fyrrum forseta með því að gera umhverfi lundarins að þeim sómastað sem hann ætti að vera?! Er sú staðreynd að umhverfi lundarins sé í órækt ekki frekar ámæli á borgarstjórn, frekar en rök fyrir að höggva þessi tré?

Stjórnsýsla borgarinnar er vægast sagt undarleg. Í orði er lofað öllu fögru en á borði er unnið þvert á öll loforð. 


mbl.is Vigdísarlundur verður ruddur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"[...] ættu þær milljónir auðvitað að notast til liðkunnar fyrir akandi umferð og minnkandi mengunar" 
Þ.a. meiri umferð => minni mengun? Það er frábært!
Það er nefnilega þekkt staðreynd að þegar liðkað er fyrir umferð þá kemur meiri umferð (induced demand), þ.a. hér er á einfaldan hátt búið að leysa mengunarvandann í Reykjavík og kannski heiminum öllum!

hogo (IP-tala skráð) 15.1.2016 kl. 11:20

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta eru ekki rök, hogo, sem ekki þorir að rita undir eigin nafni.

Umferðin eykst ekki vegna betri samgangna, þar liggja allt aðrar aðstæður að baki. Hins vegar er þekkt staðreynd að mengun bíla ræðst af því hversu lengi þeir þurfa að vera í gangi og bíl sem sífellt þarf að stoppa og bíða mengar mun meira en bíll sem getur ekið sömu leið nær hindrunarlaust.

Umferðarmagn ræðst síðan af því hvernig borgarsamfélög eru skipulögð með tilliti til íbúðabyggðar og fyrirtækja og hversu marir þurfa að vera á ferðinni hverju sinni. Almenningssamgöngur geta haft lítilsháttar áhrif þar á en það er þó verulega ofmetinn sá þáttur. Þar að auki verður almenningssamgöngumátinn lítt spennandi þegar umferðamannvirki eru með þeim hætti að verulegar tafir verða, almennisvagnar þurfa jú að aka eftir sömu götum og einkabílar. Reiðhjólin hafa þarna nánast engin áhrif og jafnvel þó reiðhjólafólki hafi fjölgað verulega undanfarin ár, svona yfir sumartímann, er sá fjöldi einungis brotabrot af þeim fjölda sem ferðast þarf um borgina.

Það er hins vegar engin ástæða til að tefja fyrir hjólandi umferð, eða halda henni niðri. Það er gott að sem flestir, sem treysta sér til og hafa löngun til, geti ferðast með þeim hætti. Að liðka til fyrir reiðhjólaumferð þarf ekki endilega að þurfa að hafa í för með sér þrengingu á bílaumferð, þvert á móti geta þessir ferðamöguleikar fylgst að og jafnvel stutt hvorn annan. Með liðkun akandi umferðar er einnig liðkað til fyrir almenningsvagna og sá ferðamáti gerður meira spennandi.

En þegar horft er til mengunar frá bílum eru frumskilyrða að hafa umferð þeirra eins hnökralausa og hægt er. Þannig má stíga stór skref gegn mengun.

Í framtíðinni munu dísel- og bensínvélar verða úreltar og rafbílar munu taka yfir. Það er sama lögmál með rafbíla, þeir eyða orku, þó ekki sé frá þeim sama mengun. Þeir þurfa líka umferðarmannvirki og ef þrengt er að þeim, munum við sóa meira rafmagni en annars þyrfti. Hugsanlega gæti það leitt til þess að fórna þurfi landi undir miðunarlón vegna þeirrar sóunar.

Framtíðin er nefnilega ekki bara dagurinn á morgun, framtíðin er eilíf. Og vitað er að framtíðinni mun fylgja fleira fólk sem þarf að komast milli staða. Sjálfsagt munu einhverjir þeirra velja reiðhjól til sinna ferða, aðrir munu velja almenningssamgöngur, en stæðsti hlutinn mun ferðast á einkabílum.

Það ætti því að vera markmið borgarstjórnar í samgöngumálum að bæta samgöngur, fyrir alla. Að horfa til framtíðar.

Orka er ekki ókeypis eða sjálfsögð, jafnvel þó hægt sé að sækja hana í rafmagnstengil.

Gunnar Heiðarsson, 15.1.2016 kl. 12:10

3 identicon

"Umferðin eykst ekki vegna betri samgangna, þar liggja allt aðrar aðstæður að baki." 
Það þykir mér áhugavert, gætirðu útskýrt þessar ástæður fyrir mér? Telurðu að búið sé að afsanna kenninguna um innleidda eftirspurn (induced demand)?

"Að liðka til fyrir reiðhjólaumferð þarf ekki endilega að þurfa að hafa í för með sér þrengingu á bílaumferð"
Enda eru ekki til mörg dæmi um það, a.m.k. í Reykjavík. Hún er sem fyrr nánast algjörlega hönnuð í kringum bílaumferð.
Það má reyndar nefna Grensásveginn í þessu samhengi, það er ekki verið að þrengja hann til að koma fyrir hjólastígum, heldur vegna þess að það er ekki og verður ekki þörf á tveimur akreinum þar, umferðarhraðinn er of hár (skv. mælingum) og gatan slítur í sundur hverfið þar sem krakkar þurfa að fara yfir götuna á leið til skóla. Hjólastígarnir eru settir þar sem það gefst pláss til þess eftir þrenginguna, en gatan er ekki að víkja bara fyrir hjólastígnum. Ég tel reyndar sjálfur að það sé ekki sérstaklega þörf á hjólastígum þarna, þar sem þetta er ekki stofnæð og þar sem fáir keyra þarna er líklegt að fáir muni líka hjóla þarna. En sem betur fer eru hjólastígar einir og sér mjög ódýr aðgerð miðað við gatnagerð.

Við getum a.m.k. verið sammála um það að umferð í Reykjavík sé nánast hnökralaus að mestu leyti, enda er hægt að keyra mjög langar vegalengdir á ansi stuttum tíma. Þrátt fyrir það er svifryksmengun og sums staðar hljóðmengun vandamál við stofnbrautir þar sem engar þrengingar og hraðahindranir eru fyrir hendi. Hvað telurðu að valdi því fyrst frumskilyrðinu sem þú setur fram um mengun bifreiða er fullnægt þar?

hogo (IP-tala skráð) 15.1.2016 kl. 13:23

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Skemmtilegra þætti mér ef þú hefðir kjark til að skrifa undir eigin nafni hogo. Bæði er það heiðarlegra af þinni hálfu og gerir skrif þín marktækari auk þess sem mér þykir einstaklega óspennandi að skrifast á við drauga.

Það er kannski full mikið að endurtaka í athugasemdum sömu rök aftur og aftur, en sumir eiga erfiðara með að skilja hlutina en aðrir. Því skal ég gera þetta fyrir þig hogo, með örlítilli breytingu á orðalagi.

Umferð stýrist af þeim fjölda sem þarf að komast um borgina. Áhrif á þungann hefur síðan skipulag borgarinnar. Eftir því sem borgarbúum fjölgar eykst umferðarálag og þegar gatnakerfi er ekki mótað samkvæmt þeirri aukningu, eða eins og núverandi borgarstjórn gerir, að umferðamannvirkjum er breytt til hins verra, eykst þetta álag verulega.

Engin rök eru færð fyrir þrengingu Grensásvegar. Engar umferðamælingar hafa farið þar fram og ekki með neinum hætti hægt að segja til um hvort þessi breyting muni leiða til mikið eða lítið aukinnar umferðahættu. Ljóst er þó að tvær akreinar í hvora átt er mun öruggi en ein akrein í hvora átt. Landrýmið sem fæst með þessari breytingu mun ekki verða neinum til gagns, jafnvel þó það verði nýtt undir reiðhjólastíga, nægt landsvæði er til staðar fyrir slíka stíga þó gatan fengi að halda sér. Það er því nokkuð til í því hjá þér að þrengingin sé ekki komin til vegna reiðhjólastíga. Hver er þá tilgangurinn? Hraði? Hann má minnka á marga vegu.

Það er hins vegar gleðilegt að sjúkraflutningum og slökkviliði hafi tekist að fá afreinar fyrir strætó við breytinguna á götunni. Fyrstu hugmyndir voru á þann veg að gera þetta í anda Borgartúns skelfingarinnar, en þar er einmitt einn helsti minnisvarði um heimsku í skipulagsmálum borgarinnar. Gatan þröng og engin útskot fyrir strætó, þannig að umferð situr föst meðan þeir bíða á biðstöðvum sínum. Sitt hvoru megin eru síðan breiðir reiðhjólastígar sem sjaldnast sést nokkur maður hjólandi eftir. Það er því staðreynd að í skipuagi núverandi borgarstjórnar hefur verið þrengt að bílaumferð til þess eins að leggja reiðhjólastíga. Í Borgartúninu hefði hæglega verið hægt að koma slíkum stígum fyrir án þess að hefta svo kyrfilega bílaumferð, hefði verið hægt að gera þar öllum til góða. En viljann vantaði.

Það kemur stundum fyrir að ég eigi erindi til Reykjavíkur snemma dags og þá niður í miðbæ. Þetta skelfir mig alltaf jafn mikið, þar sem nánast öruggt er að þegar ég nálgast Ártúnsbrekku fer umferðin að hægjast verulega, jafnvel svo að um gönguhraða verður að ræða. Þetta veldur því að ég þarf að fara mun fyrr af stað til að geta mætt á réttum tíma á endastað. Það er því fjarri því að umferð sé hnökralaus á stofnæðum borgarinnar, a.m.k ekki á álagstímum. Þegar svona ber undir, að maður er fastur í umferð sem varla hreyfist, hefur maður góðan tíma til að skoða umhverfið. Svo vill til að yfir Elliðaárvoga var fyrir skemmstu lagður reiðhjólastígur með tveim brúm. Þetta var fjármagnað að hálfu úr vegafé ríkissjóðs og hálfu úr sjóðum borgarinnar. Einungis einu sinni hef ég séð hjólandi mann á þessum stíg, einu sinni gangandi mann og einu sinni mann sem leiddi sitt reiðhjól. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að þessi stígur er meira notaður en þetta, en samt er erfitt að segja að þessi "samgöngubót" geti nokkurn tímann talist arðbær. Kostnaðurinn var þvílíkur að annað eins þekkist varla í gerð reiðhjólastíga.

Svifmengun og hljóðmengun. Það er tiltölulega auðvelt að minnka hljóðmengun. Þetta hefur víða verið gert innan sveitarfélaganna kringum borgina, með góðum árangri. Svifmengun má einnig minnka verulega með því einu að sópa götur reglulega og oftar. Stæðsi hluti svifmengunnar kemur vegna ryks sem bílar þyrla upp. Það er ekki eða erfitt að komast hjá því að ryk myndist á götum vegna umferðar og breytir þar litlu hver orkugjafi bíla er. Það er hins vegar hægt að lámarka að þetta ryk fari að stað út í umhverfið og valdi þar skaða, með því einu að halda götum eins hreinum og mögulegt er. Það er gert með tilþess gerðum sópbílum.

Svo vona ég að þú sért maður til að skrifa athugasemdir undir eigin nafni, en felir þig ekki bak við nafnleysi eins og gunga. Að öðrum kosti læt ég þetta vera mín síðust svör til þín.

Gunnar Heiðarsson, 15.1.2016 kl. 14:42

5 identicon

Varðandi Borgartúnið, Gunnar, sem þú bryddar upp á:

Ekki bara voru lagður hjólreiðastígur, þar sem aldrei sést neinn á reiðhjóli, heldur beggja megin! Auk þess voru gangstéttirnar breikkaðar algjörlega að óþörfu. Svona til að vera ekki að spara bruðlið voru svo innkeyptir og settir upp rándýrir designer-ljósastaurar! Heilafruman sem meirihluti síðusta kjörtímabils deildi á milli sín og gaf svo núverandi meirihluta er augsýnilega ekki fær um að úthugsa neitt af viti í borgarskipulagsmálum.

Borgartún er mikilvæg verzlunargata fyrir akandi umferð, þar sem eru mikilvæg fyrirtæki og nokkrar verzlanir. Það er hægt að þrengja götur í íbúahverfum, en það býr enginn í Borgartúninu. Ekki sála. Engar íbúðir, enar fjölskyldur, engin börn, engir hjólreiðarmenn. Margir verða að leggja leið sína oft í viku í Borgartúnið, þ.á.m. ég, þótt ég kvíði fyrir því. Þar er mikil loftmengun því að bílaraðirnar eru alltaf höktandi og stoppandi í sífellu, bæði vegna strætó og vegna farartækja sem þurfa að beygja til vinstri. Og þegat trúðnum var bent á að það þyrfti að vera útskot fyrir strætó, þá þóttist hann ekkert skilja frekar en fyrri daginn. 

Það sem hefði átt að gera við Borgartúnið í staðinn fyrir að mjókka það, var að setja upp þessi þrjú hringtorg,síðan að leggja beygjuakrein eftir endilangri götunni og láta þar við sitja. En það virðist vera eins og þessi meirihluti vill eyðileggja allt sem virkar vel. Bæði í velferðarmálum og samgöngumálum.

Pétur D. (IP-tala skráð) 15.1.2016 kl. 16:27

6 identicon

Ég leyfi mér að skrifa nafnlaust, enda tel ég að persóna mín komi þessum rökræðum ekki við á neinn hátt. Ég sætti mig því við það að vera kallaður draugur og gunga, og ég ætlast að sjálfsögðu ekki til þess að þú svarir aftur og látum þetta því duga að sinni.

Þú segir að sumir eigi erfitt með að skilja hlutina, og ert þar líklega að vísa til mín. Ég tel að ég hafi alveg skilið bara nokkuð vel hvert þú varst að fara, en ég bað bara um rökstuðning fyrir fullyrðingu sem mér fannst hæpin. Ég hef á tilfinningunni að þú hafir ekki haft mikið fyrir því að kynna þér rök mín, t.d. varðandi innleidda eftirspurn, en það er lítið mál að bæta úr því. T.d. er hér ágæt yfirlitsgrein til að byrja á sem vísar í rannsóknir: http://www.wired.com/2014/06/wuwt-traffic-induced-demand/

Ég ætla líka að leyfa mér að hnýta í það orðalag að þú sért að endurtaka sömu rök aftur og aftur, því ég sé ekki mikið um rök í svörum þínum, heldur fullyrðingar eins og: "Ljóst er...", "Það er því staðreynd...", "Hins vegar er þekkt staðreynd..." og "Svifmengun má einnig minnka verulega með því einu að sópa götur reglulega og oftar". Með síðustu fullyrðingunni væri t.d. gaman að vita hversu mikið er verulega mikið, er það 60%, 70%? Hversu oft væri nóg að sópa?

Þú segir einnig að engar mælingar hafi verið gerðar á umferð á Grensásvegi. Það er einfaldlega rangt, eins og sjá má í ummælum umferðarverkfræðings Reykjavíkur hér: http://reykjavik.is/sites/default/files/opinn_ibuafundur_um_haaleitisbraut_og_grensasveg_0.pdf

Verðum við ekki að treysta umferðarverkfræðingum betur en leikmönnum eins og okkur sjálfum? Þeir eru a.m.k. ekki pólitíkusar.

Varðandi Borgartún rakst ég á þetta í dag á Fasbók (tek fram að ég þekki Þórgný ekki, þetta er á opinni grúppu): http://imgur.com/cidQnsl
Það væri gaman að sjá gögn sem hrekja þessar tölur frá honum, en þangað til er varla hægt að kalla þetta minnisvarða um heimsku.

Ég skil líka vel að þú sért skelkaður þegar þú þarft að fara í miðbæ Reykjavíkur á morgnana. Það finnst engum skemmtilegt að sitja í umferð, og sérstaklega ekki mér, en hvernig ætlarðu að leysa þetta? Hversu mikill tími myndi sparast ef Ártúnsbrekkan væri 5 akreinar í hvora átt (ef við lítum framhjá því hvað það væri mikil sóun á landi)? Myndi ekki samt myndast stífla við ljósin hjá Grensásvegi og á Sæbrautinni? Er ekki vandamálið einmitt það að það eru svo margir sem búa austan Elliðaáa sem hafa engan valkost annan en fara á bílnum vegna þess að borgin er svo dreifð? (Og nei, það ætlast enginn til þess að þetta fólk fari að hjóla). 

Síðan hef ég stundum í huga máltækið þegar ég sit einn í bílnum fastur í umferðarteppu: "You are not stuck in traffic, you are traffic."

hogo (IP-tala skráð) 15.1.2016 kl. 16:31

7 identicon

Ég keyrði líka Grensásveginn í dag, sem enn hefur tvær akreinar alla leið ólíkt Háleitisbrautinni (ofan Miklubrautar), sem var eyðilögð fyrir mörgum árum. Ferðin um Grensásveginn gekk mjög vel, engin stopp eða bið og hraðinn stöðugur uþb. 50 km/t. Engin vandamál þar.

Pétur D. (IP-tala skráð) 15.1.2016 kl. 16:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband