100% hrein orka?

Hvað er hrein orka?

Orkuframleiðsla er vissulega mis "hrein". En er til hrein orka? Varla. Jafnvel vatnsorka, sem talin er einhver hreinasta orkuframleiðsla sem þekkist, er fjarri því að vera hrein. Henni fylgir uppistöðulón, mismunandi stór. Slík orkuver eru oftast nokkuð fjarri neytandanum og því nauðsynlegt að byggja einhverskonar flutningsmannvirki til að koma orkunni milli staða.

En það er ekki vatnsorka sem þessir 570 þúsund mótmælendur kalla eftir. Þeir kalla eftir sólarorku. Það verður að teljast fullkomnun fáfræðinnar að kalla á sama tíma eftir sólarorku og hreinni orku. Þetta tvennt á ekki samleið, því fer víðs fjarri.

Sólarorkan verður ekki beisluð nema með til þess gerðum sólarsellum og þar sem sól skín einungis á daginn þarf eitthvað til að geyma hana yfir nóttina.

Þó gömlu blý rafgeymarnir, fylltir með sýru, séu á fallandi fæti og aðrir fullkomnari að taka yfir, er langt frá því að þessir nýju rafgeymar séu mengunarfríir. Þá er verð þeirra á þeim skala að ef ætti að koma þeim á hvert heimili og í hvert fyrirtæki, yrði að auka framlegð í heiminum langt umfram það sem nokkurn tímann er mögulegt.

Sólarsellur eru að uppistöðu byggðar úr kísil. Til að framleiða sólarsellu sem framleitt getur 1 MW þarf 5T af kísil. Þar sem nýtni þessara sella er hins vegar mjög lítil, eða um 15% við bestu aðstæður, þarf í raun 33 tonn af kísil til framleiðslu á einu megawatti af rafmagni. Þá á eftir að taka tillit til þess að mesta orkunotkun heimila er yfir dagtíma, meðan sólarsellan er að safna rafmagni inn á rafgeymana, svo orka sé til staðar yfir nóttina. Því má ætla að til framleiðslu sólarsellu sem gefin er upp fyrir 1 MW þurfi allt að 50 tonn af kísil. Hvert meðal heimili notar kannski um 3-5 MW á dag. Það skal þó tekið fram að þarna er um stofnkostnað að ræða. Verð á sólarsellum hér á landi er nú með þeim hætti að stofnkostnaður venjulegs heimilis, vilji það skipta alfarið yfir í sólarorku, án þess að minnka lífsgæðin, liggur einhversstaðar kringum einn tug milljóna króna. Vilji þetta heimili taka skrefið til fulls og nota rafbíl í stað bensín/díselbíls, er þessi kostnaður mun hærri. Þá á eftir að kaupa rafhlöður til geymslu orkunnar.

Eins og áður segir þá þarf kísil til framleiðslu sólarsella og það verulegt magn. Fram til þessa hefur þessi kísill verið unnin með svo kallaðri Siemens aðferð, þ.e. ýmis miðurgóð efnasambönd eru notuð til hreinsunar kísilsins. Þessi aðferð er vægast sagt mengunarmikil, svo mjög að áhöld eru á um hvort sé meira mengandi að framleiða rafmagn með olíu eða sólarsellum.

En á þessu stendur þó veruleg bót. Hér á landi stendur til að framleiða kísil til sólarsellugerðar með nýrri aðferð, aðferð þar sem þessi mengandi efnasambönd koma ekki við sögu. Þessi vinnsluaðferð er reyndar eins mengunarlítil og frekast getur orðið við framleiðslu á hreinum kísil. Þar að auki er þessi aðferð mun kostnaðarminni, þannig sá gífurlegi stofnkostnaður við vinnslu sólarorku mun minnka verulega. En þrátt fyrir að vinnsla kísilsins verði nánast mengunarlaus, er enn langt í land með að hægt sé að kalla orkuvinnslu sólargeislanna hreina.

Sú orkuvinnsla sem hreinust getur telist er auðvitað vatnsorkan, þrátt fyrir að langt sé frá því að hægt sé að kalla hana hreina. Næst kemur sennilega kjarnorka. Þar eru tvær megin aðferðir þekktar, vinnsla úr úrani og vinnsla úr þóríum.

Úran orkuverin hafa verið í gangi í áratugi. Þau urðu ofaná í árdaga kjarnorkunnar, að mestu vegna þeirrar hliðarafurðar sem hún gaf af sér, þ.e. hráefni í kjarnorkusprengjur. Helsti galli úranorkuvera er úrgangur frá þeim, en hlutleysistími hans er talinn í mörgum þúsundum ára.

Þóríum orkuver, stundum verið rangnefnd sem "köld kjarnorka", er þekkt aðferð, en varð að láta í minnipokann á árdögum kjarnorkunnar, þar sem þessi aðferð gefur ekki möguleika á vinnslu hráefna til sprengjuframleiðslu. Í dag er mikið rætt um þessa aðferð og Kínverjar eru á fullu að byggja slík orkuver. Hlutleysistími þóríum er talinn vera einhver örfá hundruð ára, vel innanvið 500 ár. Því er mun minni vandi vegna úrgangs frá þóríum kjarnorkuveri, auk þess sem nýting þeirra á hráefninu er mun betri en í úranverum.

"Kaldur kjarnasamruni" er auðvitað ekki til, en vinnsla í þóríumveri er samt mun kaldari en vinnsla í úranveri. Það er ljóst að framleiðsla orku í þóríumveri er langt frá því að teljast hrein, þó mun hún sennilega slaga hátt í að vera jafn hrein og vatnsorkan.

Hrein orka er ekki til og sólarorka flokkast með þeirri vinnslu sem óhreinust telst, kannski ekki eins slæm og kolaver, en þó ekki svo fjarri því.


mbl.is 570 þúsund tóku þátt í mótmælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Hvurju eru þá allir þessir mótmælendur að mótmæla? Sennilega hafa þeir fæstir hugmynd um það, en það er alltaf gaman að geta hóað saman í góð mótmæli. Góður pistill, en sennilega illa séður af "mótmælendum" dagsins í gær.

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 30.11.2015 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband