Mikið rétt hjá Árna Pál

Það er hárrétt hjá Árna Pál, þetta snýst ekki um hann. Það er vissulega gleðilegt að heyra eitthvað að viti frá þessum manni. Sorglegra er síðan að lesa fréttina sjálfa. Eftir þessa frábæru fyrirsögn hennar átti maður von á að eitthvað fleira kæmi af viti frá Árna Pál. Því er þó fjarri.

Fyrir það fyrsta þá er fyrirsögnin alger rangmæli við fréttina. Þar upphefur Árni Páll sjálfan sig, sem aldrei fyrr. Hann ætlar auðvitað ekki víkja, enda ekki hægt að skilja hann á annan hátt en engum öðrum sé betur treystandi, eða enginn annar sé betri, innan flokksins til að koma fram með tillögur um hvernig "Samfylkingin brjóti sig úr þeirri stöðu sem flokkurinn er í í dag".

Þá er Árni Páll enn fastur í sömu spólförunum og áður, kemur fram með frasann um ónýta krónu, þar opinberar hann að hjarta hans liggur ekki hjá íslensku þjóðinni, það slær taktinn í Berlaeymont. Það var þó blessaða krónan sem kom okkur til bjargar, þegar bankarnir hrundu. Sú staðreynd að við vorum utan ESB á þeim tíma, gerði okkur kleift að setja hér neyðarlög til varnar þjóðinni, gerði okkur kleyft að standa gegn ósanngjörnum kröfum svokallaðra vinaþjóða á okkur og vinna síðan það mál fyrir alþjóðlegum dómstól.

Skilningsleysi Árna Páls á gjaldeyri hvers lands opinberast í þessu viðtali. Hagkerfi hvers ríkis markast af tekjum og gjöldum þess. Það er ekkert sem getur breytt þeirri staðreynd. Sem hluti til að stjórna slíku hagkerfi er sá lögeyrir sem viðkomandi hagkerfi ræður yfir. Við upptöku sameiginlegs gjaldeyris við aðra þjóð eða þjóðarsamtök, er fórnað þessu stjórntæki. Það eitt að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil leysir því ekki vanda neins hagkerfis, eykur hann frekar.

En upptaka evru er ekki bara upptaka gjaldeyris. Til að geta tekið upp þann gjaldeyri þarf að gangast undir reglur og lög ESB, gerast aðili að sambandinu. Þá missum við ekki einungis stjórn á gjaldmiðlinum, við missum alla stjórn á hagkerfinu. Vaxtastefnan mun ekki taka mið af hagkerfinu og auðvelt að missa stjórn á fjármagnsstreyminu.

Við höfum nú fylgst með harmleik þjóðar sem telur 30 sinnum fleiri íbúa en Ísland. Harmleik sem varð vegna auðvelds aðgengis að ódýru fjármagni. Á örskömmum tíma tókst að gera lánabyrgði þess ríkis svo geigvænlega að ekki verður séð að það muni nokkurn tímann ná sér aftur. Þó er þetta ríki talið vera 37. sæti í vergri landsframleiðslu, með vlf. upp á 223.500 miljón dollara. Hvernig færi fyrir litlu landi eins og Íslandi, sem er í sæti 137 á sama lista, með vlf. upp á 9.756 miljón dollara? Eitt er víst að við búum að nægum fjölda manna sem væru tilbúnir að hlaupa á vagn ódýrs fjármagns, við værum ekki lengi að skuldsetja landið langt umfram það sem Grikkir gerðu.

En aftur að vanda Samfylkingar. Vissulega er Árni Páll ekki vandi þess flokks, enda formaðurinn kjörinn en ekki settur. Og víst er að jafnvel þó Árni Páll hafi sigrað formannskjörið á einu atkvæði, þá var hann kosinn.

Vandi Samfylkingar er mun djúpstæðari. ESB fylgdin er ein ástæða, að vísu nokkuð stór, en einungis ein. Sú staðreynd að flokkurinn hefur aldrei viðurkennt sinn þátt í hruninu er önnur. Síðasta kjörtímabil og hvernig þáverandi ríkisstjórn tók á málum almennings er þriðja ástæðan. Þar framdi Árni Páll alvarlegan pólitískan afleik, í starfi efnahagsráðherra. En kannski varð sú staðreynd að fylgispekt flokksins við erlend fjármálaöfl var með eindæmum, til þess að flokkurinn lenti í "náttúruhamförum" í síðustu kosningum. Þessi fylgispekt byggði öll á vonarneista á því að komast til Brussel og var að stórum hluta bein eða óbein fyrirmæli þaðan.

Stæðsti vandi Samfylkingar er þó ekki falinn í því sem að ofan er nefnt. Stæðsti vandi Samfylkingar er sú staðreynd að þetta er ekki flokkur fólksins, þetta er flokkur elítunnar og þá hellst menntaelítunnar. Flokkurinn skýlir sér á bak við orðið "jafnaðarmennska". Ekki er þó til einn snefill af jafnaðarmennsku innan þess flokks, nema auðvitað sú jafnaðarmennska sem George Orwell lýsir í bók sinni Animal Farm. Að allir séu jafnir en sumir jafnari. Þarna liggur megin vandi Samfylkingar.

Og þessi vandi verður ekki leystur, hvorki af núverandi ráðaöflum innan flokksins né neinum þeim sem að honum standa. Strax við stofnun yfirtók menntaelítan þennan flokk og hefur yfirtekið hann eins og krabbamein. Samfylkingin mun því svo lengi sem flokkurinn lifir, verða flokkur hennar. Það þíðir að fylgi flokksins á enn eftir að lækka og hugsanlega mun hann verða eins til tveggja manna flokkur á þingi.

Jafnaðarmenn þessa lands hafa um stundir fundið sér annan stað. Hugsanlega munu þeir smíða sér nýjan flokk, en það verður þá alfarið án þeirra afla sem Samfylkingin byggir á.

Árni Páll verður að sætta sig við þá staðreynd að ef hann ætlar að vera stjórnmálamaður áfram, þá hefur hann einungis menntaelítuna að baki sér. Hinn almenni jafnaðarmaður mun aldrei styðja hann né flokk hans aftur. 

Kannski væri betra fyrir Árna Pál að snúa sér bara aftur að lögræðistörfum.


mbl.is „Þetta snýst ekki um mig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta er góð lesning gunnar, en þó einkum að upptaka evru er engin lausn, það koma bara ný vandamál í staðinn, það er það sem almenningur þarf að skilja. Grikkir engjast um í evrugildrunni, ætti það að hafa verið eitthvað öðruvísi ef ísland væri með evru? Svo er villandi og jafnvel ábyrgðarlaust að segja að krónan sé ónýt. Hver íslendingur sem labbar út í búð og kaupir sér í matinn með íslenskum seðlum getur staðreynt það, annars er það ekki fyrsta vitleysan sem maður hefur heyrt úr stjórnmálapottinum ... og sjálfsagt ekki sú síðasta

Brandur (IP-tala skráð) 6.9.2015 kl. 23:28

2 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Ég held að það sé litið við pistilinn að bæta Gunnar, þú ert með Árna Pál og Smfylkinguna á hreinu. þetta eru latte lepjandi kaffihúsalýður í 101 Reykjavík sem eru með beislin á Samfylkinguni og stjórna honum að vild. Það má benda á hvað Dagur B er að gera, sama ruglið, er hann ekki líka í Smfylkinguni?

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 7.9.2015 kl. 01:55

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Dagur er á góðri leið með að leggja höfuðborgina í rúst. Skipulagsmál hafa verið í algjöri rugli frá því hann komst til valda, fyrst í skjóli skemmtikrafts sem síðan nennti þessu ekki lengur.

Fjármál borgarinnar eru með þeim hætti að dag hvern aukast skuldir hennar um 700,000 krónur. Geri aðrir betur!

Jú, vissulega er Dagur í Samfylkingunni, var eitt sinn nefndur til formanns í þeim flokk. Ekki hefur heyrst mikið upp á síðkastið hvort honum langi í landsmálapólitíkina, en ekki kæmi á óvart þó hann nýtti tækifærið núna, þegar hart er gengið að Árna Pál og sæi sér hag í því að yfirgefa borgina, eftir að hafa silgt henni í strand. Það myndi hæfa honum að vera í brúnni á flokknum, þegar hann sekkur til botns.

Gunnar Heiðarsson, 7.9.2015 kl. 03:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband