Hugsjón

Það er virðingarvert þegar fólk komið langt á áttræðisaldur fylgir hugsjón sinni eftir. Enginn efi er að þessi för Ómars er einstakt afrek og sennilega fáir á hans aldri sem myndu treysta sér til að toppa hana.

En það þarf samt að halda sig við staðreyndir. Það er vissulega staðreynd að Ómar hjólaði milli Akureyrar og Reykjavíkur og jafnvel þó hann hafi verið á hjóli með hjálparmótor, er afrekið einstakt. En að halda því fram að ferðin hafi kostað 115 krónur er kannski full mikið skáldað.

Skoðum dæmið örlítið.

Ef ég færi á milli Akureyrar og Reykjavíkur á mínum bíl, myndi ferðin kosta mig um 7500 krónur. Ekki er ég á neitt sérstaklega sparsömum bíl, ek á japönskum pickup með díselvél. Af þessum 7500 krónum myndi eldsneyti á bílinn kosta um 6000 krónur og af tillitsemi við gestgjafana sem ég ætlaði að heimsækja, þá myndi ég stoppa einu sinni á leiðinni og kaupa mér hamborgara og gos. Það er aldrei skemmtilegt að mæta til gesta glorhungraður. Þegar til Reykjavíkur væri komið væru rétt um fimm tímar liðnir frá því lagt var af stað frá Akureyri, miðað við að fara aldrei yfir löglegan hraða og stoppið í sjoppunni tæki um hálfa klukkustund.

Ef ég hins vegar færi að fordæmi Ómars og fengi mér reiðhjól með hjálparmótor, yrði þessi ferð nokkuð dýrari. Ómar fór ferðina á um fjórum dögum. Ekki treysti ég mér til þess þó ég sé nokkuð yngri en hann, gæti þess vegna verið sonur hans, þegar aldur er annarsvegar. Dagarnir hjá mér yrðu sjálfsagt mun fleiri, ef ég þá næði einhvertímann á áfangastað. En reiknum með fjórum dögum.

Þá þyrfti ég að kaupa gistingu í þrjár nætur. Hægt er að fá bændagistingu frá ca. 8000 kr og allt upp í 20000 krónur. Algengast verð er kringum 15000 kallinn. Þá er ég strax kominn upp í 45000 krónur. Eitthvað þarf maður að borða. Auðvitað þarf maður alltaf að borða, hvort sem verið er að hjóla milli Akureyrar og Reykjavíkur, eða hvort maður bara liggur út á palli að sleikja sólina. Hins vegar er nokkur verðmunur á því að kaupa sér mat í sjoppu eða á matsölustað, eða hvort maður eldar eitthvað upp úr frystikistunni. Ætla má, án þess að ýkja, að mismunurinn þarna á sé frá 1000 til 3000 krónum á dag, eftir því hversu vel maður lætur við sig heima. Þarna er því kominn að lágmarki 4000 kall til viðbótar, eða samanlagt 49000 krónur. Ofaná þetta leggjast síðan 115 krónurnar fyrir rafmagn á hjólið. Samtals myndi slík hjólreiðaferð því kosta mig 49115 krónur, að lágmarki. Mismunurinn er þá eitthvað yfir 40000 krónum, rafhjólinu í óhag.

Auðvitað má svo hafa fylgdarbíl með, þannig að loknum hverjum degi er sett mark á götuna, svo vitað sé hver byrja skal næsta dag. Síðan stigið upp í fylgdarbílinn, hjólið sett afturí og haldið heim í mat og ból. Daginn eftir síðan farið á fylgdarbílnum að því marki sem sett hafði verið í götuna og stigið þar á hjólið og haldið áfram. Kostnaðinn við þá aðferð ætla ég ekki að reikna.

Megin málið er að heildarkostnaður við að fara á rafdrifnu reiðhjóli frá Akureyri til Reykjavíkur getur aldrei orðið 115 krónur. Þetta er fölsun.  

Slíka fölsun þarf Ómar ekki að nota. Ferðin var afrek, hvernig sem á það er litið. Og rökin fyrir rafreiðhjólum eru vissulega til staðar, þó kannski ekki til langferðalaga. Þó er þessi ferðamáti hinn besti fyrir þá sem vilja ferðast hægt og njóta náttúrunnar. En að setja þetta upp sem einhvern hugsanlegan ferðamáta til að komast milli landshluta, er fjarri sanni.

Hugsjón getur leitt af sér kraftaverk og víst er að hugsjón Ómars veitti honum styrk til slíkra hluta. En hugsjón getur líka svipt menn skynsemi og hlaupið með þá í gönur. Eftir þetta mikla afrek Ómars, þá fellur hann í þá gryfju að koma fram með yfirlýsingu sem aldrei getur staðist. Það er ljóður á annars miklu afreki.


mbl.is Til Reykjavíkur á 115 krónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar segir hvergi að heildarkostnaður hafi verið þessar 115 krónur. Hann segir að orkukostnaðurinn hafi verið þessar krónur. Það kemur reyndar oft fram í fréttinni að þessar 115 krónur hafi verið orkukostnaðurinn. það er bara í fyrirsögninni sem blaðamaðurinn gefur í skyn að heildarkostnaðurinn hafi verið svona lítill, en það það má þó skilja hana sem svo að eingöngu sé átt við orkukostnaðinn, eða hvernig myndir þú skilja fyrirsögnina "Til Reykjavíkur á 10 lítrum" ? 

ls (IP-tala skráð) 21.8.2015 kl. 09:20

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

 Það er greinilega búið að breyta fréttinni Is. Í upphaflegu fréttinni var sagt að heildarkostnaður væri 115 krónur. Ef það hefði ekki komið fram hefði ekki verið nein ástæða fyrir minni færslu, hún kom eingöngu til vegna þessarar fullyrðingar.

Eins og fram kemur í minni færslu, þá tel ég þetta mikið afrek af Ómari og dáist af honum fyrir það, en eingöngu vegna þess að fullyrt var í fr+ettinni að heildarkostnaður væri 115 krónur, sá ég ástæðu til að hamra á lylklaborðið. Hins vegar kom ekki fram í upphaflegu fréttinni hvort það var Ómar sem hélt þessu fram, eða hvort þarna væri fréttamaður að skreyta. En við lestur hennar var ekki annað hægt að skilja en sú fullyrðing væri Ómars.

Gunnar Heiðarsson, 21.8.2015 kl. 09:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband