Bölvuð afskiptasemi er þetta!
22.7.2015 | 10:49
Það fer ekki á milli mála að Steinþóri finnst þetta bölvuð afskiptasemi, bæði að fréttamiðlar skuli vera að skipta sér af þessu og ekki síður að hluthafar skuli vilja eitthvað hafa um málið að segja. Þetta viðhorf skín í gegn í þessu viðtali við hann.
Rökin sem bankastjórinn færir eru hins vegar ansi þunn og standast enga skoðum.
Fyrir það fyrsta þá segir hann að bankinn vilji vera þar sem viðskiptin fara fram. Þvílíkt rugl. Auðvitað má segja að helstu viðskipti bankans fari fram í miðbænum, í dag, enda höfuðstöðvar bankans þar. En hvar eru viðskiptavinir bankans? Hvað finnst þeim um að þurfa að þvælast niður í miðbæ til að sinna sínum viðskiptum við bankann? Er ekki þessi banki kannski bara fyrir þau fyrirtæki og þá Íslendinga sem búa í miðbænum? Er þetta ekki banki allra landsmanna?
Þá segir bankastjórinn að bankinn hafi gert hagstæð kaup á lóðinni, einungis greitt tæpan milljarð fyrir hana. Hann gefur í skyn að verðmæti lóðarinnar sé mun meira. Þó var haldið opinbert útboð á þessari lóð og einungis tveir aðilar sem buðu, Landsbankinn og einhver annar aðili sem bauð um 800 miljónir í skikann, eða um 150 milljónum lægra en bankinn. Því er vandséð að einhver hagnaður sé í verðmæti lóðarinnar, en ef svo er þá ætti bankinn að sjálfsögðu að nýta sér þann hagnað með sölu á henni.
"Samkeppnisaðilarnir eru á svipuðum slóðum", segir bankastjórinn og telur það rök fyrir þessari byggingu. Kannski má segja að höfuðstöðvar Arionbanka séu á svipuðum slóðum, þó heldur séu þær utar miðbæjarins. Varla verður því haldið fram að höfuðstöðvar Íslandsbanka teljist innan miðborgar. Þá ber að líta til þess að höfuðstöðvar beggja þessara banka voru byggðar fyrir hrun og bygging höfuðstöðva Arionbanka mjög gagnrýndar á sínum tíma, jafnvel í öllu því æði sem þá geisaði. En bankinn var einkafyrirtæki og ekki almennings að skipta sér af því. Um Landsbankann gilda aðrar reglur og þá ætti bankahrunið að klingja einhverjum bjöllum í hausnum á Steinþóri.
Síðustu rökin sem bankastjórinn tiltekur í þessu viðtali, bílastæðamál, eru vart svaraverð, svo fámunalega vitlaus sem þau eru. Með því einu að láta af þeirri kröfu að byggja höfuðstöðvar í þröngum miðbæ Reykjavíkur, úr leið fyrir flesta viðskiptavini bankans og færa þær á betri stað, mun þetta vandamál leysast af sjálfu sér.
Væntanlega mun verða haldinn hluthafafundur um þetta mál. Enn hefur ekkert heyrst frá þeim manni sem heldur um stæðsta hluthafabréfið, fjármálaráðherra, um hans viðhorf til þessa máls. Hins vegar hafa bæði stjórnarþingmenn sem og sumir ráðherrar sagt skilmerkilega frá sinni afstöðu. Væntanlega verður fjármálaráðherra að taka tillit til þeirra sjónarmiða, a.m.k. ræða málið í ríkisstjórn. Aðrir hluthafar hafa tjáð sig um málið, skýrt og vel.
Út frá þessu hlýtur hluthafafundur að komast að þeirri niðurstöðu að bankaráð og bankastjóri hafi farið þarna offari, jafnvel út fyrir sín verksvið og mörk. Því hljóta hluthafar að mæta til fundarins með tillögu um nýtt bankaráð og nýjan bankastjóra.
Það sem bankastjóranum þykir afskiptasemi, er ekkert annað en eðlilegt aðhald. Aðhald sem er flestum Íslendingum efst í huga, eftir sögulegt efnahagshrun. Kannski ætti þetta viðhorf að vera bankastjórum landsins enn skýrara.
Engin flottræfilshöll við Hörpu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fyrir utan það að bankaviðskipti breytast svo hratt að ekki verður nokkur þörf fyrir svona "flottræfilshöll". Ef bankinn á svona mikinn afgang eftir reksturinn er þá ekki augljóst að gjöldin sem hann innheimtir fyrir þjónustuna eru of há?????
Jóhann Elíasson, 22.7.2015 kl. 13:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.