Arðgreiðslur

Það er ekkert að því að fyrirtæki greiði arðgreiðslur. Það er væntanlega merki um góðan rekstur og aukna framleiðni. En á þessu eru þó ýmsir fletir.

Fyrir það fyrsta þarf hagnaðurinn að vera eðlilegur, byggður á raunverulegri verðmætaaukningu. Vel rekin fyrirtæki, sem skapa verðmæti, geta og eiga að sjálfsögðu að láta eigendurna njóta þessa hagnaðar í auknum arði. Auðvitað á hluti þessa verðmætaaukningar að koma í hlut starfsmanna, það eru jú þeir sem skapa þessi verðmæti, en eigendur eiga að sjálfsögðu að njóta megin hluta hagnaðarins. Hvort þeir síðan nýta hann til frekari uppbyggingar á sínu fyrirtæki, eða til auðsöfnunnar, er í valdi þeirra sjálfra. Eigandi vel rekins fyrirtækis myndi að sjálfsögðu nýta megnið af arðinum til frekari uppbyggingar og eflunnar á sínu fyrirtæki, en það er alltaf í hans valdi að ákveða slíkt.

Fyrirtæki eins og bankar, ríkisfyrirtæki (t.d.Landsvirkjun) og önnur þau fyrirtæki sem byggja sinn hagnað fyrst og fremst á hækkun sinna verðskráa, eiga hins vegar að fara varlega í arðgreiðslur. Undir þá skilgreiningu fellur t.d. GAM Managment hf., fyrirtæki sem byggir á því að höndla með peninga annarra. Hjá þessu fyrirtæki er engin raunveruleg verðmætasköpun og jafnvel þó reikningar þessa fyrirtækis sýni 47% margföldun eigin fjár, frá árinu 2008, er ekki um nein raunveruleg verðmæti að ræða. Allt þetta eigið fé er fengið með því að höndla annarra manna eigur.

Ég setti Landsvirkjun innan sviga hér fyrir ofan. Mikil umræða hefur verið um að auka hagnað þess fyrirtækis, sem og annarra orkusölufyrirtækja eins og Orkuveitu Reykjavíkur og ýmsar misgáfaðar hugmyndir þar um. Svo langt er gengið að áhættufjárfestingar þykja ekki tiltölumál í þessum tilgangi. Í gegnum tíðina hefur hagnaður þessara fyrirtækja skilað sér að mestu til íslenskra neytenda, þ.e. orkuverði til heimila hefur verið haldið eins neðarlega og hægt hefur verið. Nú er breyting á og sýnist sem þetta viðhorf sé að breytast, viðsnúningur varð um þetta á síðasta kjörtímabili. Arðsemiskrafan hefur aukist og er sem það sé í einum tilgangi, að geta greitt einhverja tugi milljarða í arð til eigenda, ríkissjóðs og sveitastjórna. Auðvitað er hver króna í þessa sjóði góðs gildi, en ef við myndum hækka skatta um einhverja tugi milljarða er hætt við að fólk væri ekki eins sátt. Þetta er ekkert annað en dulbúin skattálagning. Betra að halda sig við þau gildi sem áður voru, að arður þessara fyrirtækja skili sér til þeirra sem nýta afurðir þeirra, með lágu orkuverði. Það væri sannarlega viðleitni til að halda því fólki hér heima sem sér gull og græna skóga í útlöndum, væri þungt lóð á vogarskálar launafólks.

Það er því ekkert að því að vel rekin fyrirtæki greiði sér arð, ef sá góði rekstur byggir á raunverulegum verðmætum. Það er heilbrigt.

Þegar fyrirtæki sem byggja sinn hagnað á froðu eða hækkunum verðskrár, eins og t.d. bankar, GAM Managment og ýmis þjónustufyrirtæki, fara að greiða sér arð, erum við komin í sömu geðveikina og fyrir hrun. Það er óheilbrigt og mun sannarlega leiða til annars hruns.

 


mbl.is Arðgreiðslur á hraðri uppleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband