Frekar aum afsökun

Það er frekar aum afsökunin sem varaformaður stjórnar Gildis kemur með fyrir landsmenn, þegar gagnrýnd eru afskiptaleysi, eða jafnvel samþykki, fulltrúa lífeyrissjóðanna fyrir 33% launahækkun til stjórnarmanna HB Granda. Hún heldur því fram að fundarmenn hafi ekki verið upplýstir um þá breytingu, að einungis hafi verið greidd atkvæði um laun stjórnarmanna, án þess að tilkynna að um 33% hækkun væri að ræða.

Hver mætir á aðalfund án þess að vera búinn að glugga í ársreikning viðkomandi fyrirtækis? Er það virkilega svo að fulltrúar lífeyrissjóðanna í stjórnum stæðstu fyrirtækja landsins telji sig vera þar til skrauts? Þessir fulltrúar eiga að afla sér upplýsinga og mæta til fundarins vel upplýstir. Þá hefðu þeir væntanlega átt að geta séð að um verulega hækkun launa stjórnarmanna var að ræða. Nú ef þeir voru ekki vissir, þá mátti spyrja fundarstjóra. Það bannaði enginn varaformanni Gildis að spyrja fundarstjóra í hverju tillaga stjórnar um laun til stjórnarmanna lægi, hvort þarna væri um hækkun að ræða. Slíka fyrirspurn ber fundarstjóra að taka fyrir og fresta atkvæðagreiðslu á meðan.

Varaformaður Gildis gerir lítið úr sjálfum sér með svona afsökunum, sýnir að hann telur sitt hlutverk á aðalfundi HB Granda vera eitthvað annað en standa vörð um þá eign sem sjóðsfélagar eiga í fyrirtækinu.

Það liggur fyrir að þessi launahækkun til stjórnarmanna HB Granda hefur hleypt illu blóði í kjaraviðræður, ekki bara þeirra sem semja við það einstaka fyrirtæki, heldur allra þeirra sem nú berjast fyrir hærri launum. Jafnvel hefur heyrst að launþegar þeirra stéttarfélaga sem lögðu fram kröfur undir 33%, vilji hækka sínar kröfur til jafns við það. Þetta útspil stjórnar HB Granda, sem aðalfundarmenn samþykktu samhljóða, mun gera lausn kjaradeilunnar enn erfiðari, að víðtæk verkföll eru nánast örugg. Um lengd þeirra er erfitt að spá, en harka launþega jókst mikið eftir aðalfund HB Granda og ljóst að erfiðara verður fyrir það fólk að gefa eftir.

Hvert skildi tap lífeyrisjóðsins Gildis og annarra lífeyrissjóða sem eiga hlut í HB Granda verða, ef verkfall stendur í nokkrar vikur og hlutabréf fyrirtækisins falla í verði? Munu þessir sjóðir kannski þurfa að skerða lífeyri til sjóðsfélaga, vegna þess taps?

 


mbl.is Ábyrgð, stefna og lína sem var ekki farið eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Óupplýstir fundarmenn sem ætla má að séu fleiri en tugur,eiga það þá sameiginlegt að mæta til aðalfundar ansi áhugalitlir. 

Helga Kristjánsdóttir, 19.4.2015 kl. 08:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband