Að vaða í villu
16.4.2015 | 22:34
Björgólfur Jóhannesson, formaður SA, fer mikinn á ársfundi atvinnulífsins. Þar talar hann m.a. um laumufarþega og segir forystu stéttarfélagana fara fram með blekkingar.
Um laumufarþegana, sem Björgólfur nefnir, hefur mikið verið ritað og rætt síðustu daga og hefur sú umræða jafnvel ratað inn á Alþingi okkar. Því er von að hann hafi áhyggjur af þessum hópum, þeim hópum sem ekki hafa sýnt að þeir vilji spila með í þessu þjóðfélagi, heldur telja sig utan þess og engum háðir. Þetta eru þeir hópar sem hafa sótt launahækkanir langt umfram það sem öðrum er boðið og Björgólfur telur hagkerfið geta staðið undir.
Björgólfur Jóhannesson, formaður SA og forstjóri Icelandair Groub, ætti kannski að líta sér nær. Sjálfur hefur hann staðið að kjarasamningum við sitt fólk upp á nokkra tugi prósenta, á síðustu misserum. Því má segja að hann sjálfur sé einn þessara laumufarþega, kannski sá laumufarþeginn sem mest áhrif hefur haft á þá stöðu sem nú er komin upp á almennum vinnumarkaði. Það er sama hversu fallegt orðagjálfrið er, verkin tala!!
Sú fullyrðing Björgólfs að forysta stéttarfélaga stundi það að villa um fyrir launafólki, er frekar ómerkilegog ömurleg. Það er kannski von að sá sem hefur í laun á mánuði sem svarar launum hins almenna launþega á heilu ári, eigi erfitt með að setja sig í spor þeirra sem ekki ná endum saman við hver mánaðarmót. Þetta er vandi sem Björgólfi er gjörsamlega óþekktur.
Forysta stéttarfélaga villir ekki um fyrir launafólki, það þekkir sinn vanda sjálft og vel það. Hins vegar er frekar grátlegt að lesa í blöðum greinar og auglýsingar frá SA, þar sem tölum er hagrætt á þann veg að engu er líkara en að láglaunafólkið hafi það allra best hér á landi, meðan stjórnendur fyrirtækja lepja dauðann úr skel. Þetta er gert með framsetningu línurita, þar sem forsendur eru vandlega valdar og uppsetning þannig að augað nemi rangar upplýsingar. Það kallast að villa um fyrir fólki.
Það þarf enga stærðfræðinga, formenn stéttarfélaga, né forustu SA til að segja verkafólki til um hvort það hafi það skítt eða ekki. Tóm pyngja, löngu fyrir hver mánaðamót, talar skýrar til launþega en nokkur annar getur.
Björgólfur veður í villu, telji hann sig þess færan að sannfæra sársvangann launþegann um að hann hafi það bar aldeilis ágætt.
Björgólfur veður í villu telji hann að með orðum sínum sé hann að leggja sitt á vogarskálar lausnar kjaradeilunnar.
Verst er þó að með málflutningi sínum er hann að villa um fyrir fólki, ekki launafólki, heldur samherjum í sveit SA. Væntanlega telja þeir þennan mann vita hvað hann segir, þar sem þeir velja hann sem sinn leiðtoga. Því gæti svo farið að margir samherjar Björgólfs í sveit SA vaði einnig í villu með sínum leiðtoga.
Það gæti gert lausn kjarasamninga enn erfiðari!!
Ekkert rými fyrir laumufarþega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.