Fyrirtækið er starfsfólkið

Samtök verslunar og þjónustu ætti að tala varlega þegar um launakjör starfsfólks er að ræða. Óvíða eru launakjör lélegri en einmitt í þeim bransa, stór hluti þeirra rúmlega eitt þúsund milljarða afskrifta bankanna eftir hrun fór til fyrirtækja innan samtaka verslunar og þjónustu og óvíða er hagnaður fyrirtækja jafn mikill og einmitt hjá fyrirtækjum innan þeirra sömu samtaka. Hagnaður Haga á síðasta ári dygði fyrir launahækkunum hjá 50.000 manns, ef gengið yrði að fullu að kröfum stéttarfélaga innan Starfsgreinasambandsins.

En nei, samtök verslunar og þjónustu vilja að RÍKIÐ komi þeim til hjálpar, kalla eftir niðurgreiðslum launakostnaðar. Þá dettur þeim sú dómadags fyrra í hug að ætla launafólki sjálfu standa undir hluta "launahækkunarinnar" með því að hækka grunnlaun með lækkun álags á yfirvinnu og vaktavinnu. Þvílík fjarstæða, það er greinilegt að þetta blessaða fólk sem stjórnar einokunarverslun á Íslandi þekkir ekki hvað vinna er, þekkir ekki hvernig það er að þurfa að vera í vinnu meðan fjölskyldan bíður heima! Það er ljóst að þetta fólk sem þarna stjórnar áttar sig ekki á að verslun og þjónusta væri harla lítil ef ekki væri starfsfólk.

Það er kominn tími til að eigendur og stjórnendur fyrirtækja fari að átta sig á hvernig hagnaður fyrirtækja verður til. Hann er ekki skapaður af eigendum, ekki forstjórum eða stjórnendum, hagnaður fyrirtækja verður til vegna starfsfólksins á gólfinu. Það breytir litlu fyrir fyrirtæki þó eigandinn láti sjaldan eða aldrei sjá sig innan þess. Þó forstjórinn fari í frí í nokkra daga og jafnvel þó hann tæki alla sína nánustu stjórnendur með sér, heldur fyrirtækið áfram að búa til verðmæti. En ef fólkið á gólfinu mætir ekki til vinnu, leggst öll verðmætasköpun af, jafnvel þó allir eigendur mæti á staðinn, forstjórinn sitji í sínum stól og hans næstu stjórnendur þjóni honum til skrifborðs. Samt verður engin verðmætasköpun til, af því fólkið á gólfinu mætti ekki!

En hver fær svo hagnaðinn af þeirri verðmætasköpun sem verður til. Hverjir fengu hagnaðinn af Högum, HB Granda eða öllum þeim fyrirtækjum sem hafa verið að sýna ótrúlegan hagnað upp á síðkastið? Fór hann í vasa starfsfólksins sem bjó hann til? Nei aldeilis ekki, ekki ein króna! En það var borgaður vænlegur arður út úr þessum fyrirtækjum, til eigendanna. Laun forstjóranna og efstu stjórnenda voru hækkuð, bæði með beinum launahækkunum og einnig alls kyns bónusum, stundum afturvirkt um meir en ár.

Einn forstjóri sem ég vann hjá fyrir allmörgum árum síðan sagði að fyrirtækið væri starfsfólkið. Húsakostur tæki og búnaður væri einungis steinsteypa og járnarusl, sem ekkert gæfi af sér ef ekki væri starfsfólkið. Þessir hlutir væru einskis virði nema sem tæki og tól fyrir starfsfólkið, svo ÞAÐ gæti skapað verðmætin.

Þessi orð eiga aldrei meira erindi til atvinnurekenda en einmitt nú, þegar þeir með frekju sinni og fégræðgi ætla að stefna landinu í voða með verkföllum!!


mbl.is Horfa eigi til aðgerða sem skili árangri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Óttar Möller sagði í myndinni sem gerð var um Eimskip árið 2013 eitthvað á þá leið, að forstjórar sem ekki bæru virðingu fyrir starfsfólkinu sínu væru helvítis fífl.

Erlingur Alfreð Jónsson, 22.3.2015 kl. 09:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband