Kosningasvik, ólýðræðisleg vinnubrögð og lögbrot

Mikill hávaði hefur verið í aðildarsinnum (landsölufólkinu) síðustu daga, eða frá því núverandi ríkisstjórn loks tók af skarið og stóð við eitt af sínum kosningaloforðum.

Menn tala um svik á kosningaloforðum, ólýðræðisleg vinnubrögð og jafnvel lögbrot. Fyrir þá sem svo mæla er rétt að skoða upphaf þessa máls, líta aftur til vors og sumars ársins 2009, þegar sú afdrifaríka ákvörðun um að fórna landinu á altari auðhyggjunnar í Brussel, að láta teknókrata ESB eftir að stjórna okkar landi.

Vorið 2009 tók við stjórn landsins svokölluð "tær vinstristjórn". Þar féllust í faðma kommúnistar og kratar þessa lands, eftir að hinir síðarnefndu höfðu atað þá fyrrnefndu saur í þingsal Alþingis á eftirminnilegan hátt. Það skítkast var sett til hliðar og mynduð ríkisstjórn.

Kvöldið fyrir kosningadag komu frambjóðendur allra flokka í viðtal í sjónvarpi landsmanna. Þar var foringi kommúnista spurður að því hvort hann myndi samþykkja aðildarumsókn að ESB, fengju þessir tveir flokkar samþykki landsmanna til að stjórna landinu. Í þrígang neitaði þessi foringi því að sótt yrði um aðild og klykkti út með því að segja að jafnvel þó forusta flokksins gengi að slíkri kröfu krata, myndi flokkurinn aldrei samþykkja slíkt, enda ein af grundvallar hugsjónum kommúnista að Ísland ætti ekki erindi inn í slíkt ríkjasamband sem ESB. Þetta sagði foringinn kvöldið fyrir kjördag, frammi fyrir alþjóð. Hversu margir kusu hans flokk í þeirri trú að hann væri maður orða sinna verður aldrei vitað, en flokkurinn vann sinn stæðsta kosningasigur daginn eftir. Foringinn sagði þessi orð þann 24 apríl 2009, þann 16 júlí sama ár, tæpum þrem mánuðum síðar, samþykkti þessi maður síðan umsóknaraðild í atkvæðagreiðslu á Alþingi. Varla eru til meiri og alvarlegri kosningasvik en þetta!

Þegar tillagan um aðildarumsókn var í meðferðum Alþingis, sumarið 2009, komu fram óskir um að láta þjóðina ákveða hvort sótt skyldi um aðild að ESB. Því var alfarið hafnað af meirihluta Alþingis. Þannig var lýðræðið höndlað á þeim tíma. Þeir sem svo freklega sviku þjóðina um lýðræðislega ákvörðun um hvort landinu yrði fórnað á altari ESB, heimta nú atkvæðagreiðslu! Þeir hafa manna síst efni á slíkri kröfu. Lýðskrum þessara manna er algert. Lýðræðið er þeim aðeins heilagt ef þeir sjálfir telja sig geta grætt á því!

Í 19 grein stjórnarskrár segir: Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum. Varla getur nokkur stjórnaraðgerð verið mikilvægari en sú hvort sjálfstæði landsins sé fórnað, að hluta eða öllu leyti. Aðildarumsóknin getur því aldrei talist annað en meiriháttar mál, hvernig sem formið á slíkri umsókn er háttað. Forsetinn ritaði aldrei sitt nafn undir þessa þingsályktunartillögu, né handhafar forsetavalds í fjarveru hans. Því var umsóknin alla tíð ógild, hrein lögleysa. Sjálf stjórnarskráin var brotin með umsókn krata og kommúnista að ESB.

Það liggur því fyrir að tilurð aðildarumsóknarinnar byggðist á kosningasvikum, ólýðræðislegum vinnubrögðum og lögbroti.

Það sem byggt er á svo veikum grunni sem aðildarumsóknin var, er dæmt til að glatast. Þar geta kratar kennt sjálfum sér um og engum öðrum. Þeir treystu ekki þjóðinni og við fyrsta tækifæri, eða í kosningum tæpum fjórum árum síðar, sýndi þjóðin að hún treystir ekki heldur krötum!!

 

 

 

 


mbl.is Dragi bréfið til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er allt hárrétt og ekki nema viðeigandi að "núllstilla" ferlið eins og forsætisráðherrann talaði um nýlega. 

Til að koma Íslandi í ESB þarf eftirfarandi:

1. Þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þjóðin vilji gerast aðili að ESB

2. Breyta stjórnarskrá svo þeir sem vinna að því að koma þjóðinni undir erlent vald með aðstoð erlendis frá, séu ekki þar með landráðamenn. 

3.  Alþingi semur lög sem með samþykki forseta veitir t.d. framkvæmdavaldi umboð til að leggja inn aðildarumsókn. Trúlega færi þó enn betur á að forseti legði hana inn ef af yrði.

4. ESB samþykkir umsóknina.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.3.2015 kl. 09:16

2 identicon

Í stað þessa eðlilega ferlis hér að ofan fengum við einhverja súrealíska útgáfu af "Gullna hliðinu" þar sem skjóðu með frelsi og sjálfstæði Íslendinga var hent inn fyrir og reynt að láta það heita eitthvað annað en það var. (Ég sé ekki í fljótu bragði hvar stjórnarskrá fjallar um landráð og verð því að setja fyrirvara við nr. 2 að ofan, skrifaði það eftir brigðulu minni,  en hegningarlögin fjalla um landráð t.d. 86 greinin)

        Þjóðin ekki spurð, Forsetanum haldið frá ákvörðuninni með því að sækja um í nafni "viljayfirlýsingar" þingsins. 

Svo vogar þetta lið sem að þessu stóð að tala um ólýðræðisleg vinnubrögð þegar undið er ofan af vitleysunni.  

Árni Páll gengur svo langt að tala um landráð þegar núverandi ríkisstjórn er að reyna að finna diplómatíska leið til að móðga ekki ESB og rekast hvergi utan í þegar bakkað er út.

Auðvitað er Árni Páll landráðamaðurinn í málinu í skilningi 86 gr. hegningarlaga en af vorkunnsemi hafa menn svona heldur reynt að gera lítið úr því.

Varðandi þann gjörning að kúpla framhjá forseta við aðildarumsókn er 21. gr. stjórnarskrár upplýsandi:  21. gr. Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.

Hér er svo 86 gr. hegningarlaga um landráð.  Þetta að kíkja í pakkann voru svik og blekkingar sem og að sækja um aðild í krafti ályktunar Alþingis en ekki með löggjöf þess.

 86. gr. Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða ævilangt.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.3.2015 kl. 09:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband