Bankar og lög

Eru bankar og lánastofnanir einnig undanþegnir lögum um húsaleigur, eins og þeir virðast undanþegnir öllum lögum um lánastarfsemi?

Í húsaleigulögum, 1994 nr.36, eru réttindi og skyldur leigusala og leigutaka tíunduð. 

Í grein 4, þessara laga segir að leigusamningar skuli skriflegir.

Í grein 9. segir að leigusamningar geti verið tvennskonar, tímabundnir og ótímabundnir. Leigusamningur telst ótímabundinn nema um annað sé ótvírætt samið.

Við sölu á húsnæði segir m.a. í grein 42 að seljandi húsnæðis sé laus allra skuldbindinga leigusamnings en kaupandi komi í einu og öllu í hans stað að því leyti.

Ellefti kafli þessara laga segir til um uppsögn og lok leigusamninga. Þar segir í grein 56 um ótímabundna samninga sé uppsagnafrestur beggja aðila sex mánuðir af íbúðahúsnæði og uppsagnarfrestur leigusala eitt ár ef leigutaki hefur búið í húsnæðinu í fimm ár eða lengur. Enn fremur segir í þessum kafla að uppsögn skuli vera skrifleg, með fyrrgreindum fyrirvara eða þeim fyrirvara sem leigusamningur tilgreinir.

Og rúsínan í pylsuendanum, í 10. grein þessara laga segir orðrétt: 

Hafi aðilar vanrækt að gera skriflegan leigusamning teljast þeir hafa gert ótímabundinn leigusamning og gilda öll ákvæði laganna um réttarsamband þeirra.

Samkvæmt þessu er réttarstaða leigjenda á Íslandi alls ekki svo slæm. Það er hins vegar spurning hvort talsmenn leigjenda séu að sinna sínu starfi. Lögin eru til staðar, einungis spurning um að láta bankann fara að lögum.

 Það verður því ekki séð hvernig Landsbankinn getur staðið á því að gefa leigjanda að húsnæði sem hann yfirtekur svo skamman tíma til að flytja út. Nema auðvitað leigjandinn hafi undirritað leigusamning sem heimilar bankanum það. Ef, hins vegar, leigjandinn gerðu tímabundinn leigusamning þá gilda uppsagnarákvæði hans og ef enginn samningur var gerður hlýtur 10. grein og 56. grein húsaleigulaga að gilda, þ.e. sex mánaða uppsagnafrestur.

 


mbl.is Leigjendur „skornir á háls“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég myndi kannski skoða lög um nauðungarsölu áður en ég færi að fullyrða svona. Og það er oftast raunin að maður þarf að skoða meira en ein lög þegar maður er að skoða réttindi og skyldur.

Ég held nefnilega að lög um nauðungarsölu kveði á um það að við nauðungarsölu falli allar kröfur í viðkomandi húsnæði niður, þ.m.t. leigusamningur. Undantekningin mun víst vera sú að leigusamningi hafi verið þinglýst á eignina áður en sú krafa sem nauðungarsalan byggir á var þinglýst, hvort sem um var að ræða þinglýsingu vegna lántöku, fjárnámi eða lögtaki. Nauðungarsala telst víst ekki vera venjuleg sala í þeim skilningi sem leigulögin gera ráð fyrir.

Sigurður Geirsson (IP-tala skráð) 15.9.2014 kl. 17:22

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ætti þetta þá ekki að koma fram í húsaleigulögunum? Eða eru lög um nauðungasölur yfirsterkari lögum um húsaleigu? Kannski af því að það eru oftast bankar sem um nauðungasöluna biðja?

Ef það er rétt sem þú segir að lög um nauðungasölur stangist á við lög um húsaleigu, þarf auðvitað að láta dómstóla skera úr um hvor lögin skuli ráða og síðan verður Alþingi að breyta hinum, svo þau standist.

Það er auðvitað ekki hægt að hafa tvennskonar lög, sem stangast á, í landinu.

Gunnar Heiðarsson, 15.9.2014 kl. 17:29

3 identicon

Það eru til mörg lög sem stangast á. t.a.m. veðlög v s ábúðarlög. Það leiðinlega er, að yfirleitt hafa þau leiðinlegri forgangsrétt.

Jon Logi (IP-tala skráð) 15.9.2014 kl. 20:37

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Húsaleigulögin eru frekar stutt og skýr, svona miðað við marga aðra lagabálka. Lög um nauðungasölur hef ég ekki kynnt mér, en ef þau eru jafn skýr og stangast á við lög um húsaleigu, eru tveir kostir í stöðunni.

Sá fyrri er að Alþingi taki á sig rökk og samræmi þessi lög, þannig að þau stangist ekki á. Lítil von er þó til þess að kjarkur alþingismanna sé nægur til þess.

Hinn kosturinn er að láta dómstóla skera úr um hvor þessara laga séu æðri. Þá geta þingmenn breytt hinum lögunum og borið fyrir sig dómstóla.

Þó ýmis lög stangist á Jón Logi, er það engin réttlæting á að svo skuli vera, svona yfirleitt, ætti frekar að vera hvetjandi til að laga slíka vitleysu. Varðandi húsaleigulögin þá eru þau hugsuð til að verja rétt leigjenda og leigusala, t.d. að ekki sé hægt að kasta leigjendum á götuna með litlum sem engum fyrirvara. Ef einhver önnur lög geta tekið þann rétt af, þarf vissulega að laga það.

Það er til lítils að vera með lög um húsaleigu ef leigjendur og leigusalar geta ekki treyst því að þau haldi, gagnvart öllum, líka bönkum!

Gunnar Heiðarsson, 15.9.2014 kl. 21:45

5 identicon

Burtséð frá öllum lögum, þá er það ekki í lagi að haga sér svona eins og bankarnir gera. Skil ekki hvernig bankastarfsmenn geta sofið á nóttunni eða horft í spegil.

Sigurbjörg Kristmundsdóttir (IP-tala skráð) 16.9.2014 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband