Hvað gerir Gylfi nú?

ASÍ hneykslast á ofurlaunum forstjóra nokkurra fyrirtækja. Vissulega má hneykslast yfir þessum launum, enda vandséð hvaða rök liggja að baki slíkum launum. Vissulega er það ekki ábyrgð, svo mikið vitum við Íslendingar, af biturri reynnslu.

Það merkilega við þessa frétt er hver það er sem hneykslast, þar sem ASÍ fer fyrir stórum hluta eigenda þessara fyrirtækja. Samkvæmt ársskýrslum þeirra fyrirtækja sem ASÍ rannsakaði er eignarhluti lífeyrissjóða nokkur og í sumum verulegur. Hér kemur listi yfir hreina eign lífeyrissjóða meðal tuttugu stæðstu eigenda þessara fyrirtækja. Þar fyrir utan eiga sjóðirnir óbeina eign í gegnum eignarhaldsfélög að sumum þeirra. Svona lítur listinn yfir hreina eign lífeyrissjóðanna, þ.e. launafólks í landinu, í eftirfarandi fyrirtækjum:

Össur                   11,5%

Hagar                   38,3% 

Eimskipafélagið     18,1%

Marel                    20%

N1                        53,3%

Það verður því fróðlegt að sjá næsta vetur, þegar Gylfi hleypur hring eftir hring kringum samningsborðið og hamast við að semja við sjálfan sig!!

 


mbl.is ASÍ: Tími ofurlauna runninn upp á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

eru þeir eitthvað skárri sjálfir, eru á kaupi sem verkamenn geta bara dreymt um. Áður en menn hneykslast á öðrum og benda á aðra er kannski ágætt að byrja á sjálfum sér.

gunnar (IP-tala skráð) 3.9.2014 kl. 22:42

2 identicon

ASÍ hefur ekki fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóða. ASÍ kemur ekki að vali stjórnarmanna lífeyrissjóðanna. ASÍ hefur engin völd innan lífeyrissjóðanna. Þau félög sem velja í stjórnir lífeyrissjóðanna eru sum utan ASÍ og ASÍ stjórnar ekki þeim félögum sem velja í stjórnir lífeyrissjóðanna.

Blint, órökrétt og sjúklegt hatur þitt á Gylfa Arnbjörnssyni hefur margoft orðið til þess að þú skrifar tóma þvælu. Þú kemur út sem reiður og fáfróður ómerkingur. Þú getur vel gert betur en til þess þarft þú að láta vit frekar en hatur ráða skrifum þínum, koma með rök frekar en reiðiöskur.

Hábeinn (IP-tala skráð) 3.9.2014 kl. 22:45

3 identicon

Allt í sambandi við lífeyrissjóði fer fram við samningaborð verkalýðshreyfingarinar og samtaka atvinnulífsins.  Allt annað er bara bull !

Hvar forseti ASÍ er við það samningaborð getur verið mismunandi, stundum eru borðin ferhyrnd og önnur hringlaga !  

Auðvitað hefur ASÍ bein áhrif á gjörðir eða ekki gjörðir lífeyrissjóða !

Í næstu samningum þarf að byrja á einni kröfu og það er koma samtökum atvinnulífsins út úr stjórnum lífeyrissjóða !  Atvinnurekendur eiga bara að vera í sínum lífeyrissjóðum og hafa þar kosningarétt eins og hver annar.

Svo vakna ótal spurningar um hvaða fólk og hvers vegna það er valið til setu í stjórnum fyrirtækja í eigu lífeyrissjóða !

Hvernig má það vera að Helgi Magnússon , sem er fulltrúi VR í stjórnum fyrirtækja, er talin mega fjáfesta í sömu fyrirtækjum án þess að teljast innherji ?

JR (IP-tala skráð) 3.9.2014 kl. 23:14

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég veit ekki hvort ég á að svar þinni athugasemd Hábeinn, allt sem þú segir þar lýsir kannski betur þér sjálfum.

Það er vissulega rétt að ég hef mesta ímigust á Gylfa Arnbjörnssyni, ekki þó persónulega, heldur sem forseta ASÍ. Verk hans þar tala sínu máli og þarf vart að rökstyðja það nánar. Persónan Gylfi er sjálfsagt ágætis kall, þekki hann ekkert þannig. Að ég hafi blint, órökrétt og sjúklegt hatur á honum er langt í frá, vil einungis að hann yfirgefi stól forseta ASÍ. Persónuleg þáttaka hans í stjórnmálum ætti ein og sér að nægja til að hann yfirgefi þetta sæti, en þegar bætt er við afrekum hanns til handa launþegum þessa lands þarf varla að ræða málið frekar.

Athugasemd þín er nokkuð mögnuð gunnar.  ASÍ tiltekur í sinni frétt að laun forstjóra Regins sé 3 - 5 föld laun verkamanns. Til samanburðar hefur forseti ASÍ nærri 6 sinnum laun verkamanns!

Það er margt rotið í lífeyriskerfinu okkar JR og fyrir löngu kominn tími til að skera þetta kerfi upp. Hver ástæða þess að atvinnurekendur hafi jafn marga í stjórnum þessara félaga og launafólk, er óskiljanleg staðreynd. Það er engin spurning að lífeyrisgreiðslur launafólks er hluti af þeirra kjörum, hvort sem sú greiðsla er innt af hendi áður eða eftir að laun komast í formlegar hendur launþegans. Þetta er framlag launþegans til sjóðs sem hann sjálfur á síðan að geta leitað til síðar. Atvinnurekandanum kemur ekkert við hvernig með þetta fé er höndlað. 

Gunnar Heiðarsson, 3.9.2014 kl. 23:51

5 identicon

"Hver ástæða þess að atvinnurekendur hafi jafn marga í stjórnum þessara félaga og launafólk, er óskiljanleg staðreynd." Rétt eins og samið var um að þú skilaðir vinnu og fengir kaup þá var samið um að atvinnurekendur greiddu aukalega í sjóðinn og fengju þar sæti í staðinn. Vilji launafólk losna við atvinnurekendur þá hætta atvinnurekendur að greiða. Framlag atvinnurekenda er þannig ekki hluti af launakjörum en gjald eða framlag fyrir setu í stjórnum lífeyrissjóðanna. Þetta eru samningsbundin réttindi sem hæpið er að verði gefin eftir án þess að eitthvað komi í staðinn.

Þó ýmislegt megi laga í lífeyrissjóðakerfinu þá er yfirgnæfandi hluti gagnrýninnar byggður á misskilningi, þekkingarleysi og hreinum hugarórum. Og þegar við þann kokkteil blandast vænn skammtur af öfund, græðgi og frekju er ekki von til að úr þeirri áttinni fram komi nothæfar hugmyndir eða vitrænar umræður.

Hábeinn (IP-tala skráð) 4.9.2014 kl. 02:33

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þú þekkir ekki eðli kjarasamninga Hábeinn, eða kýst að misskilja það.

Vissulega er hlutur atvinnurekenda í iðgjaldsgreiðslum launafólks komið til í kjarasamning og því hluti launakjara launamannsins. Ef þetta hefði ekki komið til með þessum hætti er næsta víst að það hefði komið inn sem hærri laun í staðinn. Þetta er bara einn hluti kjara launafólks, það verður ekki hrakið.

Það gefur ekki atvinnurekendum neinn rétt yfir þeim sjóðum sem geyma þetta fé, fjarri því!

Þú segir nokkuð rétt til með frekjuna og græðgina. Frekja atvinnurekenda og græðgi yfir því að ráða áfram yfir þeim peningum sem þeir hafa samið sem gjald fyrir vinnu launafólks lýsir sér vel í stjórnun lífeyrissjóðanna. 

Það eru hins vegar áhöld hvort laga megi þetta kerfi, hvort ekki sé svo komið að það þurfi að skera það upp til róta og byggja nýtt. Það má vissulega nýta eitthvað úr því sem fyrir er, en að grunni til þarf það algera endurnýjun.

Gunnar Heiðarsson, 4.9.2014 kl. 06:40

7 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Hlutur lífeyrisssjóðanna er á mörgum stöðum mun hærri en almenntingur heldur þar sem að lífeyrissjóðirnir eiga líka í fjárfestingastóðum, hlutabréfasjóðum og óbeinu eignarhaldi í mjög mörgum fyrirtækjum.

Í Högum eru lífeyrissjóðirnir með öllu uppreiknuðu í um 60% og um 51,8 í Festi og með því í meirihluta á aðilum sem hafa rúm 80% af dagvörumarkaði.

Í lífeyrissjóðunum er lítið hægt að gera enda þarf 2/3 atkvæða til að koma nokkru áfram (leifar síðan 1979).

Fyrirtækin sitja þar með sem vinnuveitendur, ráðendur fjármagns, stjórnendur lífeyrissjóðanna að almenningi.

Þeir eru síðan að neita almenningi að njóta gengisstyrkinga.

Óskar Guðmundsson, 4.9.2014 kl. 19:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband