Lögleg eða ekki, verðtryggingin er alltaf siðlaus

Það er í sjálfu sér ágætt að fá lögmæti verðtryggingar staðfesta, nú eða lögleysi. Hver sem niðurstaða dómsins verður er ljóst að siðleysið í verðtryggingunni er algjört. Þarna er verið að færa alla ábyrgð á annan aðiliann, lántakandann, þann aðila sem í raun hefur minnst um það ráðið hvernig verðbólga þróast í landinu. Hinn aðilinn, bankarnir, hafa aftur mun meiri áhrif á hagkerfið og má segja að við bankahrunið haustið 2008 hafi augu allra átt að opnast.

Þá er ljóst að bankastofnanir eru mannaðar fólki með sérþekkingu á peningamálum, eða ættu a.m.k. að vera það og því í mun betri stöðu til að spá um framtíðina en flestir lántakendur. Það er þó ekki þar með sagt að ábyrgðin eigi öll að færast yfir á bankana, þeir sem taka lán þurfa auðvitað að bera þá ábyrgð sem því fylgir. En það hlýtur að vera svo að bankinn beri einnig ábyrgð. Því hlýtur að geta gilt hér sömu lögmál og allstaðar annarstaðar í hinum vestræna heimi að lán séu veitt með vöxtum sem lántaki gengur að. Einungis þannig getur lántaki byggt sína framtíð, ekki með happdrætti sem aldrei fæst vinningur úr.

Einn er sá fylgifiskur verðtryggðra lána sem sjaldan er nefndur, en það er offjárfesting með lántöku. Vegna eðlis þessara lána bera þau lága afborgun fyrstu árin en síðan fer hún hækandi. Því eru þessi lán vinsælli hjá mörgum lántakendum. Þarna er veruleg áhætta á að lántakinn horfi skammt fram í tímann, sérstaklega þegar verðótum er haldið utan útreikninga við lántöku. Kannski þessi millusteinn sé að sliga margar fjölskyldur landsins, þó reyndar ekki hafi verið mikið val fyrir lántakendur fyrir hrun. Þá höfðu þeir sem fóru í banka eftir láni val um ólögleg lán bundin erlendri mynnt, eða siðlaus lán bundin verðtryggingu, sem hugsanlega eru einnig ólögleg.

Eftir dóm hæstaréttar sumarið 2010 um lögmæti lána bundinn erlendri mynnt, áttu stjórnvöld auðvitað að hafa kjark til að láta kanna lögmæti annara lánaforma bankanna. Þarna urðu bankarnir uppvísir að stórfelldu lögbroti og því full ástæða til að skoða aðra starfsemi þessara fyrirtækja. En kjarkinn þraut og ekker gert.

Það er hins vegar sorglegt ef núverandi stjórnvöld, sem boðuðu fyrir kosningar að verðtrygging skyldi afnumin, skuli nú telja hana "algjörann lykilþátt í íslensku hagkerfi". Sá stjórnmálamaður, sem reyndar er hættur á þingi eftir rúmlega þriggja áratuga setu, talaði mest og oftast fyrir afnámi verðtryggingar. Fyrir hverjar kosningar, allann sinn feril, dró þessi stjórnmálamaður upp þetta tromp sitt og hlaut atkvæði kjósenda fyrir. Þegar svo þessi sami stjórnmálamaður komst í lykistöðu, fyrst sem félagsmálaráðherra og síðan forsætisráðherra, varð minna úr efndum, kjarkleysið tók völdin. Er það virkilega svo að núverandi stjórnvöld vilji láta kenna sig við starfsaðferðir þessa fyrrverandi þingmanns og ráðherra? Er það virlkilega svo að kjarkur núverandi ríkisstjórnar sé á sama lága planinu og kjarkur síðustu ríkisstjórnar?

Eins og segir í upphafi er gott og gilt að fá skorið úr um lögmæti verðtrygginar. Sá úrskurður breytir þó ekki því siðleysi sem hér hefur verið haldið uppi. Verðtryggingin hér er ekki bara röng, heldur lögleysa í sjálfu sér. Sá grunnur sem notaður er til verðtryggingar er svo víðtækur og úr takt við raunveruleikann, að engu tali tekur. Nú má t.d. búast við að verðtryggð lán muni hækka á næstunni, vegna þess að trúbræður og samlandar berjast banaspjótum í Irak. Hvers lags dómadags rugl er þetta!!

En jafnvel þó verðtygging lána yrði bundin launavísitölu einni, er enn eftir sá annmarki verðtryggðra lána sem getur valdið offjárfestingu. Hins vegar væri ljóst að ef verðtryggingin yrði bundin launavísitölu er ljóst að meðallaun í landinu myndu hækka verulega. Bankarnir myndu sjá til þess, meira en nokkru sinni fyrr. Næsta víst er þó að sú launahækkun næði ekki til hins almenna borgara þessa lands, enda nóg fyrir bankanna að hækka laun eigin starfsmana, sérstaklega stjórnenda. Þannig gætu þeir haldið uppi launavístölunni að vild, eins og reyndar flestum þeim fjármálavístölum sem þeim sýnist.

Afnám verðtryggingar á neytendalán er algjört lykilatriði fyrir okkur sem þjóð. Það er gjörsamlega útilokað að við náum nokkurntímann að rétta okkur af með þetta tæki andskotans í höndum fjármálaelítunar!! 

 


mbl.is Tekist á um lögmæti verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það virðist vera algengur misskilningur að með verðtryggingu sé áhætta vegna lána öll hjá skuldara. Þetta stenst enga skoðun.

Tilgangurinn með verðtryggingu er að koma í veg fyrir mjög breytilega vexti  með miklum sveiflum í greiðslubyrði. Þannig er verðtryggingin ekki síður til hagsbóta fyrir lántaka heldur en lánveitendur.

Fyrir utan að óverðtryggð lán hafa miklu hærri greiðslubyrði fyrstu árin hækkar greiðslubyrði þeirra upp úr öllu valdi þegar vextir hækka vegna verðbólguskots. Gjaldþrot myndi þá blasa við í ótal tilfellum.

Í ljósi þess að verðtryggð lán eru nú miklu vinsælli en óverðtryggð (70% á móti 30%) er furðulegt að þessari firru sé enn haldið á lofti.

Með því að banna verðtryggð lán yrði komið í veg fyrir að stór hluti fólks geti keypt sér íbúð.

Krónan veldur verðbólgu og verðbólgan gerir verðtryggingu æskilega ef ekki nauðsynlega. Best væri að losna við verðtrygginguna en þá þarf fyrst að kasta krónunni og taka upp traustari gjaldmiðil.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.7.2014 kl. 11:12

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ekki dettur mér í hug að reyna að snúa þér af villu þíns vegar varðandi verðtrygginguna Ásmundur. Mér miklu vitrari mönnum tækist ekki það ætlunarverk.

Varðandi vinsældir verðtryggðra lána bendi ég þér á að lesa pistil minn aftur, þar kemur fram af hverju þær vinsældir stafa.

Um að stór hluti fólks geti ekki keypt sér íbúð ef verðtryggð lán verða afnumin, er rétt að velta fyrir sér hvort sá hópur hafi yfirleitt getu til þess. Þetta er reyndar atriði sem vart þarf að óttast, ekki fremur en í öðrum löndum sem við berum okkur við. 

Að halda því fram að krónan sé verðbólguvaldur er gömul tugga. Krónan er einungis mælikvarði þess hvernig hagkerfið hjá okkur stendur. Hins vegar er með auðveldum hætti hægt að segja að verðtrygging lána sé verðbólguskapandi og kannski það sem verra er að eina alvöru tæki Seðlabankans til að vinna gegn verðbólgu er gagnlaust vegna verðtryggingarinnar.

En þú heldur þinni trú, hvað sem hver segir og allra síst dettur mér í hug að reyna það vonlausa verka að breyta því.

Gunnar Heiðarsson, 6.7.2014 kl. 11:41

3 identicon

Þetta er mjög einfalt.

Þetta þjófakerfi þekkist ekki í neinum löndum sem við berum okkur saman við, og er reyndar nær óþekkt í öllum heiminum.

Það er ástæða fyrir því, og ástæðan er ekki sú að við séum eina landið sem vitum betur en restin af jörðinni.

Það þarf ekkert að ræða þetta.

Þegar við erum eina landið sem notum þetta rugl, þá er eitthvað að hér hjá okkur, ekki öllum hinum.

Það þarf engar langar ræður um þessa staðreynd.

Sigurður (IP-tala skráð) 6.7.2014 kl. 11:52

4 identicon

Það er augljóst að krónan er verðbölguvaldurinn.

Litlir gjaldmiðlar eru alltaf háðir miklum sveiflum á gengi. Þegar gengið lækkar hækka erlendar vörur sem veldur verðbólguskoti. Þá þarf að hækka launin til að viðhalda kaupmættinum og það veldur enn meiri verðbólgu.

Þegar gengi krónunnar hækkar lækkar verðlag sjaldnast og laun aldrei. Gengissveiflur valda þess vegna því að verðbólga er hér miklu meiri en víðast hvar annars staðar.

Svona hefur þetta verið síðan sjálfstæð gengisskráning krónunnar var tekin upp fyrir hátt í öld. Það hlýtur því að vera met í afneitun að telja að ástæða verðbólgunnar sé ekki fyrst og fremst krónan.

Afneitun á augljósum staðreyndum gengur ekki lengur. Of miklir hagsmunir eru í húfi.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.7.2014 kl. 12:39

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ásmundur.

Tilgangurinn með verðtryggingu er að koma í veg fyrir mjög breytilega vexti  með miklum sveiflum í greiðslubyrði.

Þetta er einhver alveg nýtilkomin skýring á því hver hafi verið tilgangurinn með því að koma áverðtryggingu. Í öðrum löndum þar sem ekki er notuð verðtrygging eru ekki endilega "breytilegir vextir með miklum sveiflum" á húsnæðislánum. Þvert á móti, svo þessi kenning þín stenst ekki.

Það er augljóst að krónan er verðbölguvaldurinn.

Hvað er svona augljóst við það? Hvenær hefur þú séð málskífur og pappírsmiða taka ákvarðanir eða vera "orsakavaldur" að einhverju? Ákvarðanir um peningastefnu og efnahagasmál eru teknar af fólki, ekki af myntum og seðlum.

Gengissveiflur valda þess vegna því að verðbólga er hér miklu meiri en víðast hvar annars staðar.

Nú? Áðan var það krónan, en núna er það verðið sem menn bjóðast til að kaupa og selja hana á. Hvort skal það vera?

Það hlýtur því að vera met í afneitun að telja að ástæða verðbólgunnar sé ekki fyrst og fremst krónan.

Staðreyndin er sú að það er verðtryggingin sem er meginástæða ofþenslu í peningakerfinu sem leiðir til viðvarandi verðbólgu og óstöðugs gengis með því að grafa undan hagstjórninni og rýra verðgildi gjaldmiðils.

Ef það er vandamál að krónan haldi illa verðgildi sínu, þá er meginástæðan fyrir því verðtryggða krónan, en hún heldur verðgildi sínu fullkomlega. Það getur hún hinsvegar ekki nema á kostnað óverðtryggðu krónunnar, sem er meginástæða þess að sú síðarnefnda rýrnar jafnharðan.

Þannig felst lausnins á þessu í því að afleggja verðtrygginguna.

Að horfast ekki í augu við það, er hin raunverulega afneitun.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.7.2014 kl. 14:15

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það er vegna verðtryggingarinnar, sem raunvextir lána hingað til hafa verið MJÖG breytilegir.  En það er mesti misskilningur að það sé krónan sem veldur verðbólgunni heldur eru það ákvarðanir þeirra sem fara með stjórn efnahagsmála hér.  Það er alveg merkilegt þegar andstæðingar krónunnar (í flestum tilfellum harðir INNLIMUNARSINNAR) eins og Ásmundur, grípa hvert "hálmstráa" sem á vegi þeirra verður, til að reyna að sverta krónuna................

Jóhann Elíasson, 6.7.2014 kl. 17:07

7 identicon

Guðmundur, það er nú meiri rökleysan hjá þér að halda því fram að úr því að aðrar þjóðir hafi ekki gripið til verðtryggingar lána að þá standist ekki þau rök mín að verðtrygging þjóni þeim tilgangi að gera greiðslubyrði lána jafnari?

Aðrar þjóðir eru ekki með krónu og þurfa því ekki að glíma við þann vanda sem henni fylgir. Þær þurfa því ekki á verðtryggingu að halda.

Að því tilskyldu að kaupmáttur launa haldist óbreyttur allan lánstímann tryggja vertryggð lán jafna greiðslubyrði út lánstímann. Greiðslubyrði óverðtryggðra lána er ekki bara mest fyrstu árin heldur sveiflast hún einnig  með verðbólgunni út allan lánstímann.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.7.2014 kl. 17:44

8 identicon

Eitt hið versta við verðtrygginguna er að margir virðast alls ekki skilja hana. Þeir reikna út greiðslubyrðina í krónum út lánstímann og sjá ofsjónir yfir að greiðslur hækka í krónum með hverju árinu.

Þeir virðast ekki gera sér grein fyrir að verðgildi krónunnar minnkar i verðbólgu og þess vegna er greiðslubyrðin óbreytt þó að krónunum fjölgi að því tilskildu að kaupmáttur launa haldist óbreyttur.

Reyndar hefur greiðslubyrðin oftast farið minnkandi þrátt fyrir krónutöluhækkun vegna þess að kaupmáttur launa hefur farið vaxandi. Undantekning eru árin um og eftir hrun. 

Að halda því fram að raunvextir hafi verið mjög breytilegir vegna verðtryggingarinnar eru auðvitað hrein öfugmæli. Þvert á móti tryggir verðtryggingin jafna greiðslubyrði  og því óbreytta raunvexti ef vextir eru fastir og kaupmáttur helst óbreyttur.

Merkilegt að halda því fram að það séu slæmar ákvarðanir sem hafa valdið  mikilli verðbólgu hér í bráðum öld en ekki krónan. Eru íslenskir stjórnmálamenn svona miklu meiri aular en erlendir?

Til að koma í veg fyrir mikla verðbólgu þarf að sjá til þess að verð og laun lækki þegar gengi krónunnar hækkar. Þannig er vegið upp á móti verðhækkunum og launahækkunum í kjölfar gengislækkunar krónunnar. Sjá menn fyrir sér að það geti gerst? Nei.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.7.2014 kl. 18:11

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ásmundur, lærðirðu hagfræði kannski hjá þeim sem vildu borga Icesave?

Boðskapur þinn er nefninlega mjög í samræmi við "fræði" þeirra.

Ósannaðar fullyrðingar sem engu vatni halda.

(Nema þú getir vísað á sannanir, þá skaltu endilega gera það.)

Annars er greining þín á orsakasambandi gjaldmiðils, verðbólgu, kaupmáttar og gengi, greinilega byggð á svo úreltum og löngu afsönnuðum vísindum að hún er ekki marktækari en hver önnur flatjarðarkenning.

Jafnframt þó svo að hagstjórn á Íslandi hafi verið iðkuð eftir þessari sömu flatjarðarvillutrú lengst af þá sannar það hana ekki, heldur sannar það þvert á móti að þetta sé endemis vitleysa sem leiði til einskis nema hörmunga.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.7.2014 kl. 19:54

10 identicon

Guðmundur, málflutningur minn hér byggir alfarið á almennri skynsemi þar sem  ég rek óhjákvæmilegar afleiðingar ákveðinna aðgerða. Ég held mig við  staðreyndir.

Áttu erfitt með að skilja að í verðbólgu rýrnar verðgildi krónunnar vegna þess að menn fá minna fyrir hverja krónu en áður?

Áttu erfitt með að skilja að þegar gengi gjaldmiðilsins sveiflast mikið - með verðhækkunum þegar gengið fer niður - án þess að þær gangi tilbaka þegar gengið fer upp, eru áhrifin óhjákvæmilega mikil verðbólga? Málflutningur minn byggir á almennum lögmálum um orsök og afleiðingu.

Úr því að þú nefnir Icesave, sem kemur þessu máli ekkert við,  þá réttlætir það ekki höfnun samningsins að við sluppum með skrekkinn.

Ef málið hefði tapast hefði kostnaðurinn orðið margfalt meiri en það smáræði sem við hefðum þurft að greiða í vexti ef samningurinn hefði verið samþykktur. Það er heimska og ábyrgðarleysi að taka slíka áhættu.

Auk þess hefði sparast mikill tími og kostnaður með því að samþykkja Buchheit samninginn. Sá kostnaður var að mínu mati miklu hærri en vextirnir sem við hefðum þurft að greiða skv samningnum.

Versta afleiðing þess að samþykkja ekki Buchheit samninginn er þó þessi skelfilega ríkisstjórn sem við sitjum væntanlega uppi með næstu þrjú árin.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.7.2014 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband