Þáttur lífeyrissjóða
15.8.2013 | 11:10
Þetta er svo sem allt í lagi þegar menn spila með eigið fé, þá er gróði og tap algerlega þeirra og engra annara. En því miður eru margir sem eru að spila á þessum markaði með lánsfé og þegar illa fer er viðkomandi sjaldnast borgunarmaður fyrir skuldinni og því lendir hún á öðrum.
Verðbréfasjóðir eru samkvæmt nafninu sjóðir um verðbréf. Þeir sem láta sitt fé í slíka sjóði taka auðvitað áhættu, en hún er meðvituð. Þar afhenda menn pening til einhvers sjóðs í von um að stjórnendur þeirra spili vel úr þeim, þannig að hagnast megi. Eigandi fjársins hefur í sjálfu sér lítið um það að segja hvernig féð er notað og ef illa fer er það hans tap.
Það er aftur verra þegar menn fara að spila með fé annara, fé sem fólk kannski vill ekki að sé notað í þessum tilgangi. Þetta er sérstaklega slæmt þegar um er að ræða lögbundnar greiðslur sem viðkomandi er skildugur til að láta af hendi. Þarna er ég auðvitað að tala um lífeyrissjóði landsins.
Í dag verður hver launamaður að láta af hendi 12% af sínum launum til þessara sjóða. Í staðinn á hann að fá tryggingu fyrir lífeyri ef starfsgeta glatast eða lífaldur nær ákveðinni hæð. Þetta eru samtryggingasjóðir, fjármagnaðir af launþegum sjálfum.
Auðvitað verða stjórnir þessara sjóða að ávaxta þetta fé, svo það haldi verðgildi sínu. Til þess eru margar leiðir, en einhvern veginn virðast stjórnir sjóðanna horfa mest til áhættufjárfestinga. Þetta varð til þess að á einni nóttu töpuðu sjóðir launþega nærri fjórðingi þess fjár sem til var, þegar bankahrunið varð, nærri 500 milljörðum króna!!
Íslenskur hlutabréfamarkaður er ákaflega smár og vanþróaður. Nú er því haldið fram að eftirspurn sé mun meiri en framboð á þessum markað og víst má telja það rétt. A.m.k. eru verðmæti sumra fyrirtækja á þessum markaði vægast sagt undarleg og í engum tengslum við þau verðmæti sem liggja að baki. Minnir óneitanlega á ástandið síðustu misseri fyrir hrun.
Fjárfestingafélög bankanna og lífeyrisjóðir eru dómenerandi íslenskum hlutabréfamarkaði, ásamt verðbréfasjóðum. Einstaklingar eru þarna í miklum minnihluta. Hvað bankarnir ákveða að láta sína fjárfestingasjóði gera er kannski þeirra mál. Það er svo aftur spurning hvort þeir eru borgunarfærir ef illa fer.
Vera lífeyrissjóðanna á vanþróuðum hlutabréfamarkaði er ekki einungis áhætta fyrir launþega landsins, heldur veldur hún því að verð eru mun hærri en ella. Þar kemur einkum til sú árátta stjórnenda þeirra að leita hellst á þennan markað með fé sjóðanna, en horfa lítið á önnur tækifæri.
Í landi sem telur rétt rúmlega 300 þúsund íbúa er vart hægt að hugsa sér hlutabréfamarkað, a.m.k. ekki markað sem hlýtir lögmálum slíks fyrirbæris. Þó mætti hugsa sér að slíkur markaður gæti gengið ef honum er haldið í skefjum þess sem eðlilegt getur talið í svona örþjóðfélagi. Þá þarf að halda utan þessa markaðar stórum aðilum eins og lífeyrissjóðunum. Tilvera þeirra á þessum markaði getur aldrei orðið til annars en að skekkja myndina verulega.
Þessari staðreynd stöndum við frammi fyrir núna. Eftirspurn á hlutabréfamarkaði veldur bólu, stórri bólu. Og eftirspurnin skapast fyrst og fremst að áhuga lífeyrissjóða á þessum markaði. Bólur eiga það til að springa, eins og dæmin sanna, og víst er að þá munu þeir sem eru á hlutabréfamarkaði tapa, líka lífeyrissjóðir. Það sem verra er er að mörg fyrirtæki munu falla einnig.
Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að lífeyrissjóðir landsins eru ekki verðbréfasjóðir. Þeir eru samtrygging launþega borgaðir af launþegum.
![]() |
Hækkanir vekja spurningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þeir sem fátt vita og enn færra kunna í æðri fjármálum spyrja kannski í framhaldi af framanrituðu hvar greinarhöfundur myndi mæla með að lífeyrissjóðirnir ávöxtuðu fé sitt, eða eigum við kannski ekkert að hafa lífeyrissjóði yfirleitt? Víðast í Evrópu eru ekki lífeyrissjóðir, heldur gegnumstreymiskerfi, sem oft hefur verið talið af hinu illa hér á Íslandi allavega. Það er auðvitað rétt, að allar líkur eru á að það kerfi verði sífellt þyngra í vöfum eftir því sem þjóðirnar eldast, langlífi eykst og fæðingartíðni lækkar. Það verði sumsé alltaf færri, sem greiði skattana til að standa undir lífeyrinum. En verður vandinn eitthvað minni með sjóðum, sem ekki geta staðið við loforðin um lífeyri? Svo spyr maður líka, er það eðlilegt og rétt að fólk fái lífeyri í samræmi við ævitekjur? Er ekki eðlilegra að allir fái sömu fjárhæð.
E (IP-tala skráð) 15.8.2013 kl. 15:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.