Fráskilnaður vinstristjórnar - dvalarheimili aldraðra

Það er af mörgu að taka þegar minnst er verka hinnar tæru vinstistjórnar, sem hér hefur farið með völd síðustu fjögur ár.

Eitt þeirra málefna er rekstur dvalarheimila aldraðra og sjúkradeilda fyrir það fólk á sjúkrahúsum. Ekki ætla ég að fara yfir sögu þessa máls í því dæmi sem kom upp á norðaustur horninu, þar sem leggja átti niður heilt dvalarheimili og flytja íbúa þess hreppaflutningum um langann veg. Um það mál var mikið skrifað í fjölmiðla, á sínum tíma og læt ég það vera.

Það er aftur um kostnaðardeild ríkissins í rekstri þessara heimila sem ég vil setja nokkur orð niður og hvernig markvisst hefur verið unnið að því að leggja niður heilu deildirnar á sjúkrahúsum landsins, sem sinnt hafa þeim hluta aldraðra sem þurfa að vera undir læknishendi.

Þannig er að ríkið leggur dvalarheimilum til rekstrarfé, að hluta. Ákveðin upphæð fyrir hvert rými sem  nýtt er, kemur úr ríkissjóð. Þar skiptir máli hvort um dvalarrými er að ræða eða sjúkrarými. Töluvert hærri upphæð er greidd fyrir hvert sjúkrarými.

Í þeim þrengingum sem hafa verið á fé til þessara stofnana hafa mörg dvalarheimili lagt meiri áherslu á sjúkrarýmin, hafa fjölgað þeim mjög. Þetta hefur í raun verið bæði vegna aukinna tekna frá ríkissjóð en þó ekki síður vegna krafna frá þeim bæ svo hægt væri að spara meira á sjúkrahúsum. Því hafa þessir sjúklingar, sem þurfa að vera undir læknishendi, nú færst að mestu frá sjúkrahúsum til dvalarheimila. Svo stór hluti sumra þessara heimila er kominn undir þessa starfsemi að vart er lengur hægt að tala um dvalarheimili, mikið frekar sjúkraheimili.

Þessi breyting væri í sjálfu sér ekkert svo slæm, ef sama þjónusta væri til staðar, ef einhver sparnaður hlýst af og ef nægt pláss væri á þessum rýmum innan dvalarheimila.

En þar stendur hnífurinn í kúnni.

Rýmið er fjarri því nægt. Þessar stofnanir, sem flestar eru byggðar af þeirri hugsun að þarna geti fólk eytt sínu ævikvöldi í hópi kunningja og vina, undir handarjaðri fagfólks, þjóna ekki lengur þeim tilgangi. Með því að breyta stórum hluta þeirra í sjúkrarými er í raun verið að skerða verulega þessa hugsun, verið að fækka dvalarrýmum. Nú er nánast útilokað fyrir aldraða að komast inn á þessi heimili fyrr en þeir eru orðnir ósjálfbjarga.

Sparnaðurinn er kannski einhver, en hann er allur á kostnað þjónustunnar.

Starfsfólk dvalarheimila er í flestum tilfellum mjög hæft í sínu starfi. En það dugir ekki þegar eðli starfseminnar er breytt á þann hátt sem að ofan greinir, sérstaklega þegar ekki er fjölgað starfsfólki. Það verður bara að leggja á sig meiri vinnu fyrir sama lága kaupið.

Þá eru fæst, ef nokkuð, dvalarheimili með lækni í föstu starfi og hjúkrunarfræðingar starfa sjaldnast á næturvöktum. Þetta gerir það að verkum að sjúkrarýmin eru einungis sjúkrarými að nafninu til og þá helst á daginn. Eftirlit með sjúklingum fer fram á daginn og læknir mætir í mýflugumynd einstaka sinnum. Þjónustan á nóttunni er vart til staðar, önnur en almenn ummönnun.

Þegar sjúklingur þarf að fá lyf í æð, eða frekar ummönnun er hann fluttur með sjúkrabíl á næsta sjúkrahús, þar sem hann dvelur eins stutta stund og mögulegt er, þá er hann fluttur til baka. Allt er þetta gert með ærnu tilkostnaði. Ekki er víst að sparnaðurinn af þessu fyrirkomulagi sé svo mikill þegar upp er staðið.

Eins og áður segir, þá væri þessi breyting ekki glórulaus, ef þjónustan væri ekki skert. Dvalarheimilin fá auknar tekjur frá ríkinu fyrir hvert sjúkrarými, en engar kvaðir eru um að þá tekjuaukningu skuli nota til aukinnar þjónustu, t.d. fastan lækni og að hjúkrunarfræðinur sé við störf á nóttunni. 

Það væri hægt að taka mörg dæmi þar sem aldraðir eru fluttir fram og til baka, eingöngu vegna sjúkdóms sem stundum kallar á lyfjagjöf í æð, eða aukins eftirlits læknis er þörf.  Þetta fer vissulega illa með sjúklinginn og kostar ómælda fjármuni. Stundum standa þessir flutningar yfir svo mánuðum skiptir, með sama sjúklinginn og oftar en ekki má rekja það til þess að sjúklingurinn einfaldlega ná ekki fullri heilsu vegna þeirra flutninga.

Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef það er trú manna að ódýrara sé að vera með sjúkrarými á dvalarheimilum og að leggja beri niður deildir fyrir aldraða á sjúkrahúsum, verða menn að búa svo um að þjónustan við þetta fólk skerðist ekki. Það er grunnforsenda fyrir slíkri breytingu.

Hitt er svo annað mál að erfitt er að skilja þá pólitík að betra sé að loka heilu deildunum á sjúkrahúsum landsins og gera þær að ruslageymslum, flytja þá sem þar voru fyrir á næsta dvalarheimili og lengja með því verulega biðtíma þess að fólk komist þangað inn, biðtíma sem mörgum finnst allt of langur.

Þá er með ólíkindum að ríkið skuli taka í mál að greiða meira fyrir rými á dvalarheimilum, bara af því þau kallast sjúkrarými, án þess að gera kröfu um fastráðinn lækni og að hjúkrunarfræðingur sé við störf að nóttu til.

Þó starfsfólk dvalarheimila sé gott og fært, hefur það ekki læknismenntun og meðan ekki er starfandi hjúkrunarfræðingur að nóttu til hefur enginn heimild til að gefa sjúkling lyf í æð. Það er því ekki dugnaði starfsfólks þessara stofnanna að kenna að þjónustan er slök, það gerir meira en því er ætlað, miklu meira.

Þeirri þróun sem átt hefur sér stað síðustu fjögur ár á þessu sviði verður að snúa við, annaðhvort með því að vekja upp deildir sjúkrahúsanna, sem lagðar hafa verið niður, eða með því að auka þjónustuna innan dvalarheimilanna. Aldraðir eiga ekki að þurfa að búa við svona ástand.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband