Nú má Sigmundur fara að vara sig

Björn Valur talar í andhverfu. Því verða allir sem hann tjáir sig við eða um að vara sig. Lof frá þessum manni er sem eitruð pilla.

Vinstriflokkarnir hafa sýnt og sannað að þeirra loforð eru lítils virði. Allt síðasta kjörtímabil einkenndist af svikum við kjósendur og var VG kannski heldur fremri Samfylkingu í þeirri iðju, þá vart megi skilja þar á milli. Vissulega er ný forysta í báðum þessum flokkum en skemmdu eplin eru enn til staðar. Nú þegar er hafið uppgjör innan Samfylkingar, eftir stæðsta kosningaósigur sem nokkur íslenskur stjórnmálaflokkur hefur orðið fyrir. Hvernig því uppkjöri lýkur er ekki vitað og því nánast út í hött að mynda ríkisstjórn með þeim flokki.

Vinstriflokkarnir höfðu fjögur ár til að koma til móts við skuldavanda heimilanna. Það var ekki fyrr en korteri fyrir kosningar sem þessir flokkar ljáðu máls á að viðurkenna þennan vanda og óvíst hvort sú viðurkenning var raunveruleg eða einungis færð fram í von um atkvæði.

Framanaf kjörtímabilinu mátti ekki einusinni nefna þennan vanda og hlegið að þeim sem reyndu að tala fyrir honum, m.a. Framsóknarflokknum. Eftir tunnumótmælin og að einum þingmanni VG var sýnt banatilræði með hráu eggi, við þingsetninguna haustið 2010, var eins og stjórnvöldum tækist að opna augun augnablik og stofnuð var nefnd um vandann. Fjármálaöflun hertóku þá nefnd og niðurstaða hennar, sem tók nærri fjóra mánuði að semja, var einungis til hjálpar bankakerfinu.

Þegar dómstólar tóku að dæma lán bankanna ólögmæt stóð ríkisstjórnin sem klettur að baki fjármagnsöflunum. Sett voru lög þeim til hjálpar sem Hæstiréttur sá tilefni til að dæma ólögmæt að hluta.

Seinnihluta kjörtímabilsins voru valdhafar duglegir við að tala um að skuldsettum heimilum hafi verið hjálpað um hundrað milljarða, létu eins og það væri þeirra verk. Staðreyndin er að sú hjálp sem stjórnvöld stóðu að var lítil sem engin og kom fyrst og fremst þeim til góða sem höfðu yfirveðsett sig síðustu misseri fyrir hrun. Stæðastu hjálpina sóttu lántakendur sjálfir í gegnum dómstóla. Af þeirri gerð geta fráfarandi stjórnvöld ekki hælt sér, þvert á móti stóðu þau gegn þeirri lausn eftir bestu getu. Til happs fyrir lántakendur var geta stjórnvalda lítil, þannig að þeim tókst ekki að fara framhjá dómskerfinu í þessu máli, til hjálpar fjármagnsöflunum.

Nú talar Björn Valur eins og vinstriflokkarnir hafi aldrei verið í ríkisstjórn og þykist geta lofað Sigmundi einhverju sem þessir flokkar máttu ekki heyra minnst á meðan þeir voru við völd. Hver trúir svona bulli?

Sigmundur Davíð hefur nú tekið sér nokkurn tíma til að skoða hvaða flokkar eru næstir því að geta myndað ríkisstjórn með Framsóknarflokki. Þar hefur hann auðvitað til hliðsjónar þau kosningaloforð sem gáfu flokknum það mikla fylgi sem hann fékk, leiðréttingu á stökkbreyttum lánum heimila, afnám verðtryggingar, uppbyggingar atvinnulífsins og afturköllun aðildarumsóknar að ESB svo þjóðin fái ákveðið sjálf hvort þeirri vegferð skuli haldið áfram.

Þegar skoðuð eru stefnumál annara flokka kemur í ljós að þeir eru flestir á svipuðum grunni, þó leiðir að markinu og áherslur séu mismunandi. Auðvitað eru bæði Samfylking og Björt framtíð á öndverðum meiði um ESB umsóknina og séð að útilokað er að mynda ríkisstjórn með þeim nema að svíkja kosningaloforð. Atvinnulífið hefur ekki verið framarlega í hugum VG og því vandséð að framsóknarflokkur geti náð samstöðu um uppbyggingu þess með þeim flokki.

Verðtryggingin er vissulega vandamál. Þar eru flestir flokkar á öndverðum meiði við Framsókn, þora ekki gegn fjármagnsöflunum. Þetta mál er þó grundvöllur þess að stjórnvöld, hver sem þau verða, geti stjórnað landinu af einhverju viti, er grundvöllur þess að hægt sé að minnka hagsveiflur í hagkerfinu og halda niðri verðbólgu.

Skuldavndi heimilanna er kannski þar sem mest skilur á milli Framsóknar og hinna flokkanna. Þó Björn Valur segi nú að vinstriflokkarnir séu tilbúnir að gefa eftir að fullu í því máli, til að komast í stjórnarráðið, segir sagan okkur annað. Það þarf ekki að hugsa nema nokkra daga aftur í tímann, þegar frambjóðendur þessara flokka afgreiddu tillögur Framsóknar sem loftkastala og bull. Ekki þó hvort hægt væri að fjármagna þetta, allir eru sammála um að það er hægt, heldur hvort réttlátt sé að leiðrétta skuldir til samræmis við eignir. Þá höfðu vinstri flokkarnir fjögur ár til að gera eitthvað í þessum vanda, en gerðu ekki. Sjálfstæðisflokkur hefur kannski talað næst á eftir Framsókn um þennan vanda og nauðsyn þess að leysa hann. Vandi þeirra er þó kannski hellst sá að þeir virðast ekki átta sig á eðli og magni hans.

Auðvitað er ljóst að Framsókn myndar ekki ríkisstjórn án þess að gefa eitthvað eftir. Til þess hefði hann þurft að ná hreinum meirihluta á Alþingi.

Því er ljóst að Sigmundur verður að meta hvar hann gefur minnst eftir. Til þess verks hefur hann stefnuskrár og kosningaloforð hinna flokkanna og heilindi þeirra sem þá flokka skipa. Heilindin eru fljót afgreidd og því í raun einungis stefnuskrár og kosningaloforðin eftir.

Þá liggur fyrir að Sjálfstæðisflokkur liggur næst Framsókn og það eina mál sem á mili skilur þess eðlis að það má leysa. Fjöldi sjálfstæðismanna skilur þennan vanda, það er einungis forysta flokksins sem virðist eiga erfitt með að átta sig á honum. Þennan miskilning og þetta þekkingarleysi forystu Sjálfstæðisflokks má örugglega laga. Þegar það hefur verið gert ætti að vera auðvelt að ná saman um önnur málefni.

Það auðvitað sjálfsagt mál hjá Sigmundi að loka ekki á neina kosti, svo gæti farið að ekki takist að koma forystu Sjálfstæðisflokks í skilning um hversu stór vandi lántakenda er og hversu mikilvægt er fyrir þjóðfélagið að sá vandi verði leystur. Þá gæti Sigmundur neyðst til að tala við afturhaldsöflin.

Þriggja flokka ríkisstjórn með vinstriöflunum væri mun skárri undir stjórn Framsóknar en Sjálfstæðisflokks. En það er von mín og trú að forysta Sjálfstæðisflokks sjái vandann og að hægt verði að mynda tveggjaflokka ríkisstjórn framfara.

 

 


mbl.is Björn Valur biðlar til Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta var nú bara ótrúlega flott útspil hjá honum, bendir einfaldlega á það hvað Framsókn lofaði óumflýjanlega.  Góð ráð dýr í þessari stöðu sem Framsókn er búinn að tefla sig inn í gagnvart Sjálfstæðisflokknum.  Eða var það Sjálfstæðisflokkurinn sem tefldi sig inn í andstöðu við meginloforð Framsóknar?

VG flokkurinn þurfti ekki að aðhafast neitt til að horfa upp á þetta minnir mig.

Jonsi (IP-tala skráð) 3.5.2013 kl. 08:56

2 identicon

Ég er þó ekki að leggja neina blessun í neina átt, bara mér fannst þetta vera áhugavert útspil - Þetta var bara hreinn svartu leikur úr taflfræðunum.

Jonsi (IP-tala skráð) 3.5.2013 kl. 08:59

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hvað þarf, til að takast á við mafíu-stjórnsýslu og klíku-fjármálaspillingu?

Forsetinn getur skipað utanþingsstjórn, til að koma spillingunni út úr stjórnarráðinu.

Oft var þörf, en nú er nauðsyn.

Þetta átti að gera eftir hrun/rán, en var ekki gert. Það hefur kostað landflótta og uppbyggingu næstu bankaráns-bólu.

Það dugar skammt að kenna flokkum um, eftir næsta hrun/rán.

Tími Ólafs Ragnars Grímssonar er kominn.

Hann verður að höggva á flokka-spillingar-hnútinn, og skipa réttlætis-mannúðar-starfsstjórn. Hægri og Vinstri-(eitthvað) er bara leikrit bankamafíunnar. Ólafur hefur með réttu notað stór orð um fátæktarskömmina, og nú getur hann gert eitthvað í þeim málum. Það er að segja ef hann hefur meint eitthvað með sínum orðum, um að fátækt væri þjóðarskömm Íslands!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 3.5.2013 kl. 12:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband