3% maðurinn talar um valdarán

Hvað er valdarán?

Er það valdarán þegar meirihluti þjóðkjörins Alþingis kemur sér saman um afgreiðslu máls?

Er það valdarán þegar fámennur hópur notfærir sér skoðanakönnun sem lítill hluti þjóðarinnar tekur þátt í, til að ná sínum hugðarefnum fram og krefst þess að Alþingi gefi eftir?

Er það valdarán þegar fólk sem kosið er í ólöglegri kosningu, af litlum hluta þjóðarinnar, krefst þess að þeirra verk skului vera æðra þjóðkjörnu Alþingi?

Er það valdarán þegar fámennur hópur, sem kosinn er í ólöglegri kosningu af litlum hluta þjóðarinnar, ákveður að þau lög sem þeim er gert að vinna eftir, eru túlkuð langt útfyrir þann staf sem í þeim stendur?

Þorvaldur Gylfason hefur manna síst efni á að tala um valdarán. Hann var kosinn til stjórnlagaþings í kosningu sem Hæstiréttur dæmdi ólöglega. Í þessari ólöglegu kosningu hlaut Þorvaldur afgerandi meirihluta, heil 3% atkvæði, sá sem næstur honum kom fékk um 1% og sá sem fæst atkvæði fékk, hafði stuðning 0,3% þjóðarinnar. Þetta er það fólk sem telur sig æðra öllum öðrum Íslendingum.

Hæstiréttur úrskurðaði þessa kosningu ólögmæta. Ekki þó vegna nær óskyljanlegra kosningareglna, heldur vegna mikilla ágalla er snýr að framkvæmd hennar, einkum er sneri að leynd og áreiðanleik kosningarinnar. Þessar athugasemdir dómsins voru í 5 liðum.

Eftir úrskurð Hæstaréttar tók meirhluti Alþingis þá ákvörðun að skipta um nafn á verkefninu og í stað "þing" kæmi "ráð". Sama fólk var valið til ráðsins og hafði verið kosið í þessari ólöglegu kosningu. Þannig sniðgekk Alþingi ákvörðun Hæstaréttar og má vissulega hugsa sér að nota orðið "valdarán" í því sambandi, enda Hæstiréttur æðsta dómstig landsins sem allir verða að hlýta, líka alþingismenn.

Ráðinu var síðan gert að vinna samkvæmt þeim lögum sem Alþingi hafði samþykkt fyrir stjórnlagaþing. Áður en þessi 25 manna hópur kom saman til fyrsta fundar, tilkynnti Þorvaldur Gylfason í fjölmiðlum að samin yrði ný stjórnarskrá. Það er þó ekki einn stafur í þessum lögum sem heimilaði það, skýrt sagt að endurskoða skyldi gildandi stjórnarskrá, nokkur sérstök atriði talin upp sem skoða ætti og gefin heimild til að skoða fleiri greinar, ef ástæða þætti til. Ekkert talað um að semja nýja stjórnarskrá, enda hefði Alþingi auðvitað ákveðið mun lengri tíma til verksins en tvisvar sinnu tvo mánuði, ef ætlunin var að semja nýja stjórnarskrá frá grunni.

En svona smámunir vöfðust ekki fyrir Þorvaldi, hann hafði umboð þjóðarinnar, hann var þjóðin og því kom þetta mál Alþingi ekkert við! Fyrir honum skipti engu máli þó einungis 3% hafi kosið hann. Þarna var vissulega hægt að tala um valdarán!

Eftir að ráðið hafði skilað sinni afurð til stjórnvalda, var þess krafist að þjóðin fengi að kjósa um hana, án aðkomu Alþingis. Þarna var krafa um að brjóta skyldi gildandi stjórnarskrá. Eitthvað vafðist þetta fyrir stjórnvöldum og loks gefið eftir að vissu marki. Gerð skyldi skoðanakönnum meðal þjóðarinnar. Og þessi skoðanakönnun fór fram.

Rétt tæp 30% þjóðarinnar svaraði fyrstu og reyndar einu spurningunni sem skipti máli, með já. Þetta er sá þjóðarvilji sem Þorvaldur talar um. En málið er þó ekki svona einfallt. Orðalag þessarar spurningar var: Villt þú að tillögur stórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá?

Það er erfitt að skilja þessa spurningu á annan veg en að Alþingi, sem vissulega er eina valdið sem getur breytt gildandi stjórnarskrá, skyldi nota þessar tillögur til grundvallar að nýrri stjórnarskrá.

Ekki var spurt hvort nota ætti tillögur stjórnlagaráðs sem nýja stjórnarskrá, enda víst að niðurstaða kosningarinnar hefði þá orðið á enn verri veg fyrir ráðið.

Enn hélt Þorvaldur sig við þá skoðun sína að þetta mál kæmi Alþingi ekki við og túlkaði niðurstöðu kosningarinnar á þann veg að þjóðin hafi samþykkt tillögurnar sem nýja stjórnarskrá. Valdið er þó Alþingis og eingöngu þess. Það er vissulega valdarán að ætla að taka það vald af Alþingi. Um það þarf ekki að efast, enda gildandi stjórnarskrá skýr hvað þetta atriði varðar.

Þeir sem tala fyrir tillögum stjórnlagaráðs vilja ekki ræða aðdragandann eða framkvæmd þessa máls, enda ekki beint glæsilgt ferli. Krerfjast þess að fólk haldi sig við efni tillagnanna. Um efni þeirra þarf í raun ekki mikið að ræða. Þar er auðvitað að finna ýmislegt gott en einnig annað sem er síðra. Það sem skiptir kannski mestu um innihald þessara tillagna er að allir málsmetandi menn, hvort sem er innlendir eða erlendir, hafa gefið þeim falleinkun.

Um aðdragandann og framkvæmdina er hins vegar full ástæða til að ræða, sérstaklega ef menn vilja ræða málið á sömu nótum og Þorvaldur Gylfason, útfrá hugmyndinni um valdarán.

Allur undirbúningur og öll framkvæmdin er smituð af því að jaðra við valdarán. Einstaka gjörðir í framkvæmdinni má klárlega kalla því nafni, eins og þegar ráðið ákvað að fara framhjá þeim lögum sem það átti að starfa eftir.

Hitt er ljóst að ef tekst að knýja Alþingi til að afgreiða þetta mál á þann hátt sem Þorvaldur vill, er vissulega um valdarán að ræða.

Það er útilokað að að tala um valdarán þegar Alþingi kemur sér saman um afgreiðslu máls, en hins vegar er það klárlega valdarán þegar utanaðkomandi ætlar að skipa Alþingi fyrir. Jafnvel þó meirihluti þjóðarinnar sé að baki slíku, er það valdarán. Alþingi hefur völdin og ef einhver tekur þau af því, hefur valdarán verið framkvæmt. Þá ber Alþingi að víkja! Svo einfalt er það.

En 3% maðurinn Þorvaldur Gylfason ætti ekki að þurfa að óttast. Samkvæmt því sem hann segir hefur hann þjóðina að baki sér. Eftir nokkrar vikur gengur þjóðin til kosninga og þar verður Þorvaldur í boði. Því mun þjóðin væntanlega flykkja sér að baki honum!

Eða hvað?

 


mbl.is „Þetta heitir valdarán“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Sæll og takk fyrir góða grein.

Það má kanski bæta við að þessi sami Þorvaldur má sjálfsagt vera heppin að hafa ekki verið kærður fyrir tilraun til valdaráns eftir allt trúboðið varðandi ICES(L)AVE og/eða ESB trúboðið. En þessi tvö trúboð eru bæði til þess fallin að geta flokkast sem tilraunir til landráðs sem er líka ákveðið valdarán, það er að færa völd frá landinu undir erlent yfirvald.

Í mínum huga þá er þessi Þorvaldur það sem ég kalla gerfi"hagfræðingur" eftir allar niðurstöðurnar varðandi það sem hann hefur nefnt síðustu ár. Þær niðurstöður benda eindregið til þess að hann hafi rangt fyrir sér í hagfræðinni og af hverju hefur hann þá ekki rangt fyrir sér annarsstaðar líka???

Með kveðju

Ólafur Björn Ólafsson, 7.3.2013 kl. 09:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband