Klukkan og lúpínan
7.2.2013 | 18:16
Það er sammerkt með klukkuna og lúpínuna að árlega koma þau af stað umræðukarpi. Ekki ætla ég að ræða lúpínuna núna, enda er hennar karptími á sumrin.
En nú er vetur og þá er skylda að hafa skoðun á klukkunni. Enginn er maður með mönnum nema láta sitt sjónarmið í ljós, helst að standa á torgum og hrópa hinn eina sannleik.
Þetta er annars merkileg umræða og fyndnust verður hún þegar nær líður vori. Þá koma þeir fram sem vilja færa klukkuna aftur um eina klukkustund, svo lengri tími fáist til að grilla í garðinum. Vilja í raun færa hádegissólina til klukkan 14 - 14:30.
En það er sama hversu mikið er hringlað er með klukkuna, sólin breytir ekki sínum gang og dagurinn lengistt ekki neitt. Þau rök að skammdegið færist fyrr yfir landsmenn eru svo sem rök, þó illskiljanleg séu. Skammdegið kemur á sama tíma, hvað sem klukkunni líður. Hitt er rétt að fleiri morgna vakna Íslendingar í myrkri, þó það segi ekkert til um lengd skammdegisins. Birta dagsskímunar er jafn löng fyrir fólk.
Hér var áður fyrr vetratími og sumartími, að hætti margra annara þjóða. Allt eins væri hægt að hafa vetrarvinnutíma og sumarvinnutíma. Það myndi kosta svipað og virka nákvæmlega eins. Þ.e. ef fólk endilega vill vera að hræra í þessum hlutum. Eftir sem áður kemur skammdegið í öllu sínu veldi og dagurinn mun verða jafn langur, eða stuttur. Það er ekkert í mannlegu valdi sem getur breitt því. Jafnvel þó klukkunni sé snúið á hvolf!
Hitt er svo annað mál og kannski rétt að skoða, að klukkan okkar er ekki í samræmi við sólarganginn, þ.e. hádegi hjá okkur er á milli kl. 13 og 13:30. Það er vel hugsanlegt að breyta þessu, að færa klukkuna á réttan tíma við sólina. En þá á hún líka að vera svo yfir sumartímann, enda breytir sólin ekki gang sínum, þó hún sjáist vissulega lengur. Sól ætti alltaf að vera hæðst á himni í hádeginu, hvort sem sumar er eða vetur.
Að fara aftur í það rugl að hafa tvö tímatöl, eftir árstíðum, er fráleitt.
Jafn fráleitt og að þekja okkar fallega land með innfluttri lúpínu!
Íslendingar úr takti við sólina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.