Vanþekking Árna Páls
7.2.2013 | 12:16
Það verður að segjast eins og er að fyrstu daga Árna Páls sem formaður Samfylkingar byrja ekki vel.
Hann mætir í viðtal hjá Agli strax á sunnudegi og er tvíræður í orðalagi, gefur í skyn að hann muni setjast í ríkisstjórn. Strax á mánudeginum kemur hik á hann og í gær gaf hann út yfirlýsingu um að hann muni ekki gera breytingar á ríkisstjórninni. Skýringar hans á þessari yfirlýsingu eru þó vægast sagt ótrúverðugar og öllum ljóst að hann á við ofurefli að etja, innan þingflokks Samfylkingar.
Ekki tók svo betra við á þriðjudag, þriðja degi hans sem formanns, þegar hann á fundi Heimssýnar opinberaði fávisku sína, eina ferðina enn. Þar lét hann þau orð falla að hann teldi betra að fá færri evrur í launaumslagið en kjaraskerðingu gegnum verðbólgu, enda væri samið um þær evrur af verkalýðshreyfingunni.
Það er sennilega leitun að annari eins fáfræði manns um sitt eina hugðarefni. Vissulega er samið um hversu margar evrur falla í vasa launþega innan þeirra ríkja sem þann gjaldmiðil nota, eins og flestum öðrum löndum. Það var einnig samið á milli launþega og atvinnurekenda í Grikklandi að lágmarkslaun skyldu verða sem svarar 150 þúsund krónur á mánuði.
Það var hins vegar ekkert samið um þá kröfu sem kom frá ESB, SE og AGS, að laun skyldu lækkuð niður í sem svarar 117 þúsundum króna og laun unga fólksins skyldi lækka niður í sem svarar 100 þúsund króna. Þar var enginn samningur undirritaður, einungis bein skipun frá Brussel. Þessi launalækkun er þó ekki til þess ætluð að létta rekstur Gríska ríkisins, heldur til bjargar einkabönkum í Þýskalndi, Frakklandi og á Spáni, einkabönkum sem af óráðsíu lánuðu miklu meira en þeir höfðu efni á. Viðreysn þessara einkabanka í öðrum ríkjum verða Grískir launþegar að kosta að hluta, jafnvel þó flestir þessara launþega viti ekki einu sinni nöfn allra þeirra banka!
Þetta ætti Árni Páll að vita. ESB er jú hans eina hugðarefni, svo ætla mætti að hann drekki í sig allan fróðleik sem þaðan kemur. Eða er hann sem skilvinda, vinnur rjómann frá og hendir undanrennunni?
Með slíkri aðferð er vissulega hægt að mæra ESB, en raunveruleikinn er annar. Þaðan kemur mjólkin óskilin og verða þeir sem hyggjast njóta hennar að sætta sig við það. Það er ekki hægt að fá bara rjómann.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.