Það er ljótt að fara illa með gamalt fólk
1.2.2013 | 09:19
Það er engin ástæða til að rifja allt icesave málið upp eina ferðina enn, en það er heldur engin ástæða til að reyna að fela það sem allir sáu.
Framganga stjórnarliða í þesu máli hefur verið með ólíkindum, allt frá fyrsta degi minnihlutastjórnarinnar sem mynduð var í byrjun febrúar 2009. Eftir kosningar, þá um vorið, opinberuðst fyrstu svik stjórnarherrana, við undirritun Svavarssamningsins. Tilurð minnihlutastjórnar Jóhönnu byggðist á hjálp frá Framsóknarflokki. Sá flokkur setti eitt skilyrði fyrir þeirri aðstoð, að ekki yrði unnið að icesave samningi fyrr en að loknum kosningum. Í ljós kom að Steingrímur sendi Svavar og Indriða erlendis til samningsgerða áður en blekið hafði þornað á því samkomulagi. Þarna var sett línan fyrir komandi framtíð undir stjórn Jóhönnu og Steingríms. Saga þeirra síðan er mörkuð lygum, svikum og fláræði.
Stjórnarliðar keppast nú við að endurskrifa söguna, enda stutt til kosninga. Slíkt hefur oft áður tekist og jafnvel með nokkuð góðum árangri. Það hefur stundum virst sem Íslendingar muni stutt aftur í tímann. En nú eru aðstæður aðrar. Skelfingin og það gífurlega tap, andlega og fjárhagslega, sem þjóðin varð fyrir þegar einkabankarnir hrundu, er enn ferskt í minni fólks. Hvernig svo núverandi stjórnvöld hafa aukið þá skelfingu með ótrúlegum hætti er enn minnistæðara. Við hana lifir fólk í dag. Því duga nú ekki fyrri meðul, þar sem höfðað var til gleimsku landans.
Icesave málið er vissulega stórt og ljótt mál, þar sem margur fór langt fram úr sjálfum sér í skort á skynsemi. Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um icesave II, þegar ljóst varð að þjóðin ætlaði sér ekki að taka á sig þessar byrgðar án þess að lögskylda hennar yrði könnuð, átti að sjálfsögðu að breyta um kúrs í málinu. Þá var sá tímapunktur sem ríkisstjórnin átti að segja af sér, enda hafði þverandi fjármálaráðherra þegar tilkynnt að hann legði sig sjálfann að veði í því máli. Hvort ríkisstjórnin segi af sér nú, korteri fyrir kosningar, skiptir minna máli.
En icesave málið er einungis einn angi þeirrar fyrru sem vaðið hefur uppi í stjórnarráðinu, allt þetta kjörtímabil. Það, eins og reyndar flest mál stjórnarliða, er angi enn stærra máls og tengist því föstum böndum. Það er aðildarumsóknin að ESB. Hún er grunnur alls þess illa. Af völdum hennar hefur ríkisstjórnin verið nánast lömuð, bæði vegna ósamstöðu innan eigin ranns, sem og vegna undirlægjutilburða við sambandið. En svo poppa upp einstök stórmál sem eru í algjörri andstöðu við ESB umsóknina, s.s. eins og allur frasinn um stjórn fiskveiða og tilburðir til að verndunar náttúruauðlinda. Það vita allir að þessi tvö mál verða léttvæg í sölum evrópuþingsins.
Þegar menn leggja sálfann sig að veði og tapa málinu, eiga þeir að sjálfsögðu að víkja. Þar kemur þjóðarvilji málinu í sjálfu sér ekkert við, nema til að innheimta veðið. Þetta gerði Steingrímur fljótlega eftir að icesave málið fór að skekja þjóðina og tapaði. Nú hefur hann tapað aftur og það að fullu. Hann stóð ekki við stóru orðin á sínum tíma og gerir það heldur ekki nú. Það er í fullkomu samræmi við öll hans störf sem ráðherra. Þar eru viðhöfð stór orð en lítið sem ekkert verður um efndir. Orð eru vissulega til alls fyrst, en það er ekki fyrr en reynir á efndir þeirra sem hægt er að meta menn. Steingrímur hefur fallið á því mati. Hvort hann situr nokkrar vikur enn í stjórnarráðinu skiptir ekki sköpum. Þangað inn mun hann ekki komast aftur og vandséð að hann eigi afturkvæmt á Alþingi.
Um Jóhönnu er fátt að segja, hennar tími koma og fór, á ótrúlega stuttum tíma. Dagurinn í dag er hennar síðasti dagur sem pólitíkus, þó hylkið af henni muni sjálfsagt sjást í sal Alþingis einhverja daga enn. Það er sorglegur endir sem hún fær af því starfi sem hún getur kallað með réttu sitt ævistarf. Þessi kona átti kost á að yfirgefa þennan starfsvettvang, tiltölulega reist, veturinn 2009. Úr rústum Samfylkingar, þá um veturinn stigu menn sem þóttu þarna vera kominn kandídat til að taka á sig það vonlausa verkefni að koma flokknum aftur til lífs. Að þarna væri manneskja sem fórnandi væri fyrir flokkinn. Þessir menn ættu að skammast sín, það er ljótt að fara illa með gamalt fólk.
40% vilja afsögn ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já! Þessir menn ættu að skammast sín, það er ljótt að fara illa með gamalt fólk.
Vel mælt hjá þér. Góður penni! Frábær pistill ;)
anna (IP-tala skráð) 1.2.2013 kl. 23:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.