"Hallkvæmt"

Það er ekki ofsögum sagt að skrúðmælgi utanríkisráðherra þvælist stundum fyrir fótum hans og ekki annað séð en að þarna hafi hann hrasað eina ferðina enn í þessum leik sínum.

Reyndar man ég ekki eftir að hafa heyrt þetta orð áður, "hallkvæmt", en með samanburði við önnur mál íslenskunnar, ein og "viðkvæmt", "samkvæmt" og fleiri orð sem enda á "kvæmt", er ekki hægt að skilja nýyrði utanríksráðherra nema á einn veg, að hann sé að tala um eitthvað sem muni halla á.

Nú getur verið að það sé einmitt meining ráðherrans, að hann sé að segja að það muni halla verulega á Ísland við inngöngu í ESB. Að hann sé að leika sér með þingmenn, sjá hvort þeir skilji íslenska tungu. Sé svo þá tókst honum vel til.

Líklegra er þó að skilningur ráðherrans á orðinu sé rangur, enda ekki nýtt að hann sjái hvítt þar sem aðrir sjá svart.

En ég er sammála utanríkisráðherra, það er mjög hallkvæmt fyrir Ísland að ganga í ESB!

 


mbl.is „Hreinlegra að ganga í ESB“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Hallkvæmt" er ekki nýyrði. Þetta er gamalt orð sem hægt er að finna í Íslendingasögunum, þó svo að þú hafir ekki heyrt af því áður, og þýðir einfaldlega eitthvað sem er hentugt eða gagnlegt. Geri því ráð fyrir því að "hagkvæmt" sé komið af því.

Ef þú ætlar að gera grín af orðaforða einhvers, mæli ég sterklega með því að þú flettir upp orðinu sem að þú ert að fara að gagnrýna, svo þú endir ekki á því að vera kjáni sjálfur.

Einar (IP-tala skráð) 31.1.2013 kl. 12:32

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þakka uppfræðsluna Einar, en eftir sem áður get ég ekki með nokkru móti skilið orðið á annan veg en að þarna sé um að ræða eitthvað sem hallar á, samanber orðið "hagkvæmt". Viðskeytið "kvæmt" hlýtur að vera áhersla á forskeytið.

Það væri gaman, svona af því ert svo vel að þér í Íslendingasögunum, að þú kæmir með dæmi úr þeim þar sem þetta orð er viðhaft og hver merking þess var þar.

Þó ég hafi lesið flestar Íslendingasögurnar, reyndar í síðaritíma útgáfum, man ég ekki eftir orðinu. Það segir þó ekki að það sé ekki til þar. En ef svo er, er það merking þess sem skiptir máli.

Þetta minnir nokkuð á orðatiltæki sem einn stjórnmálamaður kom af stað undir lok áttunda áratugar síðustu aldar, stjórnmálamaður sem átti einnig til að hrasa um faguryrðin, þó hann hafi verið margfallt mælskari en Össur Skarphéðinsson.. Það var sama hversu margir málfræðingar mættu í ríkisútvarpið og reyndu að leiðrétta þetta orðatiltæki, það festist í sessi og þykir sjálfsagt í dag. Merking þess er jafn vitlaus eftir sem áður, en enginn nennir lengur að rífast um það.

Þetta orðatiltæki var "í annan stað" og notað sem "í öðru lagi". Orðatiltækið merkir þó, eins og orð þess segja hátt og skýrt, "í staðinn fyrir". Það kemur eitthvað í annan stað.

Þó færustu málfarssérfræðingar hefðu gert tilraunir til að leiðrétta þetta, tókst það ekki. Kannski mun það einnig verða svo nú.

Gunnar Heiðarsson, 31.1.2013 kl. 13:02

3 identicon

Orðabókin skýrir þetta svo:

nytsamur, haldkvæmur, hentugur, gagnlegur

Vilhjálmur (IP-tala skráð) 31.1.2013 kl. 13:23

4 Smámynd: Sólbjörg

Nú þegar Icesave er lokið þá skammast Össur sín ekki vitund, nei hann heldur áfram að bulla af enn meiri krafti en áður. Gulrótin hans mætti halda að væri einkabankareikningur í Brussel með tilvonandi vænum fúlgum, hvað á fólk að halda eins og maðurinn lætur.

Eftirfarandi röksemdarfærslur Össurar eru með ólíkindum og það í sömu viku og Icesave dómurinn féll : "Utanríkisráðherra segir að það sé mjög hallkvæmt fyrir Ísland að gerast aðili að fjármálaeftirlitskerfi Evrópusambandsins þó að það þýði framsal valds til ESB og gera verði breytingar á stjórnarskrá."

Skrúðmælgi úr forníslensku heillar ekki eða afvegaleiðir þjóðina frá því að ríkistjórnin vill framselja stjórnarfarslegt vald Íslands.

Sólbjörg, 31.1.2013 kl. 13:31

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þakka ábendinguna Vilhjálmur.

Gunnar Heiðarsson, 31.1.2013 kl. 14:33

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Því miður finn ég þetta orð ekki í þeim orðabókum sem ég hef aðgang að, Vilhjálmur.

Er ýmist spurður að því hvort ég sé að meina "halæri", eða hvort ég vilji stofna nýtt orð.

Gunnar Heiðarsson, 31.1.2013 kl. 14:43

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Leggirðu frekar þann skilning í hugtakið hallkvæmt að það sé andstætt við hagkvæmt, þar sem þá hallar á þig, kemstu að raun um að það er eina leiðin til þess að láta texta fréttarinnar koma heim og saman.

Össur var að segja dagsatt. Það er alls ekkert hagkvæmt fyrir Ísland að ganga í þetta fullkomlega fasíska skuldaspennitreyjubandalag.

Evrópska bankasambandið er ekkert annað en Icesave Evrópusambandsins. Örvæntingarfull lokatilraun til að prenta disneypeninga fyrir alvöru mynt og reyna að framfleyta sér á því "ótímabundið" þar til "aðstæður róast".

Guðmundur Ásgeirsson, 31.1.2013 kl. 21:02

8 identicon

Fyrst þú baðst um dæmi, Gunnar...

Brennu-Njáll, 152 kafli. Þegar Kári og Björn koma heim úr bardaga og Björn er spurður hvort að Kári hafi reynst honum vel, segir hann:

„Ber er hver að baki nema sér bróður eigi og gafst Björn mér vel. Hann vann á þremur mönnum en hann er þó sár sjálfur. Og var hann mér hinn hallkvæmasti í öllu því er hann mátti.“

Í þessu samhengi geri ég ráð fyrir að hann sé að segja að Björn veiti góðan stuðning til að halla sig að en orðið stendur fyrir gagnlegt, í því samhengi sem Össur notar það.

Svo hvort þú sért sammála Össuri eður ei, er svo allt annar handleggur. Óþarfi að vera með einhvern skítkast útá málnotkunina á manninum.

Einar (IP-tala skráð) 1.2.2013 kl. 03:21

9 identicon

"Því miður finn ég þetta orð ekki í þeim orðabókum sem ég hef aðgang að, Vilhjálmur."

Snara.is (gefur góða lýsingu en þú þarft reyndar áskrift að þessum)

Arnarstofnun.is (gefur þér beygingarlýsingu orðsins)

Íslendingasögur.is (smávegis lýsing sem var sett inn af notanda af síðunni)

Orðabókasafn HÍ (flettir upp heimildir sem ákveðið orð kemur fram í og sýnir þér setninguna sem inniheldur orðið).

Einar (IP-tala skráð) 1.2.2013 kl. 03:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband