Enn þarf atbeina dómstóla í samskiptum við stjórnvöld
15.11.2012 | 14:39
Jóhanna Sigurðardóttir hleypur upp á nef sér vegna ákvörðunar ASÍ að fara í mál við stjórnvöld.
Forsöguna þekkja allir. Þegar ríkið ákvað að "hjálpa" þeim sem skulduðu stökkbreytt húsnæðislán, með sérstökum vaxtabótum, var leitað til fjármálastofnanna með fjármögnun. Lífeyrissjóðirnir voru tregir til og eins og oft áður var því borið við að lög heimiluðu ekki að sjóðirnir greiddu annað en lífeyri til sjóðsfélaga. Því var farin sú leið sem stjórnir sjóðanna kunnu best, þegar spila þarf með fé þeirra, að kanna hvort þeir gætu ekki keypt einhverjar eignir af ríkinu. Ekki náðust samningar um það og málið þá í raun búið.
En stjórnvöld sáu krók á móti bragði og lögðu skatt á sjóðina til að ná þessu fé. Þar var farin hin klassíska leið stjórnvalda, skattaálögur. En það var annað sem stjórnvöld gerðu með þessu og það var að mismuna gróflega þegnum landsins. Þarna var lagður á skattur á þá þegna sem eru bundnir almenna lífeyriskerfinu, en þeir sem eru innan ríkisstykta lífeyriskerfisins eru utan þess skatts. Kannski ekki alveg í anda jafnaðarstefnunnar, en vissulega í anda hinnar tæru vinstristjórnar.
Það er vegna þessa mismunar sem ASÍ er að fara í mál við ríkið.
Málsvörn Jóhönnu í fréttum RUV er því nokkuð undarleg. Þarna er ASÍ eða lífeyrissjóðirnir ekki að ganga að baki einhvers samnings. Þann samning brutu stjórnvöld þegar skatturinn var settur á. Það kemur þessu máli ekkert við þó sá hluti sem lífeyrissjóðirnir áttu að greiða hafi verið lækkaður, enda ákvörðunin tekin af stjórnvöldum að fara þá leið að greiða extra vaxtabætur og síðan áttu sjóðirnir að koma að því að greiða hluta þeirra.
Á þeim tíma er þessar sérstöku vaxtabætur voru kynntar komu fram sterk varnarorð og gagnrýni. Ekki á vaxtabæturnar sem slíkar, heldur að ekki hafði verið gengið frá fjármögnun þeirra þegar ákvörðunin var tekin.
Nú þurfa stjórnvöld að súpa seiðið af þeim flumbruskap, sem svo mörgum öðrum. Enn á ný þarf atbeina dómstóla í samskiptum við stjórnvöld!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.