Merkileg frétt ?

Þessi frétt er að ýmsu leyti merkileg, þó ekki fyrir þá staðreynd að rúmlega tveir þriðju þeirra sem tóku afstöðu eru á móti aðild og einungis innan við þriðjungur landsmanna sem er henni hliðhollur. Þá staðreynd vita allir og ekkert nýtt né merkilegt við það.

Það sem hins vegar kemur á óvart er að einungis 62% kjósenda VG skuli vera á móti aðild. Hvort þetta stafi af því að fylgi flokksins hafi hrunið svo mikið að einungis séu eftir þeir sem styðja formanninn gegnum þykkt og þunnt, fyrirgefa honum öll hans svik, að flokkurinn sé orðinn að örflokk, skal ósagt látið. Það hefði verið gaman ef fréttin hefði greint frá hversu margir þeirra sem svöruðu, voru að baki hvers flokks.

Annað sem kemur á óvart er að það skuli heil 12% Samfylkingarkjósenda vera á móti aðild. Þar með er hrunin sú staðreynd að sá flokkur sé heill að baki þessari vegferð.

Nú er orðið ljóst að Bretland stefnir út úr ESB. Yfirlýsingar ráðamanna þar síðustu daga, nú síðast menntamálaráðherra þeirra um helgina og yfirlýsingar forustu Verkamannaflokks Bretlands, auk skoðanakanna meðal þjóðarinnar, gefa þetta skýrt í skyn. Það er í raun ekkert sem getur, úr þessu, komið í veg fyrir þessa þróun, þó hugsanlega verði hægt að tefja hana eitthvað. Viljinn er skýr, það er bara spurning um framkvæmd.

Það er merkilegt. í ljósi þessa og ljósi þess hve skýr andstaða kjósenda hér á landi er gegn aðild, að enn skuli vera unnið að aðild okkar að ESB.

Timo Summa, sérlegur áróðursmeistari ESB á Íslandi, hélt því fram í síðustu viku að umræðan hér á landi um aðildarviðræðurnar færu vaxandi og dró þá ályktun að það merkti meiri vilja fólks til aðildar. Vissulega hefur umræðan aukist, en það skapast fyrst og fremst af því að andstaðan er loks að vakna, er að sjá hversu alvarlegt mál þetta er og að það verði að stöðva áður en skaðinn verði meiri.

Össur Skarphéðinsson telur viðræður ganga vel og vera á áætlun. Hver sú áætlun er hefur þó aldrei fengist upp gefið, hvorki við upphaf viðræðna né nú. Því er allt tal um að málið sé á áætlun marklaust hjal. Þó er ljóst að allar þær hugmyndir sem frambjóðendur Samfylkingar báru á borð fyrir þjóðina fyrir síðustu kosningar, eru fyrir löngu brostnar. Þar var talað um ferli sem tæki allt niður í eitt ár og í mesta falli þrjú, að viðræðum yrði lokið og tillögur af hendi ESB lægju á borðinu til samþykktar eða synjunar þjóðarinnar, löngu fyrir næstu kosningar. Nú liggur fyrir að langt mun vera í land að þau markmið náist og vandséð að búið verði að opna alla kafla fyrir þann tíma, hvað þá að einhverjar alvöru viðræður verði hafnar.

Þetta umsóknar og aðlögunarferli er byggt á hatri og frekju. Þó minnihluti þjóðarinnar hafi nánast alla tíð verið með þessari vegferð og í raun einnig minnihluti þingmanna, náði Jóhanna Sigurðardóttier að keyra máliið í gegnum Alþingi með frekjuskap og nýtti sér hatur VG liða í þeim tilgangi. Henni nægði að hvísla "Sjálfstæðisflokkur" í eyru VG þingmanna. Þeir fóru þá að skjálfa af ótta og hluti þeirra sveik sína kjósendur. Það sem uppá vantaði til meirihluta náði hún svo í gegn með beinum hótunum í þeirra garð. Þeir VG liðar sem stóðu fastir á sinni skoðun og voru kjósendum sínum trúir voru síðan uppnefndir og á þá ráðist. Sumir gáfust upp og gengu úr flokknum, aðrir þráuðust við og er vistin þeim slæm á stjórnarheimilinu. Þar fá þeir að sitja út í horni.

Lýðræðisástin er ekki til í hugum aðildarsinna. Þó eru þeir duglegastir við að vísa til rétts þjóðarinnar um að fá að kjósa, bara ekki fyrr en einhver samningur, sem reyndar er nefnt tilboð, af hálfu ESB, liggur á borðinu. Hvers vegna er réttur þjóðarinnar mikilvægari til að kjósa um slíkt tilboð mikilvægari en réttur þjóðarinnar til að kjósa um hvort sótt sé eftir slíku tilboði?

Þessi vegferð er í andstöðu við vilja þjóðarinnar og það ætti að nægja til að þingmenn stoppi hana af. Ef þeir eru efins, geta þeir borið það formlega undir þjóðina og afsalað þannig þeirri ábyrgð sem þeir tóku á sig, til þeirra sem þeim það fólu.

 


mbl.is Mikill meirihluti andvígur aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband