Frekar óvönduð vísindi

Sagnfræðingurinn ætti að skoða söguna örlítið betur. Samkvæmt þessari frétt má lesa að sagnfræðingurinn telji Íslendingasögurnar vera samtímasögur, skrifaðar öðum til varnaðar. Það vita þó flestir Íslendingar að langur tími leið frá víkingaöld til þess tima er sögurnar voru færðar á skinn.

Um sannleiksgildi landnámssagna Íslands er hægt að deila. Sjálfsagt er heildarmynd þeirra þó nokkuð nærri lagi, en nákvæmar lýsingar geta varla verið hárréttar. Þeir sem skrásettu hafa sjálfsagt fært í stílinn, auk þess sem þessar sögur höfðu gengið manna á milli nokkra mannsaldra. Allur sá kveðskapur sem fram kemur í Íslendingasögunum hefur einnig sjálfsagt verið slípaður nokkuð til milli manna, þann tíma er leið frá því hann var kveðinn til þess er hann var settur á skinn.

Það sem þó sker í augu við lestur fréttarinnar er að þarna virðist fara fræðingur sem ekki þekkir það efni sem hann tekur sér fyrir hendur. Að koma fram með það sem einhverja stóra uppgvötun að víkingar hafi verið ribbaldar og tala um samtímasögur, er eitthvað sem ekki passar alveg. Það þarf ekki annað en lesa þessar sögur til að sjá þann ribbaldahátt sem víkingar stunduðu, þó með þeim fyrirvara að sögurnar voru skráðar löngu eftir að þær áttu að gerast.

Þá er langt um liðið síðan Egill Skallagrímsson var greindur geðklofa, jafnvel þegar ég var í barnaskóla var sú kenning komin á loft og eru nokkrir áratugir síðan. Ef einhver sannleikur leynist í Egilssögu, er ljóst að maðurinn átti við alvarlega skapörðugleka að stríða og ef sagan er vel lesinn má oft greina þar hreinann geðklofa. Hvort allir víkingar voru sama marki brenndir má svo aftur velta fyrir sér.

Það væri sennilega best fyrir fræðinginn að byrja á að lesa sögurnar og kynna sér hvenær þær voru ritaðar. Eftir það getur hann farið að draga ályktanir.

 


mbl.is Víkingarnir illa liðnir heima fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef þér dettur í hug að sagnfræðimenntaður maður, sem hefur farið í gegnum alla þá þjálfun sem til þess þarf að hljóta þá menntun, og nýtur minnstu virðingar, skrifi um bækur án þess að vita hvort þær séu samtímaheimildir eða ekki,.........þá þekkir þú væntanlega lítið til sagnfræði. Íslendingasögurnar eru, eins og þorri allra heimsbókmennta fyrri tíma, munnmælasögur sem seinna voru loks færðar í letur. Það er einfaldlega hið almenna og það sem er gengið út frá. Samtímaheimildir eru mun færri og sjaldgæfari, nema þegar komið er fram á okkar daga.

K (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 03:24

2 identicon

Lestu greinina aftur, og athugaðu frekar eigin lesskilning. EKKERT í greininni bendir til að viðkomandi sagnfræðingur telji þetta hafa verið "samtímaheimildir", sem væri frekar fráleit tilgáta, en það er bara hluti af almennum vinnubrögðum sagnfræðinga að bera alltaf saman ritunartíma og tíman sem frásögnin gerist á og slíkt, og vinnubrögð sem eru meira að segja kennd strax í menntaskóla í sagnfræði (en þorri sagnfræðináms felst svo í að framfylgja, því sagnfræðivinna er fyrst og fremst nákvæmnisverk, eins og úrsmíði eða skurðlækningar, en hvorki kjarnvísindi né listgrein.) Þú ert ekki að varpa neinu nýju ljósi á neitt sjálfur, og það þarf bara að fara á wikipedia og álíka staði til að vita hvenær Íslendingasögurnar voru ritaðar vs. hvenær þær gerðust, og það getur hvaða amatör eða grunnskólabarn sem er. Með þessu er ég ekki að segja allar uppgötvanir sagnfræðinga séu merkilegar eða réttar, það eru þær fæstar, en sagnfræðingur sem veit ekki mun á ritunar- eða rauntíma er ekki til, nema þá kalkaður og kominn á ellilaun.

K (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 03:29

3 identicon

Ég man ekki eftir að hafa séð Egil Skallagrímsson greindan geðklofa (og finnst sú greining ansi hæpin). Hann hefur hins vegar oft verið talinn með geðhvarfasýki (maniu-depressiv). Nú til dags er hann kannski oftar greindur sækópat eða með andfélagslega persónuleikaröskun. Vitaskuld er oft hæpið að greina persónuleikaraskanir og aðrar geðraskanir í bókmenntum sem voru skrifaðar í allt öðrum hugmyndaheimi, í þessu tilviki Íslendingasögum, skrifuðum á 14. öld. Egla er yfirleitt talin með elstu Ísl.sögunum, skrifuð á árabilinu 1220-1230, en Egill var uppi 910-990.

Ég get ekki séð af frétt moggans að þessi fræðimaður haldi því fram að Íslendingasögur séu samtíðarsögur, vitnað er í þessi orð hans: "Það hafi verið hvötin baki því að rita svo nákvæmar mannlýsingar eins og við þekkjum í Íslendingasögunum, til að vara við ákveðnum manngerðum."

Það má svo velta fyrir sér hvort óeirðir innanlands (á Sturlungaöld) hafi hvatt ritendur Íslendingasagna sérstaklega til að vara við ákveðnum manngerðum :)

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 11:14

4 identicon

Dr. Tarrin Wills flutti í dag erindi á Breska vísindaþinginu og setti fram þá kenningu að samtímamenn víkinganna heima á Íslandi hafi haft djúpar áhyggjur af framferði þeirra. Það hafi verið hvötin baki því að rita svo nákvæmar mannlýsingar eins og við þekkjum í Íslendingasögunum, til að vara við ákveðnum manngerðum.

S (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 11:22

5 identicon

Fréttin hefur verið leiðrétt og nú segir:

Dr. Tarrin Wills flutti í dag erindi á Breska vísindaþinginu og setti fram þá kenningu [að] Íslendingar hafi haft djúpar áhyggjur af andfélagslegri hegðun í þeirri óöld sem ríkti hér á öldum áður. Það hafi verið hvötin baki því að rita svo nákvæmar mannlýsingar eins og við þekkjum í Íslendingasögunum, til að vara við ákveðnum manngerðum.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 13:38

6 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Já ég tek undir það með þér Gunnar að það eru ekki merkileg vísindi sem leka af þessum karli sem Wills er hér nefndur og er ljóslega ekki fjórhjóla drifin og að líkindum með mótor smíðuðum af henni Gróu gömlu á leiti.   

Um þetta má margt segja, en nú á ég víst að fara heim að borða og hef ekki frekari heimildir til frelsis en Skandinavíu strákarnir sem fundu sér stjórnanda vestan við England vegna þess að þar voru Danir fyrir.   

Hrólfur Þ Hraundal, 8.9.2012 kl. 17:20

7 identicon

Egill Skallagrímsson er búinn að fara í greiningu.Hann var með "Athyglisbrest"

josef asmundsson (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 18:15

8 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Lesskilningur manna getur verið mismunandi, en athugasemd #4 segir kannski hvað ég var að meina. Eins og Harpa bendir á hefur fréttinni síðan verið breytt. Það gerðist eftir skrif mín og því ekki mitt mál. Bloggið var ritað út frá þeirri frétt sem fyrst kom!

Harpa, ekki dettur mér í hug að deila við þig, hámenntaðann kennarann. En hvort um geðklofa var að ræða eða geðhvafasyki, skiptir kannski ekki svo miklu máli, nú rúmum 1000 árum síðar. Hitt er ljóst að hver sem les Eglu kemst að því að maðurinn var fársjúkur. Um það hafa menn rætt og ritað um langann tíma. 

Það sem ég var kannski að velta upp var spurningin hvort dæma skuli alla landnámsmenn af Agli Skallagrímssyni.

Gunnar Heiðarsson, 8.9.2012 kl. 20:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband