Tímabær umræða

Jón Sigurðsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, ritar grein í Pressunni, þann 5. ágúst. Þar fer hann yfir stöðu flokksins með sínum augum og í raun merkilegast við lestur greinarinnar að sjá að maðurinn virðist hafa valið sér rangann flokk, frá upphafi, en það er önnur saga.

Þeir sem muna eftir stuttri formennsku Jóns í Framsóknarflokknum, muna hvernig sú formennska kom til. Eftir að Halldór Ásgrímsson hafði málað sjálfan sig út í horn innan flokksins og varð ekki sætt lengur í stól formanns, var hans síðasta verk að ýta varformanni til hliðar og krefjast þess að Jón kæmi sem formaður. Þetta var lúaleg aðför að varaformanni flokksins og í anda þess stjórnunarstíls sem Halldór hafði beytt um skeið. Æðsta stjórn flokksins gekk að þessari kröfu Halldórs og hélt sjálfsagt að með því yrði skapaður friður innan flokksins og var framganga varaformanns sennilega til að liðka enn fyrir þessu. Hinn almenni kjósandi flokksins var hins vegar á öðru máli og kom það vel í ljós í kosningum þá á eftir.

Hvort Jón Sigurðsson hafi verið samtvinnaður Halldórsarmi Framsóknarflokks, með Finni Ingólfssyni og fleirum, þegar þetta gerðist, skal ósagt látið, en hann varð vissulega settur í þann samhennta hóp spillingaraflsins, eftir þetta.

En að grein Jóns. Stæðsti hluti hennar er það sem hann kallar "skilgreining á Framsóknarflokknum" og segist hafa skráð eftir formannstíð sína 2006-2007. Þar fer Jón frekar háðungslegum orðum um flokkinn og eins og áður segir, helst að sjá að hann hafi tekið við formennsku í röngum flokk. Jón harmar þar nokkrum sinnum að hafa mistekist að breyta Framsóknarflokknum, harmar að hafa ekki tekist að klára ætlunarverk Halldórs Ásgrímssonar. Kannski var það einnmitt það sem kjósendur flokksins vildu, að honum mistækist það verk. Kannski voru það skilaboðin sem flokkurinn fékk í kosnngunum sem Jón leiddi flokkinn í gegnum, að kjósendur flokksins vildu einmitt ekki fara þá leið sem Halldór hafði markað og Jón vildi klára.

Það er svo undir lok greinarinnar sem Jón færir sig til nútíðar og veltir fyrir sér stöðu flokksins. Þar opnar hann Pandóruboxið, nokkuð sem Framsóknarflokkurinn hefði fyrir löngu átt að vera búinn að gera. Þökk sé Jóni fyrir það og vonandi að flokkurinn taki við þessu kefli sem Jón hefur rétt þeim og hefji opinbera umræðu um stöðu sína, í fortíð og framtíð.

Jón bendir réttilega á að flokkurinn er í stjórnarandstöðu, gegn einhverri óvinsælustu ríkisstjórn sem nokkru sinni hefur leitt landið. Samt eru skoðanakannanir flokknum frekar daprar. Það skyldi þó ekki vera að einmitt vöntun á uppgjöri við fortíðina hái flokknum, að kjósendur treysti einfaldlega ekki enn því að gamla klíkan, sem þekkt var af spillingu, nái aftur völdum. Jafnvel að þessi spillingarklíka sé enn með sína putta í flokknum. Sú þögn sem ríkir um það mál er þrúgandi og tímabært að kjósendur fái svar við þessu. Ný foysta er af hinu góða, en meðan henni tekst ekki að kasta af sér draugum fortíðar, mun lítt ganga.

Þá talar Jón niður til foystunnar, gerir í raun grín að hugmyndum hennar til hjálpar lánþegum. Ekki er Jón þó maður til að benda á aðra leið og setur þar sjálfan sig á bekk með fjármálaöflunum, sem ekkert vilja gera til leiðréttingar þeirrar stökkbreytingar lána, sem bankahrunið ól af sér.

Loks kemur Jón inn á sitt hugðarefni, aðild að ESB. Það verður að segjast að hugleiðingar hans um það mál eru vægast sagt undarlegar. Hann segir að fáir skipti skoðun um aðild, að það sé í raun fastmótað í hverjum einstakling hvort landið eigi að ganga í sambandið, hvernig svo sem viðrar innan þess. Þetta er aðvitað barnaleg hugsun, en gæfum okkur að hún reyndist nú rétt. Hvers vegna þá að sækja um aðild? Það er vitað að meirihluti landsmanna vill ekki aðild og ef það er meitlað í hug fólks, hví þá að sækja um?

Jón segir að lýðræðisleg umræða um aðildarumsókn eigi ekki upp á pallborðið innan flokksins. Er það vegna þeirrar staðreyndar að meirihluti flokksfélaga hafnaði aðildarviðræðum? Er það vegna þess að aðildarsinnar innan flokksins urðu undir? Byggist lýðræðisleg umræða á því að minnihlutinn fá sitt fram en meirihlutinn verður að víkja? Í þessu sambandi bendir Jón á brotthvarf Guðmundar Steingímssonar úr flokknum og segir hann hafa verið rekinn á dyr. Guðmundur gekk sjálviljugur út um þær dyr, einmitt vegna þess að honum líkaði ekki það lýðræði sem flokkurinn viðhafði, líkaði ekki að meirihlutinn fengi ráðið.

Það er vissulega áhyggjuefni fyrir Framsóknarflokkinn hversu illa honum tekst að ná til kjósenda. Þar kemur margt til.

Sýnileiki forystunnar mætti vera meiri. Stefnan er skýr, en nær ekki til kjósenda.

En stæðst vegur þó fortíðin, þó vissulega fólk eigi að horfa til framtíðar. Það uppgjör sem flokkurinn verður að gera við fortíðina er honum nauðsynlegt. Flokkurinn verður að kasta af sér því orði spillingar sem á honum er, eftir framferði þeirra sem nýttu sér þennan vettvang sér sjálfum til framdráttar. Meðan þetta uppgjör fer ekki fram, mun Framsóknarflokkurinn ekki ná sér á strik.

Það var vissulega nokkur endurnýjun í þingliði flokksins fyrir síðustu kosningar, þó margir hefðu viljað sjá meira. Það nýja fólk sem kom inn er flest hæft og gott fólk, en það er fast í því feni sem forverar þeirra skópu. Það er sama hversu vel það vinnur, draugar fortíðar eru alltaf við öxl þeirra.

Það er því þakkarvert að Jón Sigursson, fyrrum formaður flokksins, skuli opna þetta Pandórubox. Nú er það forystunnar að taka við og hreinsa til. Að kveða niður þá drauga sem flokknum fylgja, að hreinsa aur fortíðar af skóm sínum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sálgreining þín á Jóni þessum er góð svo langt sem hún nær. Hitt er annað mál, að framsókn er ekki stjórnmálaflokkur. Var það einu sinni en það er löngu liðin tíð. Í fjölda ára hefur þetta fyrirbrigði verið klíka hagsmunaafla, sem hefur ekki haft neina þá stefnu uppi sem gæti réttlætt að kalla hópinn stjórnmálaflokk. Kjósendurnir eru annað tveggja óupplýst eldra fólk á landsbyggðinni og hinsvegar sá hópur, sem notar fyrirbrigðið við hagsmunagæslu sína og tæki til að raka til sín fé með óviðurkvæmilegum hætti.

Bergur (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 06:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband