Afrek stjórnvalda !

Afrek ríkisstjórnarinnar opinberast nú hver af öðrum. Óhófleg skattpíning og almennt afturhald er að leggja hverja starfsgreinina í rúst.

Allir þekkja aðför stjórnarinnar að öldruðum og öryrkjum. Ekki er að sjá að neinu eigi að skila aftur til þeirra af því sem tekið hefur verið. Fjármálaráðherra sagði að í frumvarpi til fjárlaga yrði lögð áhersla á barnafólkið, minntist ekkert á aldraða og öryrkja, enda færri atkvæði að fá úr þeim hóp. Ekki að ég sé á móti aðstoð við barnafólkið, alls ekki, en það búa fleiri í landinu en barnafólk og margir sem hafa það verulega skítt! 

Fyrirtækin berjast í bökkum. Atvinna þeirra sem hafa vinnu er í raun í húfi hvern einasta dag og margur sem fær hnút í maga fyrir hver mánaðarmót af ótta við að fá uppsagnarbréf.

Þá er með ólíkindum að ekkert skuli enn hafa verið gert til hjálpar þeim sem af varfærni tóku lán fyrir þaki yfir höfuð sér, en stendur nú uppi með stökkbreytta skuld og oftar en ekki mun lægri tekjur. Þetta er eitthvað mesta rán sem þekkist í Íslandssögunni og þó víðar væri leitað. Við getum rétt ýmyndað okkur viðbrögð stjórnvalda og fjármálaelítunnar, ef stökkbreytingin hefði verið á hinn veginn, að lán hefðu á einum degi LÆKKAÐ um 50%!!

Þeir sem af stórhug og áræði hafa reynt að stofna fyrirtæki og hjálpa til við uppbyggingu landsins, eru settir í stöðu glæpamanna. Glæpirnir eru einkum þeir að hafa frumkvæði og djörfung, en ekki síður sá að hafa getað fjármagnað sitt verkefni. Þeir fjármunir skulu samstundis teknir í ríkissjóð!

Ferðaþjónustan, sú atvinugrein sem stjórnvöld hæla sér af á góðri stund, berst í bökkum. Skattaálögur á þessa grein hafa hækkað yfir öll velsæmismörk. Þar sannast á ríkisstjórninni að eitt eru orð og annað athafnir. Þessi atvinnugrein, sem stjórnvöld hæla svo mikið í orði, er ein mesta uppspretta skatta stjórnvalda!

Flugrekstraraðilar eru nú komnir á leiðarenda. Ofaná hátt eldsneyti eru skattaálögur á þessa grein þrefaldaðar. Allir sem þurfa að nýta sér þessa þjónustu vita að verð farseðla er hátt og ekki verður þetta fé sótt þangað. Það stefnir því í afnám flugrekstrar á Íslandi.

Ráðstjórnin og afturhaldið ræður ríkjum í stjónarráðinu. Þar er markmiðið eitt og aðeins eitt. Öll atvinnustarfsemi skal skattlögð í hel og síðan verða valin fyrirtæki tekin út og þeim haldið gangandi með ríkisstyrkjum. Þetta er markmið stjórnvalda gagnvart sjávarútvegi og nú sannast að ferðaþjónustan skal einnig lúta sama lögmáli. Þessi leið hefur verið reynd erlendis með skelfilegum árangri.

Enn eigum við eftir að búa við þetta afturhald í nokkra mánuði, hversu marga er hins vegar óljóst. Ekki virðist vera að sjá neinn sáttatón innan stjórnarliðsins, þar er hver höndin upp á móti annari, bæði milli flokka og innan þeirra. Þess ber þó að geta að það ástand hefur verið viðvarandi í rúm þrjú ár, svo vel gæti skeð að stjórnin hangi á stólunum fram á næsta vor. Það er oft erfitt að losna við óværu!!

En hvar er stjórnarandstaðan? Hvers vegna heyrist ekkert frá henni? Smá sprettur á Alþingi í vor, þegar stjórnin ætlaði að valta yfir þingræðið með einstakri frekju, dugir skammt. Stjórnarandstaðan þarf að vera vakandi og gagnrýnin. Það er hennar hlutverk, alla daga ársins og gagnvart öllum málum. Gagnrýnin á þó að vera málefnaleg og rökstudd. Vissulega skortir ekki á þau mál ríkisstjórnarinnar, sem hægt er að gagnrýna með þeim hætti, en lítið heyrist frá stjórnarandstöðunni.

Svo virðist vera sem stjórnarandstaðan ætli að láta Jóhönnu og Steingrím vinn fyrir sig atkvæðin. Þetta er hættulegur leikur og gæti fljótt snúist í höndum hennar. Málefnaleg og rökstudd gagnrýni á verk ríkisstjórnarinnar, ásamt tillögum til betri vega, er það sem gildir. Þar dugir ekki að rita eina og eina grein í blöðin, með margra vikna millibili. Þetta er verk sem stjórnarandstaðan á að vera vakin og sofin yfir og nýta hvert tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að. Þá geta kjósendur kosið á réttum forsendum, kosið málefni. Að ganga til annarra kosninga á sömu forsendum og síðast, þegar kjósendur mættu á kjörstað til þess eins að kjósa burtu það sem fyrir var, er ekki gott til eftirbreytni. Afleiðingar þeirra kosninga hafa bitið landsmenn illa!

Svo ættu þingmenn að sameinast um að hætta þessum trúðslætum sem ESB umsóknin er og draga umsókn okkar til baka. Það er engin ástæða til að láta þjóðir heims hlæja að okkur!!

 


mbl.is Farþegum fækkar eftir aukin gjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örn Ingólfsson

Já Gunnar Heiðarsson þú ferð mikinn og er það gott. En eitt skaltu láta koma fram í þínum skrifum framvegis að hrunið er þessari ríkisstjórn ekki um að kenna og ekki Ingibjörgu Sólrúnu um eins og komið hefur fram þá var leyndin sem að var fyrir hrun sem að vissir aðilar innan samstarfsflokksins með Samfylkingunnisvo mikill að samstarfsráðherrar komu af fjöllum þegar að lekinn kom frá vissum aðilum! Og jú hrunið kom og einn bað Guð að blessa Ísland því sá mæti maður sá loksins á endanum hvernig komið var út af leynd Seðlabanka því sá sem öllu réði sagði ekki neinum frá nema kannski sínum nánustu vinum sem högnuðust og skutu kannski milljarðahundruðum í skattaskjól eða hvað? Og á þeim tíma hver skyldi hafa verið dómsmálaráðherra og af hverju lét hann ekki taka þessa menn og setja í gæslu? Nú því miður fóru andskoti mörg milljóna hundruðin í gæluverkefni borgarstjórans á þeim tíma td. Perlan og Ráðhúsið í staðinn fyrir Fangelsið sem átti að rísa á TUNGUHÁLSI Á ÞEIM TÍMA  og enn þann dag í dag er verið að borga með Perlunni! Nei er þá ekki Gunnar kominn tími til að láta sverfa til stáls og fara að láta peningapúkana fara að borga því ekki vildi ég forljóta húsið við h-öfnina og er þá ekki bara hægt að láta félaga DO setja í húsið eins og þeir lofuðu og nota jafnvel krónurnar sem við fáum fyrir kvótann í svoleiðis bara spyr? En flott Gunnar það þarf umræðu um málin og það skal tekið fram að ég gæti verið kommi í den en í dag þá er ég á miðjunni::))

Örn Ingólfsson, 4.8.2012 kl. 10:14

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þeir sem afneita hruninu eru auðvitað ekki með öllum mjalla, en þeir sem reyna að réttlæta hlut einhverra sem þó áttu sinn þátt í undanfara þess, eins og þú reynir hér gagnvart ráðherrum og þingmönnum Samfylkingar, eru verr staddir, Örn.

Staðreyndin er nefnilega sú að einungis einn stjórnmálaflokkur gat sagt sig saklausann af undanfara hrunsins, VG og sá flokkur fékk sitt tækifæri vorið 2009. Flokkurinn hefur sannað eftirminnilega að sakleysi hans af hruninu er einungis vegna þess að hann var í stjórnarandstöðu árin fyrir hrun, svo hressilega hefur hann spyrt sig við fjármálaöflin.

Það er því engum einum flokk um að kenna að hrunið varð, allir eru sekir og allir verða að vinna úr því innan sinna banda. Því miður er það þó svo að núverandi stjórnarflokkar, einir allra á Alþingi, neita að viðurkenna þetta. VG vísar í að þeir voru í stjórnarandstöðu og SF vísar á Davíð Oddson!! Aðrir flokkar hafa viðurkennt sinn þátt, þó vissulega væri gaman að sjá frekari tiltekt innan þeirra.

Það er þó staðreynd að jafnvel þó stjórnvöld hér á landi hefðu haldið vöku sinni fyrir hrun, hefði það skollið á okkur engu að síður. Menn geta svo velt fyrir sér hvort það hefði orðið jafn slæmt og raun varð. Ástæða þess er einkum sú að við erum í EES, en sá samningur opnaði fyrir flæði fjármagns úr landi.

Þá skulum við ekki gleyma þeirri staðreynd að hluti útrásarguttanna hafði heljartök á fjölmiðlakerfi landsins og ef á þá var andað voru viðbrögðin sterk. Þá höfðu sömu menn sterk áhrif innan stjórnmálaflokkanna og um tíma var ekki betur séð en SF væri ein deild innan Baugssamsteypunnar, svo viljugir voru talsmenn þess stjórnmálaflokks að verja þá samsteypu. Þar sló þáverandi formaður flokksins ekki af sér!

Það væri gaman að heyra þína skýringu á ástandinu í Evrópu, einkum innan landa evrunnar. Var Davíð Oddson þar að verki? Er svo illa komið fyrir evrunni vegna hans verka og Sjálfstæðisflokksins?

Ástæða hrunsins er fyrst og fremst að leita til USA. Þar fóru glæpamenn offörum innan bankakerfisins með þeim afleiðingum að heimsbyggðin hlaut mikinn skaða.

Léleg árvekni stjórnkerfisins hér, en þó einkum sú staðreynd að glæpamenn höðu einnig náð yfirtökum á bankakerfinu okkar, varð svo til þess að hér varð skaðinn meiri en hugsanlega hefði þurft. 

Það er svo hvernig þjóðir hafa unnið sig út úr þessum vanda sem hægt er að deila um og í raun mestu máli skiptir. Fortíðin er slæm, en hún er liðin og ekkert hægt að gera nema að læra af henni og auðvitað að hegna þeim mönnum sem brutu hér lög. 

Bandaríkin tóku með festu á sínum vanda og hafa staðið sig nokkurnveginn, þó vissulega sé mikil kreppa þar enn. Flestar Evrópuþjóðir undir forystu ESB, eru aftur verr settar. Þar er enn verið að velta sér upp úr vandanum, meðan hann magnast dag frá degi. Ekkert er þar enn gert til bóta, einungis smáplástrar settir á svöðusárið. Því miður mun þessi aumingjaskapur evrulanda og ESB vald annarri alheimskreppu og mun sú verða mun verri en sú sem byrjaði síðsumars 2008.

Hé á landi var vel farið af stað, strax eftir hrun. Bráðabirgðalögin, sem allir flokkar samþykktu, björguðu miklu og áhrif þeirra virka enn. Aftur á móti hefur sú ríkisstjórn sem kosin var vorið 2009 reynt hvað eftir annað að eyðileggja uppbygginguna, með undirlægjuhætti og aumingjaskap. Þá var sú ákvörðun, strax á fyrstu dögum stjórnarsamstarfsins, að sækja um aðild að ESB mjög misráðin. Þegar þjóðin var í sárum og þurfti helst á því að halda að hún yrði sameinuð, þá ákváðu stjórnvöld að kljúfa hana enn frekar og það sem verra var, þá klauf hún einnig annan stjórnarflokkinn og varð óstarfhæf á eftir! Svona lagað gerir enginn sem hefur hið minnsta vit í kollinum!!

Það má margt gagnrýna úr fortíðinni. Hvort Perlan og Harpan séu þar stæðst skal ósagt látið, en þú skallt ekki gleyma hverjir tóku ákvörðun um að halda áfram uppbyggingu Hörpunnar. Þar hefði verið hægt að hafa minnisvarða um hrunið, komandi kynslóðum til varnar, svona eins og Ground Zero í NY. En það var tekin ákvörðun um að klára þá byggingu og munu menn deila um ágæti hennar komandi ár.

Ég get hæglega sagt að hrunið sé ekki Ingibjörgu Sólrúnu að kenna, Örn, ekki frekar en öðrum ráðherrum og þingmönnum síðastliðinn áratug eða lengur. Hrunið á sér dýpri rætur, en það er auðvelt að kenna pólitískum andstæðingum um. Slíkt gera þó einungis smámenni!!

Gunnar Heiðarsson, 4.8.2012 kl. 11:38

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Alveg ljómandi hjá þér Heiðar, þakka þér fyrir.

Hrólfur Þ Hraundal, 4.8.2012 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband