Feigðarflan

Þessar hugmyndir, um sölu á rafmagni til Evrópu um sæstreng eru eitt allsherjar feigðarflan.

Það er ljóst að Landsvirkjun mun fá hærra verð fyrir hverja selda kílówattstund sem nær landi í Evrópu, svona í flestum tilfellum. Fer þó algerlega eftir vilja þeirra sem á hinum endanum eru.

En hversu margar einingar þarf að senda af stað fyrir hverja eina sem nær landi á hinum enda snúrunnar? Tapið sem verður á svo langri leið er mikið, en enginn hefur enn upplýst hversu mikið það er.

Þá er verðlagning á raforku í Evrópu mjög rokkandi, fer eftir eftirspurn á hverjum tíma. Er Landsvirkjun í stakk búin til að taka slíkum verðsveiflum? Það er ljóst að jafnvel þó hver einasta spræna og hver einasti hver yrði virkjaður hér á landi, er það sem dropi af orkunotkun Evrópu, svo við yrðum aldrei þess megnug að hafa áhrif á verð orkunnar á þeim markaði.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur þegar sagt að hugsanlega gæti þetta hækkað verð á raforku til innanlandsnota, einkum heimila. Er þjóðin tilbúin til að taka á sig auknar byrgðar til að tryggja erlendum aðilum orku? Þá hefur hann sagt að hugsanlega væri hægt að virkja vindinn einnig, svo hægt sé að senda enn meiri orku um rafmagnssnúruna! Er ekki nærtækara fyrir Evrópulönd að virkja þennan vind í eigin landi og losna þar með við kosnað og tap vegna flutninga orkunnar? Það er sami vindur sem blæs um allan heim! Eða er kannski ekki svo góð reynsla hjá þessum þjóðum af slíkri orkuframleiðslu? Hún hefur jú verið stunduð þar um árabil.

Svo er nú kannski það sem mestu máli skiptir, ávinningurinn af þeirri orku sem beysluð er. Eigum við að vera orkuframleiðsluland fyrir aðrar þjóðir, svo þær geti notið þess virðisauka sem af orkunni hlýst? Eigum við að verða eins og þriðjaheimsríkin sem vinna og selja olíu til annara þjóða, þar sem örlitið brot af hagnaðinum situr eftir á fárra manna höndum í sjálfu landinu, en erlendir auðhringar njóta alls hagnaðar?

Er ekki nær að nýta þann virðisauka innanlands með tilheyrandi atvinnusköpun, til heilla fyrir þjóðina?  Er ekki nær að fara sér varlega og virkja það sem þarf til atvinnuuppbyggingar í landinu, í stað þess að tengjast óseðjandi ófreskju, sem mun heimta meira og meira þar til allt er uppurið hjá okkur? Það verður alfarið í valdi kaupanda að stjórna hér framleiðslunni. Eftir að snúran hefur verið lögð, með tilheyrandi tilkosnaði, geta þeir með einfaldri hótun um að hætta kaupum, krafist enn frekari virkjanna og enn meir rafmagns!

Þetta er einhver heimskasta hugmynd sem upp hefur komið en hún er þó ekki ný af nálinni. Þessi hugmynd hefur verið í umræðu um nokkurra ára bil, einkum af þeim sem sjá sér einhvern hag af framkvæmdinni. En þegar forstjóri Landsvirkjunnar og þegar ráðamenn þjóðarinnar eru farnir að taka undir þetta feigðarflan, er ástandið orðið virkilega hættulegt.

Það er ljóst að þetta fólk ber ekki hag lands og þjóðar fyrir brjósti!! 


mbl.is Gæti kallað á fleiri virkjanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Óskarsson

Raforkusala úr landi þýðir margt neikvætt: a) Verið er að senda okkur samkeppnisforskot úr landi, b) Engin atvinnuuppbygging á sér stað í landinu, c) Þetta skapar í besta falli 3-4 störf til framtíðar, d) raforkuverð hækkar innanlands, en lækkar í Evrópu, e) Svigrúm til orkuöflunar innanlands fyrir bæði ný fyrirtæki og fyrir eðlilega aukningu raforkunotkunar minnkar, f) Vægi þess og hvati til að skipta úr innfluttum orkugjöfum í innlenda minnkar, g) framkvæmdin kallar á gríðarlega stóra virkjunarkosti með tilheyrandi náttúruspjöllum.

Svona má lengi telja. Nógu erfitt er í dag að ná sáttum um smærri virkjunarkosti sem nauðsynlegir eru til að skaffa núverandi starfsemi í landinu nægjanlega orku, tryggja öruggari afhendingu orku og til að skaffa orku til viðbótar atvinnuuppbyggingar.

Ég efast ekki um að frá sjónarhóli Landsvirkjunar þá er sala á rafmagni um sæstreng áhugaverð og arðbær, en henni fylgja margar neikvæðar hliðar og ófyrirséð vandamál til lengri tíma litið.

Ég vil að menn einbeiti sér að því að snúa af þeirri villu vegar sem er í hugmyndum núverandi stjórnarflokkar um rammaáætlun í virkjunum, sem að mínu mati er hugsuð alltof þröngt og nánast búið að útrýma vatnsaflsvirkjunum þar á kostnað gufuaflsvirkjana sem er ekki eins varanlegur orkugjafi og vatnsaflið. Ég fagna jafnframt væntanlegum tilraunum Landsvirkjunar með vindorku. Huga þarf einnig að virkjun sjávarfalla á nokkrum stöðum á landinu. Ég er því síður en svo á móti virkjunum og aukinni raforkuframleiðslu en sæstrengshugmyndin er hættuleg.

Jón Óskarsson, 14.4.2012 kl. 12:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband