Verður kosið um gjaldmiðil í næstu Alþingiskosningum ?

Nú keppast stjórnmálaflokkarnir við að finna "sinn" gjaldmiðil. Samfylkingin heldur trú sinni við brunarústir evrunnar, Framsókn nefnir ýmist kanadíska lóminn eða norsku olíukrónuna, Samstaða vill sænska jafnaðarmannakrónu og VG telur hugsanlegt að sú íslenska gæti bara dugað. Sjálfstæðisflokkur þorir ekki að nefna neinn gjaldmiðil, enda vængbrotinn með slappa forustu!

Það virðist því vera sem stjórnmálastéttin sé haldin einni alsherjar minnimáttarkend. Í stað þess að sjá kosti krónunnar og tala fyrir þeim, þá leitar hver flokkur eftir nýjum erlendum gjaldmiðli. Eina skilyrððið er að enginn annar stjórnmálaflokkur hafi áður nefnt þann gjaldmiðil sem mögulegann kost. Þetta minnir svolítið á sandkassaleik barna!

Það er sama hvaða gjaldmiðil við hefðum haft við hrun bankanna, annan en íslensku krónuna. Ástandið í dag væri miklu mun verra. Það var krónan okkar sem kom í veg fyrir að við yrðum enn frekari þrælar fjármálafyrirtækja. Það var krónan sem gerði mögulegt að hér voru sett neyðarlög til bjargar landinu. Án hennar hefðu þau lög verið haldlítil!

Í dag erum við Íslendingar þrælar innlendra fjármálafyrirtækja. Ef ekki hefði verið krónan okkar við fall bankanna, hefðum við orðið þrælar erlendra fjármálafyrirtækja og ekki hefði verið nokkur von til að sleppa frá þeim þrældóm!

Krónan er gjaldmiðill. Hvergi í heiminum hefur gjaldmiðill öðlast eigið líf. Hann er einungis mælikvarði á þá hagstjórn sem ríkir í viðkomandi ríki. Vð erum vissulega með örhagkerfi hér á landi, í samanburði við hinn stóra heim og sveiflur erlendis eru okkur stundum erfiðar. Með krónuna okkar sem gjaldmiðil getum við látið hana taka á móti þessum sveiflum, að hluta eða öllu. Án krónunnar þarf eitthvað annað til að taka á móti þeim og þetta annað er vel þekkt. Þetta annað er einfaldlega laun og atvinnustig. Þeir þættir verða þá að taka við erfiðum sveiflum í hagkerfinu.

Það er geigvænleg þróun þegar forsæisráðherra talar niður gjaldmiðil land síns. Flestir myndi kalla slíkt atferli landráð. En að þingmenn sem telja sig til stjórnarandstöðu skuli taka undir þetta er enn alvarlegra. Þingmenn sem vilja láta taka sig alvarlega og stefna að því að taka við stjórn landsins eftir næstu kosningar. Eða eru þeir kannski bara að bjóða sig fram til stjórnarandstöðu?

Það virðist sem stjórnarandstöðuþingmenn hafi ekki getu, kjark eða vilja til að mæra eigin gjaldmiðil. Í stað þess að nota rök með krónunni og rök gegn evrunni, er farin sú leið að finna einhvern annan gjaldmiðil. Með því er aðildar- og evrusinnum færð vopn í hendur! Rökin skorta ekki, hvorki með krónunni né gegn evrunni!

Aðildarsinnar grípa oft til þess að tala um afdalamennsku og  torfkofa þegar þeir lenda í rökþurrð gegn sjálfstæðisinnuðum Íslendingum. En það er spurning hvort er verra, afdalamennska sem byggir á sjálfstæði þjóðarinnar og þeim kostum sem land og þjóð býr yfir, eða minnimáttarkennd sem byggist á skömm á landi og þjóð, eins og flest allir aðildarsinnar virðast vera haldnir!

Þetta er ömurleg þróun. Að einungis einn stjórnmálaflokkur skuli þora að standa með eiginn gjaldmiðli og það stjórnmálaflokkur sem hefur með öllu fyrirgert rétti sínnum til setu á Alþingi, er verulega slæm þróun.

Hvers vegna eru þingmenn stjórnarandstöðunnar svona hræddir? Hví þora þeir ekki að taka eindræga afstöðu með gjaldmiðli þjóðarinnar? Er verið að greiða einhverjar gamlar skuldir við velgjörðamennina? Við vitum hverjir hafa lengst og mest kallað eftir erlendum gjaldmiðli. Það eru samstarfsmenn Samfylkingar í atvinnulífinu, þeir sem eiga þann stjórnmálaflokk. Eiga þessir aðilar kannski fleiri flokka?

 


mbl.is Segir sænsku krónuna vænlegri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég ætlaði að kjósa Lilji en nú hefur fyrsta viðvörunarbjallan klingt hjá mér. Svíþjóð var eitt sinn merkilegt land, og er það stutt síðan, en fáum löndum hefur hnignað jafn mikið á jafn stuttum tíma, bæði siðferðislega og efnahagslega og er það nú svipur hjá sjón eða þegar ég var að alast þar upp. Að taka upp Kanadadal væri mun framsýnna, Kanada er órasískasta og að mörgu leyti framsýnasta land heims, og þar eru hlutir á uppleið. Þar að auki býr þar fjöldi fólks af íslensku bergi brotið, sem vill styrkja tengsl við Ísland og lætur sig hag landsins varða, þar á meðal áhrifafólk og frammámenn, og sumt af þessu fólk talar enn íslensku, þó ófullkomin sé, afa og amma kenndu þeim. Í eldgosunum miklu dó 1/3 íslensku þjóðarinnar og það margir flúðu til Kanada, og þar voru það mikið betri lífsskilyrði, minni vöggudauði og betra barnalán, að í dag búa um 300.000 manns af íslenskum ættum þar, svipað og býr hér. Við erum því nátegnd Kanada á marga vegu. Tengsl við Kanada myndu líka efla bæði tengslin til Ameríku, sem er andlega skyld Íslandi, þangað fluttu menn líka til að verða frjálsir og lausir við yfirvald kónga og presta sem einkenndi Evrópu (og hefur því mikla samúð með Íslandi, afþví goðsagan um Ísland er mjög svipuð goðsögunni um Bandaríkin. Og aukin tegnsl við Kanada efla líka tengslin við Asíu, sem er enn mikilvægara, því ekkert vestrænt ríki hefur jafn blómleg, lifandi og lífleg tengsl við Asíu eins og Kanada hefur í dag.

sigurður (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 12:52

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég tek undir með þér Sigurður, að við eigum að stórefla tengsl okkar við Kanada. En látum vera að skipta um gjaldmiðil.

Það er rétt að ættartengsl Íslendinga við Kanada er mikil og hef ég áður komið að því á þessari síðu. Þekki nokkuð til í þeim efnum.

Nærri því hver Íslendingur getur rakið sín ættartengsl við einhvern af vesturförunum, en þó ekki allir. Sjálfum hefur mér ekki tekist að finna neina ættingja þar vesturfrá, þó konan mín eigi þar stórann ættstofn og þá um leið börn okkar og barnabörn. Þó ég geti ekki fundið neina ættingja þar vesturfrá, flutti einn af mínum ættingjum vestur á sínum tíma en lést barnlaus.

Það er sérstök upplifun að ferðast um slóðir vesturfaranna, bæði í Kanada og einnig Norður Dakóta í Bandaríkjunum, en þar var einnig öflug byggð Íslendinga.

Gunnar Heiðarsson, 11.3.2012 kl. 13:59

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég hvet menn til að horfa og hlusta á það sem Frosti Sigurjónsson hafði um málið að segja í Silfrinu áðan, ég er honum algjörlega sammála í einu og öllu.  Þarna ræddi hann þessi mál á mjög svo málefnalegan hátt og rök hans virtust vera mjög sterk.

Jóhann Elíasson, 11.3.2012 kl. 15:25

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Það er svipað með þennan undarlega vingulshátt gagnvart gjaldmiðlum og þá sem alltaf þurfa að vera að prófa aðrar konur og þar með klandur.



Hrólfur Þ Hraundal, 11.3.2012 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband