Bönkum Evrópu hefur verið bjargað - í bili

Stjórnvöld í Grikklandi hafa látið undan kröfum þríeykisins, AGS, Seðlabanka Evrópu og björgunarsjóðs ESB. Þetta leiðir til þess að Grikkir geta nú fengið 130 milljarða evrur að láni.

En er þetta bót fyrir Grikki, mun þetta hjálpa þeim? Þvert á móti, þetta mun einungis auka erfiðleika þeirra og þær kröfur sem þeir hafa nú gengist að, auka vandann enn meir. En þetta frestar vandanum, um nokkra mánuði fyrir Grikki og hugsanlega eitthvað lengur fyrir banka Evrópu.

Staðreyndin er að ekki ein króna af þessu láni sem Grikkjum er ætlað, mun fara í hagkerfi þeirra sjálfra, heldur fer þetta fé einungis milli banka í Evrópu, ætlað til endurfjármögnunar á lánum Grikkja. Kröfurnar sem þeir gangast að til að bjarga bönkum Evrópu eru hins vegar svo skelfilegar að vart verður við unað. Þær munu leiða til þess að gjörsamlega útilokað verður fyrir Grikki að vinna sig út úr skuldavanda sínum. Hagkerfið, sem nú er nánast stopp, mun stöðvast endanlega. Þeir sem enn eiga eitthvað fjármagn í Grikklandi munu forða því úr landi, reyndar flestir búnir að því nú þegar.

Skólum og sjúkrahúsum hefur að stórum hluta verið lokað, þær stofnanir á því sviði sem enn eru opnar munu einnig lokast. Atvinnuleysið er komið um eða yfir 20% og sú tala mun þykja lág eftir nokkrar vikur!

Veitingastaðir og hótel hafa ekki lengur rekstrarfé og því mun aðalatvinnuvegur Grikkja, ferðamennska, stöðvast. Enda gera túristar sér ekki leik að því að ferðast inn í brennandi byggingu og eiga á hættu að brenna inni.

Hafi verið raunverulegur vilji til að hjálpa Grikkjum, hefði verið farin sú leið að hjálpa þeim til að koma atvinnulífinu í gang. Einungis þannig geta þeir unnið sig út ur vandanum. Einungis þannig er hægt að virkja Gríska þjóð. En það er enginn vilji til að hjálpa Grikkjum, einungis vilji til að hjálpa bönkum Evrópu, bönkum sem fóru offari og stunduðu óábyrga lánastarfsemi.

Þessi aðferð, að svelta Grikki til hlýðni, mun enda eins og alltaf áður þegar sú aðferð er notuð, með hörmungum. Grískur almenningur er blóðheitur og mun ekki láta þessa smán yfir sig ganga. Grikkland mun aldrei ná sér fyrir vind í ósátt við þjóðina, þetta ættu stjórnmálamenn að vita. Einungis með samvinnu við þjóðina mun Grikkland lifa af. Þríeykið hefur gert grískum stjórnmálamönnum ókleyft að leita slíkrar samvinnu og sigað þeim sem varðhundum á eigin þjóð! Enda mrkmið þess einungis eitt, að bjarga bönkum Evrópu.

Þá skal það ekki gleymast að enn er starfandi her í Grikklandi, með herforingjum. Þeir hafa nokkra þekkingu og æfingu í valdatöku. Það er ekki ólíklegt að þeir dusti rykið af þeirri kunnáttu sinni. Svo getur þjóðinni ofboðið að hún telji það jafnvel betri kost. Hún vill kannski frekar vera þrælar eigin hers, en þrælar kommisarana í Brussel, sem reyndar er í augum margra Grikkja, Þýska heimsveldið!!

 


mbl.is Verkalýðsfélög boða verkföll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband