Mikill maður hann Gylfi - eða þannig
7.2.2012 | 07:36
Það er mikil kúnst að geta reiknað 480 milljarða tap niður í átta milljarða, svona bara með einu litlu reiknisdæmi, eða er þetta kannski bara heimska á háu stigi? Sá snillingur sem þetta gerði er titlaður forseti ASÍ!
Gylfi Arnbjörnsson komst að því að tap lífeyrissjóðanna hafi einungis verið 8 milljarðar. Hann tók 480 milljarða tapið og dró frá því tekjur upp á 472 milljarða og fékk þessa niðurstöðu. Ja, mikil er snilli Gylfa - eða þannig!
Tapið er alltaf 480 milljarðar, reyndar mun meira en látum það liggja á milli hluta. Ef ég tapa 500 þúsundum þá er það tapað fé, jafnvel þó mér takist að spara á sama tíma 400 þúsund í sjóð. Þá á ég einungis 400 þúsund í stað 900 þúsunda.
Það er sama hvernig Gylfi reiknar, tap sjóðanna er alltaf 480 milljarðar króna, alveg sama hverjar tekjurnar á móti eru. En hvert tapið nákvæmlega er skiptir ekki öllu máli, það vissu allir að það var stórt, þó kannski fáir utan sjóðanna hafi áttað sig hve gífurlega stórt það var. Það sem skiptir máli er hvernig þetta gífurlega tap varð til.
Bankahrunið hrópa talsmenn sjóðanna og telja sig þar með lausa allra mála! Eins og "hrunið" hafi verið einhver sjálfstæð vera með sjálfstæðann vilja. Hrunið var manna verk og skýrsla rannsóknarnefndar Landsambands lífeyrissjóða sýnir að stjórnir sjóðanna voru þar nokkuð stórir gerendur og verk þeirra stuðluðu beinlínis að hruninu.
En það er fleira sem þessi skýrsla sýnir, auk þess að vera þáttakndur í þeim hrunadansi sem leiddi af sér hrunið, þá virðist sem stjórnir sjóðanna hafi að auki beytt vafasömum aðferðum við sínar ákvarðanatökur og jafnvel stundað lögbrot. Það er efast um lögmæti fjárfestinga lífeyrissjóðanna í skýrslunni.
Enginn telur sig þó bera ábyrgð, enda varla von ef stjórnir sjóðanna eru samsettar af fleiri snillingum eins og Gylfa. Það er varla von til að þeir hafi hugsun á því að þeir beri einhverja ábyrgð, þeir benda bara á "hrunið"!
Það er óskemmtileg tilhugsun á vetrarmorgni að vita til þess að maður eins og Gylfi Arnbjörnsson skuli hafa allt um það að segja hver kjör manns eru, maður sem ekki kann einfaldasta reikning sem kenndur er í barnaskóla. Það er þó enn óhugnalegra að vita það að ekki er einasta von til þess að koma þessum manni úr stól ASÍ, þann stól yfirgefa menn ekki nema af fúsum og frjálsum vilja og sá vilji er ekki til staðar hjá Gylfa Arnbjörnssyni. Það er ekki einn einasti möguleiki fyrir launagreiðendur hans að segja honum upp, ekki einu sinni að ákvarða laun hans. Forseti ASÍ er kóngur í sínu ríki og hefur safnað sinni hirð kringum sig svo útilokað er að ná til hans.
Gylfi Arnbjörnsson hefur oft sýnt að hann er ekki maður fólksins, sinna umbjóðenda og launagreiðenda. En nú sýnir hann í ofanálag að hann kann ekki einfaldann reikning og skýrslan gefur til kynna að hann hafi verið þáttakandi í vafasömum og jafnvel ólögmætum fjárfestingum með söfnunarsjóð launþega! Hafi hann stóra skömm fyrir!!
Það skal vera alveg á hreinu að rannsóknarnefnd Landsambands lífeyrissjóða var í starfi og á launum hjá sjóðnum sjálfum. Nefndin hafði ekki vald til að sækja sér öll gögn sem hún óskaði og gat ekki kallað alla til yfirheyrslu sem hún vildi. Því er ljóst að störf nefndarinnar eru ekki eins og best væri kosið, jafnvel þó maður haldi því ekki fram að hún hafi viljandi hlíft verkkaupa sínum. Því má búast við að enn eigi eftir að koma fram upplýsingar sem gera dæmið enn svartara. Hvort um er að ræða enn frekara tap, enn stærri lögbrot eða hvoru tveggja, mun koma í ljós.
Í ljósi þessa ættu allir þeir stjórnarmenn sem enn sitja í stjórnun sjóðanna og voru við hruni, að segja strax af sér. Ef um lögbrot er að ræða verður væntanlega tekið á því hjá viðkomandi yfirvöldum.
Það er nefnilega þannig að enginn er ómissandi, ekki heldur þeir sem sitja í stjórnum lífeyrissjóða. Það kemur alltaf maður í manns stað og oftar en ekki betri maður!
Vafi um lögmæti fjárfestinga lífeyrissjóða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.