Valin tímasetning ?

Skömmu fyrir jólahlé þingsins óskaði formaður Sjálfstæðisflokks eftir að leggja fram tillögu fyrir Alþingi. Ljóst var að þetta setti jólafrí þingsins í uppnám og niðurstaðan, eftir fundi forseta þingsins með formönnum allra flokka, að málið yrði lagt fyrir þingið þann 20. janúar. Þessi málalok urðu til þes að Alþingi gat haldið dagskrá að mestu og jólafrí þingmanna tafðist einungis um einn dag.

Umræðan um tillöguna hófst þó löngu áður en tillagan var lögð fyrir þingið, eða nánast strax eftir að ósk um framlagningu hennar hafði komið fram. Sumir þingmenn voru duglegir við að koma sér í fjölmiðla, þar sem þeir fordæmdu tillöguna. Þetta stigmagnaðist og eins og vanalega voru fjölmiðlar galopnir stjórnarliðum, meðan stjórnarandstæðingar þurftu að berjast fyrir því að koma sínum sjónarmiðum að.

Loks kom að þeim degi er tillagan var lögð fyrir þingið. Þá kom frávísunartillaga og í stuttu máli þá var hún felld. En nú breyttist umræðan snarlega. Þeir þingmenn sem hæst höfðu látið gegn tillögunni og efni hennar, í flestum tilfellum stjórnarþingmenn, hættu nú að ræða tillöguna sjálfa og efni hennar. Nú snerist málið fyrst og fremst um meinta svikara meðal samflokksmanna sinna. Nú er svo komið að heiftin innan stjórnarflokkanna, ekki milli þeirra, heldur innan þeirra, er orðin með þeim hætti að annað eins hefur aldrei áður sést. Og ekkert lát virðist ætla að verða á þessu og vandséð hvernig ríkisstjórnin getur starfað áfram.

En þetta er allt vitað. Fréttaflutning hefur ekki skort af þessu máli og allir fjölmiðlar yfirfullir af fréttum af málinu og nú fá báðir deiluaðilar greiðann aðgang að fjölmiðlum, enda báðir hópar innan stjórnarliðsins. Stjórnarandstaðan er orðin utan þessa hildarleiks að mestu.

En var þessi tímasetning, sem ákveðin var fyrir framlagningu tillögunar, valin? Var dagurinn 20. janúar ákveðinn til að skyggja á annað og mun stærra mál, opnun áróðursstofu ESB þann 21. janúar? Gerði forseti Alþingis og forsætisráðherra sér grein fyrir þeirri ólgu sem tillagan myndi valda og ákváðu að láta hana skyggja á hitt stóra málið, mál sem skiptir þjóðina mun meira máli en Landsdómur, reyndar meira máli en allt annað sem snýr að landi og þjóð?

Í öllu falli er ljóst að fjölmiðlar hafa eytt miklum tíma og mannafla til að velta sér upp úr þeim deilum sem eru innan stjórnarflokkanna. Auðvitað á fólk rétt á að fá fréttir af þeim deilum, en hitt málið er mun stærra. Litlar fréttir hafa hins vegar verið fluttar af því. Jafnvel á mbl.is, þeim fjölmiðli sem hefur helst flutt fréttir að því sem snýr að aðlögunarferlinu að ESB, byrti einungis eina stutta frétt af opnun áróðursstofunnar, auk þess sem vitnað var í annarri frétt í formann Heimssýnar um málið. Ekkert annað!

Áróðursstofa ESB starfar hér á verulega gráu svæði, lagalega séð og með því að leyfa starfrækslu hennar er verið að fara út á nýja og hættulega braut. Þarna er stórveldi gefið frítt spil til að "kynna" sig. Engar takmarkanir af neinu tagi eru settar, ekkert er gert til að fylgjast með starfi stofunnar og ótakmarkað fé er veitt til hennar frá stórveldinu ESB. Allt er þetta bannað samkvæmt lögum og því notuð ný og framandi nöfn um starfsemina til að komast hjá íslenskum lögum. Þetta er núverandi ríkisstjórn þekkt fyrir og hafa beytt því áður, en jafnvel þó dómstólar hafi bent á að það sé efnið sem gildir, ekki nöfnin yfir það, þá skella stjórnvöld bara skollaeyrum og halda sínu striki.

Starfræksla áróðursstofu ESB hér á landi, með ótakmörkuðu fjársteymi, er verið að skekkja verulega umræðuna um aðild Íslands að ESB. Það sér auðvitað hver maður að slík áróðursstofa mun ekki flíka því sem neikvætt er við aðild, heldur halda á lofti því sem gott þykir. Þá munu starfsmenn stofunnar eiga að svara spurningum efasemdarfólks og ljóst hvernig slíkum spurningum verður svarað. Auglýsingageta stofunnar verður með slíkum hætti að gjörsamlega útilokað verður fyrir nokkur önnur samtök að keppa á þeim vettvangi. Því er ljóst að opnun þessarar stofu mun hafa meiri áhrif á landsmenn en nokkuð annað og verða skoðanamyndandi um málefni sem skiptir land og þjóð meiru en nokkuð annað.

En fátt er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott. Allir vegir liggja í báðar áttir og þessi nýja hraðbraut milli Brussel og Reykjavíkur er engin undartekning á því. Því má rekna með að hinir háu herrar í Brussel fái fljótt fréttir af stöðu mála hér á landi og afstöðu landsmann til aðildar. Að nú loks fái þeir réttar fréttir af því að einungis einn stjórnmálaflokkur, sem hefur innan við 30% atkvæða að baki sér er hlyntur aðild. Að álíka stórt hlutfall þjóðarinnar sé hlynnt aðild. Að þær lygar sem Össur hefur fyllt hugi þeirra af, verði opinberaðar.

Kannski mun þessi nýja hraðbraut milli Brussel og Reykjavíkur verða til þess að háu herrarnir þar hugsi sig tvisvar um áður en lengra verður haldið. Að þeir vegi það og meti hvort rétt sé að sóa stórum fjármunum í fyrirfram tapað mál. Að þeir fari að velta fyrir sér hversu sterkt umboð Össur hefur og hversu trúverðugur sá maður er.

 


mbl.is Lýðræðisleg niðurstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband