Myrkraverk Marðar

Verk sumra manna eru þannig að þau þola illa ljósið, eru unnin í myrkri og geymd þar, svo enginn fái séð. Þetta kallast myrkraverk.

Merði Árnasyni er illa við ljósið. Allir vita að verk hans á þingi eru ekki til að státa sig af og að hann vill helst hafa sem mest myrkur um þau.

Það hefur öðru hvoru verið tekin upp umræða um svokallaða ljósmengun. Þeir sem hafa haft sig í frammi í þeirri umræðu vilja láta banna ljósið, svo stjörnurnar sjáist. Vissulega er stjörnuhiminn fallegur, en að taka hann fram yfir öryggið sem götulýsing veitir, er full langt gengið.

Sum sveitarfélög hafa gert tilraunir með að minnka götulýsingu hjá sér. Þetta hefur oft á tíðum skapað mikla hættu og oftar en ekki hefur verið gengið til baka með þetta. Þeir sem fara öðru hvoru út fyrir borgarmörkin að nóttu til vita hversu hættulegt er að aka þar sem engin götulýsing er, en auðvitað þekkir Mörður það ekki.

Ef Merði tekst að koma þessu rugli í gegn og lýsing verði stórlega minnkuð, eru það sannkölluð myrkraverk hjá honum. Reyndar hefur Mörður ekki sagt hvernig hann ætlar að minnka ljósnotkun,  eða hvort hann hefur hugsað sér að banna hana með öllu. Ekki hefur Mörður heldur sagt hvernig í ósköpunum á að framfylgja einhverjum reglum um ljósanotkun. Hann hefur kannski hugsað sér að stofna her manns sem mun ganga um borgina og alla þéttbýliskjarna og sekta alla þá sem gerast svo forskammaðir að kveikja á kerti?! Kannski að hann hafi lofað Jóhönnu 7.000 störfum við þá iðju?

Það er misjafnt hvað mönnum þykir áríðandi, hvernig forgangsröðun manna er. Það verður vart sagt að forgangsröðunin hjá Merði sé í samræmi við þann veruleika sem við búum við í dag, þegar atvinnuleysið eykst við hvern mánuð, öldruðum og öryrkjum er haldið í snöru örbyrgðar, fjölskildur landsins eru að missa heimil sín og sífellt fleiri grípa til þess örþrifaráðs að flýja landið. Þá þykir Merði mest um vert að sóa tíma Alþingis í umræðu um hvort of mikil ljósamengun sé til staðar á landinu! Honum dettur þó ekki í hug að koma með haldbærar tillögur til lausnar, reiknar sennilega með að þær falli af himni ofan.

Mörður ætti að kveikja á perunni í kollinum á sér, þá sér hann kannski ljósið! Nema peran sé sprungin?!

 


mbl.is Umhugað um myrkrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvaða sveitarfélög eru það sem hafa framkvæmt þessa tilraun? Og hvernig var það mælt að það hafi skapað mikla hættu?

Arnar (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 18:17

2 identicon

Maðurinn þarf að gera sér grein fyrir því að það er annar og meiri vandi sem hvílir á þjóðinni og heimilum landsins.

axel (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 18:25

3 identicon

Hurr durr skjaldborgin.

Kreppuklæmill (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 18:42

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Mikið afskaplega er þetta vondur bloggpistill.

Í fyrsta lagi snýst málið um bætta lýsingu. Hún er of mikil eins og er, miklu meiri en gerist til dæmis í íbúðahverfum víðsvegar í Evrópu. Það er vel hægt að draga töluvert úr lýsingu án þess að skerða öryggi (lýsing eykur ekki endilega öryggi nota bene) og um leið spara mikla fjármuni. 

Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum víða um heim að slæm lýsing getur haft slæm áhrif á heilsu fólks. Það er fyrir löngu vitað að manngerð lýsing hefur slæm áhrif á dýr. Vond lýsing á húsum og í íbúðahverfum er líka mörgu fólki hreinlega til ama. Fólk sem býr við flóðlýsta fótboltavelli þekkir það þegar flóðlýsingin lýsir upp heimili fólsk. Þetta kannast margir við sem búa í Safamýrinni og við Frostaskjól.

Hverjir eru það annars sem vilja banna lýsingu? Vinsamlegast ekki gera mönnum upp skoðanir.

Ekkert bæjarfélag á Íslandi hefur gert tilraunir með að minnka lýsingu. Það hefur hins vegar verið gert í mörgum löndum og yfirleitt með svo góðum árangri að fleiri bæjir og borgir hafa tekið sér slíkt til fyrirmyndar. Í Bandaríkjunum er Tucson í Arizona eitt besta dæmið. Hér er annars gott yfirlit yfir lýsingu og glæpi http://www.britastro.org/dark-skies/crime.html?7O 

Öryggið sem á að fylgja götulýsingu er stórlega ofmetið. Skýrslur um umferðaröryggi víða um heim, til dæmis á Íslandi, renna stoðum undir það að lýsing á vegum utan þéttbýlis dragi ekki úr slysahættu heldur auki þvert á móti umferðarhraða sem leiðir til verri slysa.

Um þetta má lesa í ágætri skýrslu Vegagerðarinnar. Þar segir í samantekt (fyrir þá sem stinga höfðinu í sandinn og vilja ekki lesa hana):

Skoðaðar voru ýmsar erlendar heimildir um veglýsingu og áhrif hennar á umferðaröryggi. Almennt má segja, að lýsing gatna innan þéttbýlis auki umferðaröryggi. Þessi áhrif eru alls ekki jafn skýr fyrir vegi í dreifbýli.
og

Auk þess var hugsanlegur ávinningur af lýsingu Reykjanesbrautar skoðaður sérstaklega.  Í ljós kom, að ávinningur í myrkri er lítill og ómarktækur.  Nokkrar ákeyrslur hafa orðið á staura.
og

Ekki er hægt að búast við neinum ávinningi við lýsingu Suðurlandsvegar yfir Hellisheiði.
og að lokum:

Hér er mælt með því, að vegkaflar í dreifbýli verði ekki lýstir upp.

Þessa skýrslu má nálgast hér http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Lysing_vega/$file/L%C3%BDsingPDF270502.pdf

Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um að bæta lýsingu. Það er tilgangslaust að lýsa upp á loftið. Lýsingin á að beinast niður. Það mun spara fé, umhverfið verður fallegra á næturnar (minni glýja) og öryggi allra eykst. 

Ég hvet þig eindregið til að Gúggla bæði „ljósmengun“ til að lesa það sem hefur verið skrifað á íslensku en líka „light pollution“ til að sjá staðreyndirnar.

- Sævar

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 13.1.2012 kl. 19:12

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þeir sem eru uppaldir í sveit, þar sem engin götulýsing var og rafmagn dýrt, eiga erfitt með að meðtaka orða eins og "ljósmengun". í þeirra huga er ljósið af hinu góða, það lýsir upp tilveruna.

Þeir sem aðhyllast myrkrið þurfa þó engu að kvíða, af myrkri eigum við Íslendinga nóg, ef hægt er að kalla það eign. En það er með það eins og svo margt annað sem fólk æskir í, það þarf stundum að hafa örlítið fyrir því að nálgast það.

Verið getur að sveitafélög landsins séu að sóa orku með rangri lýsingu, en þeir sem hafa fylgst með fréttum vita að samkvæmt ESB reglum ber að útrýma glóperum og setja í þeirra stað annarskonar lýsingu. Sveitafélög hljóta að við þá aðgerð að skoða hvort þau séu að lýsa eitthvað til einskis og bæta úr því. Skynsemi og fjárhagslegur ávinningur mun stjórna því. Það ætti ekki að þurfa löggjöf til.

Varðandi lýsingu þjóðvega og þá fullyrðingu að lítill eða enginn ávinningur sé af slíkri aðgerð, þá verður að koma með allar staðreyndir á borðið, ekki klippa út einstakar setningar og raða þeim upp eftir eiginn geðþótta.

Í þessari skýrslu kemur skýrt fram að umferðaröryggi er mun minna á nóttu en degi, þar sem engin lýsing er og að lýsing fækkar óhöppum. Hins vegar er skýrslan fyrst og fremst um fjárhagslegt hagræði af götulýsingu utan þéttbýlis. Þá er sá kosnaður sem af slíkri lýsingu hlýst tekinn og dregið frá honum kostnaður við umferðaróhöpp sem hægt er með beinum hætti að tengja við skort á lýsingu.

Í skýrslunni kemur fram að Svíar hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta jafnvægi liggi nærri 6.000 bílum ÁDU. Innan þess fjölda bíla séu of fá slys til að halda uppi lýsingu. Það eru fáir þjóðvegir á Íslandi sem hafa þann umferðarþunga. Þjóðverjar tala um 5.000 til 15.000 ÁDU í þessu sambandi, eftir aðstæðum á hverjum stað.

Þeir sem aka daglega til vinnu sinnar eftir þjóðvegum landsins þekkja þetta vel. Sérstaklega sést þetta vel þegar ekið er um svæði sem að hluta til er upplýst. Þannig umhverfi fer ég daglega um til minnar vinnu og þekki því vel mun á óupplýstum og upplýstum þjóðvegum.

Við Íslendingar búum svo vel að eiga nægt rafmagn og það á verði sem varla þekkist annarstaðar í heiminum. Þetta eigum við að nota og lýsa sem best allt sem lýsa þarf. Það er þó engin ástæða til að lýsa upp til himins, þar sem hægt er að komst hjá því.

Hugmyndir Marðar eru óljósar, enda hefur hann ekki fengið hljómgrunn fyrir henni hingað til. Að ætla að stýra ljósnotkun með lögboði getur ekki verið til hins betra og illskiljanlegt hvernig á að standa að eftirfylgni slíkrar löggjafar.

Þá erum við stödd núna á bólakafi í kreppu sem ekkert lát virðist á. Að ætla að taka tíma Alþingis til umræðu um "ljós mengun", þegar mun brýnni málefni bíða afgreiðslu, er hálfgerð fyrring.

Það fer hverjum best að vera vel upplýstur!

Gunnar Heiðarsson, 14.1.2012 kl. 07:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband