Styrjöld um Evrópu

Það dylst engum, sem fylgist með fréttum, að styrjöld er hafin um Evrópu. Þetta stríð sem nú er hafið er þó ekki háð á götum borga og engjum sveita, það er ekki háð með byssum og stingjum. Þetta stríð fer fram í stjórnarráðum aðildarríkja ESB, stofnunum þess og fjölmiðlum og vopnin eru einkum peningar.

Þetta stríð nú hófst ekki vegna þess að keisari var skotinn eða kristall brotinn, það hófst  af handónýtum gjaldmiðli.

Enn er þetta stríð bundið við stofnanir og enn eru vopnin peningum. En það er ekki lengur spurning hvort, heldur hvenær það mun berast út úr stofnununum og út á götur og engi og að vopnin breytist úr peningum í byssur.

Það getur gerst með ýmsum hætti. Einhver stjórnmálamaðurinn getur orðið þreyttur á þessari orrahríð og ákveðið að sterkari skilaboð þurfi að nota.

Almenningur, sem þegar er orðinn langþreyttur á ástandinu, getur tekið til sinna ráða.

Líklegast er þó að einhver óprúttinn einstaklingur sjá sér þarna leik á borði og yfirtaki eitthvert ríkið. Jarðvegurinn hefur vissulega verið vel undirbúinn fyrir slíka menn og auðvelt að framkvæma slíka yfirtöku, jafnvel með löglegri kosningu. Við þekkjum störf slíkra manna og alveg ljóst að ef slíkur einstaklingur kemst að völdum og nær yfirtökum yfir ESB, þarf ekki að spyrja að leikslokum!

Það er svo spurning hvort þessi einstaklingur hafi í raun verið kosinn í sitt embætti þann 22. nóvember 2005. Að þann tíma sem síðan er liðinn hafi hún notað til að undirbúa yfirtöku sína á Evrópu, í von um að ekki þurfi að grípa til þungra vopna.

Næstu vikur munu verða tíðindamiklar í Evrópu, ekki kannski gleðitíðinda. Þá er gott að búa hér norður í hafi og vera utan þess hildarleiks.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ertu að segja að Angela Merkel sé þessi stjórnmálamaður sem ætli að taka yfir Evrópu í gegnum ESB?

Geturðu komið með rök fyrir því hvernig hún er þessi einstaklingur í sögulegu ljósi. Það væri frábært fyrir okkur vitleysingana.

Stefán (IP-tala skráð) 20.11.2011 kl. 13:06

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég sagði ekkert hvort eða hver. Þetta er einungis hugleiðing.

Hitt er annað mál að Angela Merkel hefur verið í sviðsljósinu og virðist orðið ráða flestu innan ESB. Þegar þjóðarleiðtogar annara ríkja ESB mislíkar eða vilja koma sínu máli á framfæri, fara þeir ekki til Brussel að tala við Barroso eða Rompuy, þeir fara til Berlínar að hitta Merkel!

Þá er ljóst að sú aðför að lýðræði Grikklands og Ítalíu var að minnsta kosti samþykkt af Merkel, hvort hún sé höfundur þess á eftir að koma í ljós.

Það væri margt hægt að skrifa um störf þessarar manneskju undanfarna mánuði, en sú staðreind að hún sé valdamest innan ESB dylst engum. Það sannaðist svo ekki verður um villst síðustu helgi.

Hvort hún er sá einstaklingur sem mun yfirtaka ESB og þá um leið Evrópu er svo aftur spurning. Þó er nokkuð víst að sú yfirtaka mun ekki gerast hægt og hljótt eða sársaukalaust.

Gunnar Heiðarsson, 20.11.2011 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband