Tími Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir hefur fengið tvö góð tækifæri á sínum allt of langa stjórnmálaferli, hennar tími hefur tvisvar komið.

Fyrri tími Jóhönnu var þegar hún stofnaði Þjóðvaka, eftir sögulega útgöngu úr Alþýðuflokknum. Þá féllu hin sögufrægu orð: "Minn tími mun koma". Og tími Jóhönnu kom, hún stofnaði stjórnmálaflokk og setti sjálfa sig í formannsstól. Í stuttu máli þá hafnaði þjóðin Jóhönnu og hennar flokki. Það sem hélt pólitísku lífi Jóhnnu gangandi var að Þjóðvaki gekk inn í Samfylkinguna, þegar hún svo var stofnuð, skömmu síðar.

Seinni tími Jóhönnu kom svo vorið 2009. Enn endurtekur hún leikinn og hefur nú rústað fylgi Samfylkingarinnar. Það er spurning hvaða stjórnmálaflokkur verður stofnaður næst, fyrir leyfarnar sem Jóhanna skilur eftir sig.

Innistæðulaust blaður hefur stundum fleytt stjórnmálamönnum langt, það sannar yfir 30 ára vera þeirra Jóhönnu og Steingríms á Alþingi. En þegar til kastana kemur eru það verkin sem fólk er dæmt eftir, ekki blaðrið. Því hafa kjósendur oftast losað sig við slíka blaðrara af þingi í kosningum, þó þau tvö hafi komist framhjá kjósendum svo lengi. Aðallega vegna blaðurs, merkingalauss blaðurs.

-

Jóhanna flutti setningarræðu sína á landsfundi Samfylkingar. Þar, eins og oftast áður, lýsti hún hversu allir aðrir væru slæmir og Samfylkingin góð. Hrunið var öðrum að kenna og vandi dagsins í dag sömu leiðis. Samfylkingin og einkum Jóhanna sjlaf, eru hvít sem nýfallin mjöll.

Það eru liðin þrjú ár frá hruni, Jóhanna er búin að vera ráðherra í ríkisstjórn í fjögur og hálft ár samfleitt. Það er nefnilega staðreynd að Jóhanna var ráðherra í hrunstjórninni. Það er svo merkilegt að enn eru tveir ráðherrar sem verma stóla stjórnarráðsins er voru í þeirri hrunstjórn, Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Sá flokkur sem minnst hefur tekið á sínum málum eftir hrun er Samfylkingin!

Jóhann vill ekki viðurkenna eigin þátt í hruninu, vill kenna þeim sem á undan henni voru um ófarirnar. Það eru einungis gungur sem ekki viðurkenna eigin mistök. En ef Jóhann vill endilega horfa aftur í tímann er sjálfsagt að rifja upp söguna. Þegar Ísland gekk í EES, án aðkomu þjóðarinnar, var Jóhanna í ríkisstjórn. EES samningurinn gerði glæpahyskinu kleift að ná yfirtökum á bönkum landsins, EES samningurinn gerði sömu mönnum kleift að þenja þetta bankakerfi langt út yfir efnahagslega getu landsins. Það voru svo stjórnmálamennirnir sem ekki stóðu vaktina þegar þessir glæpamenn létu greipar sópa um hirslur bankanna, einkum þeir stjórnmálamenn er stóðu vaktina síðustu misseri fyrir hrun. Þar gengdi Jóhanna Sigurðardóttir stóru hlutverki! 

ESB ást Jóhönnu er mikil, það dylst engum. Nú heldur hún því fram að þjóðin hafi kosið Samfylkinguna til þess að koma því máli fram. Þetta er eins fjarri sannleikanum og flest annað sem frá henni kemur, blaður á blaður ofan.

Í síðustu kosningum fékk Sjálfstæðisflokku slæma útreið, hann fékk sína refsingu kjósenda. VG var hins vegar sigurvegari þeirra kosninga, með aukningu um tæplega 7,5% á fylgi, Samfylkingin jók hins vegar sitt fylgi einungi um 3%, minna en aukning fylgis Framsóknarflokks.

Því er Samfylkingin í ríkisstjórn í boði VG en stefna þess flokks var skýr fyrir síðustu kosningar í ESB málinu. Því er sannara að segja að kjósendur hafi einmitt kosið gegn ESB aðild í þeim kosningum. Aumingjaskapur VG liða varð hins vegar til þess að Jóhanna gat vélað umsókn í gegn um Alþingi, án þess að þjóðin fengi neinum vörnum við komið! Það var vissulega gert í anda ESB "lýðræðis".

Og enn blaðrar Jóhanna, hún lofar félögum sínum að að HÚN ÆTLI að koma ESB aðildinni í höfn í sinni stjórnartíð. Allir sem hafa augu og eyru og kunna að nota þau skynfæri sín, sjá að það getur aldrei orðið, jafnvel Össur sér þetta, en ekki Jóhanna. Hún er stödd í sínum eigin hugarheimi, heimi sem ekkert á skylt við raunveruleikann.

Tími Jóhönnu er liðinn, löngu liðinn. Það er þó sorglegt og sýnir hversu fátæk Samfylkingin er, að sá flokkur mun fara í næstu kosningar með hana í stól formanns. Það sýnir fátækt Samfylkingar á hæfum stjórnmálamönnum, að ekki skuli hafa komið mótframboð gegn Jóhönnu á þessum landsfundi.

 


mbl.is Mun klára aðildarviðræðurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband