Stefnuræða eða framboðsræða

Það var erfitt að greina á milli hvort Jóhanna væri að flytja stefnuræðu ríkisstjórnar eða framboðsræðu stjórnmálaflokks á Alþingi í kvöld.

Lengi framanaf var um hreina framboðsræðu að ræða, en þegar líða tók á ræðuna mátti greina eitt og eitt tilvik þar sem hægt var að tala um stefnuræðu.

Auðvitað fór mikill tími hjá henni í að hæla stjórnkænsku sinni og úthúða fyrri ríkisstjórnum. Hún túlkaði mótmælin fyrir utan Alþingishúsið og auðvitað var þeim ekki beint gegn henni, heldur þinginu í heild sinni. Hún er enn jafn saklaus sem fyrr, enda ætlar hún að gera svo gott, seinna. Hún lofaði allt að 14.000 störfum, seinna. Hún ætlar að skoða hvort ekki verði hægt að afnema gengistryggingu lána, seinna. Hún ætlar að gera víðtæka úttekt á fjármálamörkuðunum, seinna.

Það sem Jóhanna vill gera strax er að klára aðildarumsóknina sem fyrst, rústa fiskveiðikerfinu og koma hér á ríkisstyktu fiskveiðikerfi að hætti ESB og auka völd framkvæmdavaldsins á kostnað löggjafavaldsins. Sem betur fer tókst Alþingi þó að koma í veg fyrir það síðastnefnda.

Þá segist Jóhanna hafa komið fjölda heimila til aðstoðar með sértækum aðgerðum. Þær aðgerðir komu hins vegar einungis þeim til hjálpar sem illa fóru með fé fyrir hrun og höfðu veðsett sig langt umfram getu. Sú hjálp entist þó stutt og það fólk er komið í sömu vandræði og áður. Þeir sem varlega fóru hafa þó misst allt sitt og fá enga hjálp. Þessar sértæku aðgerðir voru samdar af lánastofnunum fyrir lánastofnanir og komu lánþegum ekkert við. Nauðungaruppboð eru sem aldrei fyrr og fleiri og fleiri fjölskyldur eru að lenda á götunni.

Auðvitað réðst Jóhanna á forsetann okkar, eins og  ræðumenn VG gerðu einnig. Þar segir Jóhanna að forsetinn eigi að virða í orði og verki þá stefnu og framkvæmd sem réttkjörin stjórnvöld móti á hverjum tíma. Þó Jóhanna sé búin að vera á þingi í meir en þrjátíu ár þá áttar hún sig ekki enn á því að ríkisstjórn er ekki kosin af þjóðinni, einungis stjórnmálaflokkar eru kosnir á þing og kjör sitt fá þeir vegna loforða sinna um hvað þeir standa fyrir og í einstaka tilfellum spilar þar inn í persónur þær sem í framboði eru. Forsetinn er hins vegar réttkjörinn.

Þá gleymir Jóhanna þeirri staðreynd að tvisvar hefur forsetinn sent mál í dóm þjóðarinnar og bæði skiptin fékk ríkisstjórnin rauða spjaldið. Það er kannski hluti þess hversu litla trú fólk hefur á störfum Alþingis. Hugsanlega má kannski einnig rekja þessa óánægju vegna þess að meðan verið er að fella dóm yfir einum af ráðherrum svokallaðar hrunstjórnar, eru tveir ráðherrar þeirra sömu ríkisstjórnar nú ráðherrar!

Jóhanna og ríkisstjórn hennar ætti frekar að taka orð forsetans alvarlega og líta í eigin barm. Þegar erlendir fjölmiðlar fluttu héðan fréttir og lýstu landinu og íbúum þess sem glæpanýlendu kom hvorki hósti né stuna úr stjórnarráðinu. Þá tók forsetinn sig til og talaði máli þjóðarinnar og lagði sitt af mörkum til að breyta þessari mynd af landi og þjóð.

Tími Jóhönnu er liðinn. Hennar tími kom vorið 2009 og hún hefur nú sannað fyllilega að hún átti aldrei erindi í þá stöðu sem hún er í.

 


mbl.is Forsetinn virði stefnu stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband