ESB komið á nýtt stig
18.8.2011 | 06:34
Jón Bjarnason neitar að svara spurningum ESB um Greiðslustofnun landbúnaðarins fyrr en hann hefur fengið rýniskýrslu um málaflokkinn í hendur.
Það er ljóst að sú leynd sem yfir þessum viðræðum er, er að koma sjálfum viðræðunum í strand. Fyrir nærri þrem mánuðum lauk rýnivinnunni og því ætti þessi skýrsla að vera löngu tilbúin, en vegna leyndar getur ráðherra ekki fengið að sjá hana!
Greiðslustofnun landbúnaðarins er ný stofnun, að kröfu ESB. Ráðherra hefur áður sagt að slík stofnun verði ekki sett á stofn fyrr en fólkið í landinu hefur fengið að kjósa um aðild, að annað sé aðlögun sem marg oft hefur verið haldið fram af aðildarsinnum að ekki sé í gangi, þó allir forsvarsmenn ESB segji annað.
Síðasti fundur utanríkismálanefndar um framgang viðræðna var lokaður. Því eru landsmenn engu nær um hvað fer fram á milli samninganefndar Íslands og fulltrúa ESB, engu nær um hver samningsmarkmiðin eru í landbúnaðar og sjávarútvegsmálum þó forsætisráðherra hafi tjáð einum af 27 leiðtogum ESB frá þeim markmiðum, engu nær um hvað utanríkisráðherra átti við þegar hann sagði í erlendum fjölmiðli að Ísland þyrfti enga sérstaka undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB og yfirleitt engu nær um eitt eða neitt varðandi þessar viðræður.
Oddvitar stjórnarandstöðuflokkanna létu hátt fyrr í sumar og kröfðust fundar í utanríkismálanefnd til að ræða þessi mál. Þegar sá fundur er svo loks haldinn er hann lokaður. Þessu gátu fulltrúar stjórnarandstöðu vissulega mótmælt með því að ganga af fundi en ákváðu að gera það ekki. Meðan þeir taka þátt í leyndarhyggjunni eru þeir engu betri en þeir sem að viðræðunum standa.
Vissulega eru ýmis mál viðkvæm og þarf að hafa leynd um þau, en að halda leynd um allann fundinn er út í hött. Hvaða tilgangi þjónar að hald leynd um svar við því hvað utanríkisráðherra átti við í fyrrnefndu fréttaviðtali, hvaða tilgangi þjónar að halda leynd um hvaða samningsmarkmið Jóhanna kynnti Angelu fyrr í sumar? Hvaða tilgangi þjónar að halda leynd yfir því hvernig samningar ganga, hvað búið er, hvað eftir er og hvar skilur mest á milli?
Reyndar eru þessar viðræður samninganefndar Íslands við ESB orðnar marklausar. Ekki einungis vegna þess að samninganefndin hefur ekki farið eftir því sem henni ber, samþykkt Alþingis, heldur og ekki síður vegna þess að eði ESB hefur breyst mjög síðustu tvö ár. Nú síðast með tillögu leiðtoga tveggja af 27 ríkjum ESB um að stofnað skuli til sameiginilegs fjármálaráðuneytis fyrir evrudeild ESB. Þá hefur einnig sú breyting orðið á eðli ESB, nú síðustu mánuði að búið er að aftengja og gera óvirkt ráðherraráðið, framkvæmdaráðið og evrópuþingið. Þess í stað eru öll vðld komin á hendur leiðtogum Þýskalnds og Frakklands og hin 25 ríki ESB eru höfð útundan við ákvarðanatöku. Með þessu hefur ESB komist á alveg nýtt stig einræðis.
Þá er ótalinn sá vandi sem gjaldmiðill ESB á við að stríða og þau máttlausu skref sem stiginn eru í því sambandi. Ljóst er að evrunni verður vart bjargað úr þessu, einungis eftir að sjá kversu mikinn skaða hrun hennar hefur fyrir heimsbyggðina. Hver mánuður sem líður eykur vandann og stækkar skaðann.
Það er deginum ljósara að Alþingi hefði aldrei samþykkt aðildarviðræður ef ljóst hefði verið á þeim tíma hvert stefndi, sama hversu miklar hótanir þingmenn fengju. Margan grunaði þó hvert stefndi en það er óhætt að fullyrða að engum datt í hug að sú þróun yrði jafn hröð og afgerandi og orðið hefur.
ESB er komið á alveg nýtt stig einræðis og gjaldmiðill þess berst í bökkum. Afleiðingar getuleysis eða hugleysis þeirra sem hafa hrifsað til sín völdin munu eiga eftir að leiða hörmungar yfir heimsbyggðina!
Því verður samninganefndin og utanríkisráðherra að endurnýja umboð sitt, það gamla er fallið úr gildi!
![]() |
Spenna milli ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.