Erfitt ár að baki, en hvar er ljósið framundan?

Við áramót.

Nú er árið 2010 liðið og nýtt tekið við. Við áramót er gjarnt að líta til baka og horfa yfir liðið ár, hvað ber að þakka að liðið sé og hverju ber að fagna, sem vel fór. Við þessi áramót er mun fleira hægt að þakka það sem liðið er en það sem hægt er að fagna að vel fór. 

Árið 2010.

Á árinu fengum við þrennar kosningar, tvö eldgos, tvenna icesavesamninga, við fengum hrunskýrsluna margfrægu, hæstaréttardóm um lögbrot banka og lánastofnana,  fjöldan allan af handónýtum „aðgerðum fyrir fjölskyldufólkið“, tunnumótmæli, landsdómur var vakinn, skattahækkanir og enn frekari stöðvun atvinnuvegana. Margt fleira fengum við sem hægt væri að nefna, svo sem fjöldan allan af lygum frá stjórnarliðinu.

Í heildina var árið 2010 tíðindamikið og erfitt ár, sennilega það erfiðasta frá bankahruni. Það hófst með látum og endaði með ekki minni látum, þó er það merkilegt að nánast sömu vandamál eru við þessi áramót og þau síðustu, icesave samningur bíður samþykktar og stjórnin í raun fallin, hangir saman á óttanum einum.

Þrennar kosningar voru á árinu og allar eiga það sammerkt að vera hneisa fyrir stjórnarflokkana.

Fyrst var kosið um icesave lögin, þau kolfelld þrátt fyrir svarta spá stjórnarliða og „álitsgjafa“ fjölmiðla. Það sem mestum vonbrigðum olli var að stjórnarliðar voru margir búnir að fullyrða að þessi kosning væri um líf stjórnarinnar, en hún hékk áfram á lyginni og hangir enn.

Sveitastjórnarkosningar voru vægast sagt undarlegar, þó einkum í Reykjavík. Þar fékk sprelligosi flest atkvæði þrátt fyrir að hafa sagst ætla að svíkja öll sín kosningaloforð. Hann hefur sannarlega staðið við það að öllu leiti nema einu, hann sveik ekki það loforð að ætla að svíka. Manni hefur oft dottið í hug að Reykvíkingum hljóti að hafa verið byrlað eitthvað sljófgandi lyf fyrir þessa kosningu, svo undarleg var hún. Sveitastjórnarkosningarnar voru þó einhver sú almesta rasskelling sem nokkur flokkur hefur fengið, fyrir VG, en eftir glæstan sigur ári fyrr, töpuðu þeir í nánast öllum sveitum, mest þó í Reykjavík, sínu höfuðvígi.

Þriðju kosningarnar voru svo til stjórnlagaþings. Enn var stjórnin niðurlægð, þar sem kjörsókn hefur aldrei verið jafn dræm og við þær. Undarlegar reglur um talningu atkvæða hafa valdið deilum, reglur sem gerðu talningu svo flókna að jafnvel þeir sem stjórnuðu talningunni skildu ekki reglurnar til fulls. Ekki er enn útséð með lögmæti þessarar kosningar þar sem þrjú kærumál bíða dómstóla.

Tvennir icesave samningar voru lagðir fram á árinu 2010, fyrst fyrir þjóðina sem kolfelldi þann samning, þá var haldið áfram og nú fyrir jól var samningurinn aftur lagður fyrir, nú fyrir þingið. Sá samningur er sagður mun betri en sá fyrri. Víst er að svo sé, en er hann nógu góður? Ráðum við við að borga hann? Allavega eru mörg verulega varasöm ákvæði í þessum samningi og lítið sem útaf má bera til að hann verði okkur ofviða. Það sem mestu skiptir þó í þessari deilu er að ekki hefur enn verið skorið úr um lögmæti þess hvort við þurfum að borga. Meðan svo er mun verða mikil andstaða við þennan samning og vonandi að forsetinn vísi honum til þjóðarinnar, eins og þeim fyrri.

Tvenn eldgos voru á árinu, fyrst lítið túristagos á Fimmvörðuhálsi og ferðaþjónustan kættist, síðan alvörugos í Eyjafjallajökli og ferðaþjónustan grét. Afleiðingar gossins í Eyjafjallajökli voru nokkrar í sveitunum næst gosinu. Nótt varð um miðjan dag og gífurlegt öskufall á tiltölulega litlu svæði. Hlaup kom í ár og olli það skemdum á vegum og túnum. Betur rættist þó úr þessu en menn þorðu að vona, byggð hélst og hægt að slá tún um sumarið. Mestum usla olli þetta gos þó utan landsteinanna, þar sem flugsamgöngur fóru úr skorðum um mest alla Evrópu. Mikið fár var í erlendum fjölmiðlum og svo síðar innlendum eftir að forsetinn okkar hafði látið þau orð falla að Kötlugos yrði enn tignarlegra, þegar hún vaknar af löngum dvala. Ráðamenn þjóðarinnar og innlendir fjölmiðlar vildu jafnvel meina að þetta væri nánast landráð af forsetanum. Samt var hann einungis að greina frá staðreyndum.

Þann 12 apríl kom svo „Hrunskýrslan“ fram, eftir nokkra mánaða töf. Nefndarmenn vöruðu við skýrslunni og lögðu jafnvel til að þjóðfélagið yrði stöðvað í nokkra daga, meðan fólk væri að jafna sig. Til allrar lukku fyrir stjórnvöld hófst gosið í Eyjafjallajökli tveim dögum seinna og skýrslan féll í skuggan.  Þessi skýrsla, sem er um margt góð, var fyrst og fremst hugsuð til að bæta það sem aflaga fór í undanfara hrunsins. Því miður hefur núverandi stjórn illilega miskilið þetta, en einu not stjórnarinnar af skýrslunni var að vekja upp landsdóm og draga fyrrverandi ráðherra fyrir hann. Nú hefur komið í ljós að sú nefnd sem skipuð var til þess verks hefur ekki haft þau gögn undir höndum sem til þurfti og því er saksóknari landsdóms nú að leita gagna til að geta ákært í málinu. Stjórnarfar núverandi stjórnar er hins vegar með þeim hætti að allt það sem verst var talið í skýrslunni bliknar í samanburði. Ekkert hefur verið gert til að bæta og laga það sem talið var að þyrfti í skýrslunni, þvert á móti.

Daginn fyrir þjóðhátíðardaginn felldi hæstiréttur dóm gegn bönkum og lánastofnunum. Þessar stofnanir voru sekar fundnar um lögbrot til margra ára. Það undarlegasta við eftirmál þessa dóms er að enginn hefur þurft að sæta ábyrgð. Enn eru þeir menn sem fengu á sig dóm um lögbrot við stjórn þessara stofnana. Það er einnig undrlegt að stjórnvöld, sem stóðu sem klettur við hlið þessara lögbrjóta, bæði fyrir og eftir dóminn, skuli enn vera við völd. Hvar í heiminum gæti slíkt gerst nema á Íslandi?!!

Lánamál og erfiðleikar heimila landsins hafa verið í sviðsljósinu allt árið og ekkert lát á. Framan af ári voru stjórnvöld að reyna eins og rjúpan við staurinn, en árangurinn var enginn og jafnvel verri en enginn í sumum tilvikum. Þegar þing kom saman í haust var mælirinn fullur, fólk fylktist á Austurvöll og barði tunnur. Forsætisráðherra varð verulega um og auðséð að henni var mjög brugðið, hún hafði einfaldlega ekki gert sér grein fyrir vandanum og gerir ekki enn. Strax var hafist handa við að skipa samstarfshóp til að finna lausnir. Fljótlega kom í ljós að viljinn var ekki eins mikill og til stóð. Fulltrúum lánþega og fjölskyldufólks var í raun ýtt út úr þessum hóp, þeir sem fjármagninu ráða náðu yfirhöndinn og kúguðu stjórnvöld til hlíðni. Eftir margra vikna þvarg komu svo lausnirnar. Í stuttu máli var þessi svokallaði aðgerðapakki saminn af bönkum og lánastofnunum fyrir þær sömu stofnanir. Í raun var niðurstaðan að þessar stofnanir lögðu ekkert fram, samþykktu einungis þegar tapaðar kröfur og niðurstaðan að flestir sitja enn í sömu sporum með stökkbreytt lán sem engin leið er að borga til lengri tíma. Það sem fólk átti í eignum sínum hefur verið tekið af því og fært fjármagnsstofnunum á silfurfati. Samhliða þessu voru samþykkt á þingi lög sem í raun lögleiða brot þessara stofnana. Öll framkoma stjórnvalda í þessu máli er þeim til ævarandi skammar. Þegar þau áttu kost á að gera hluti sem hefðu minnkað vanda fólks verulega og hjálpað þjóðinni út úr kreppunni, fóru þau að ráðum banka og lánastofnana, sem virðast ekki skilja vandann og hugsa einungis einn mánuð fram í tímann. Enda varla þörf að hugsa neitt lengra með svo leiðitama ríkisstjórn!!

Um síðustu áramót voru skattbyrgðar fólks þyngdar til muna, á árinu hafa miklar hækkanir ýmissa gjalda til ríkis og sveitafélaga og fyrirtækja á þeim vegum. Verslun og þjónusta hefur ekki hikað við að hækka sín verð. Mitt í þessu hafa laun fólksins ekki hækkað neitt. Þessar hækkanir ásamt því að búið er að taka stæðstan hluta eigna fólks og færa bönkum, hefur orðið til þess að sífellt erfiðara er að láta enda ná saman, fleiri og fleiri fjölskyldur eiga um sárt að binda, jafnvel þó fyrirvinna sé fyrir hendi! Þó eru nú um þessi áramót lagðir enn frekari skattar og gjöld á þetta fólk, sem þegar er búið að rýja inn að skinni. Þetta mun einungis leiða til eins, enn harðari mótmæla. Þegar fólk áttar sig á því að skattbyrgðin er orðin slík að ekki verður lifað lengur, er ekki neinu að tapa. Fólk mun berjast. Hvort sá bardagi verður blóðugur eða ekki er alfarið undir stjórnvöldum komið. Ef ekki verður kúvending á stjórnarheimilinu eða það sem betra væri að stjórnin segði af sér, má búast við því versta!! Það eru takmörk hvað hægt ar að kúga fólk!! 

Fyrirtækjum landsins hefur verið haldið í helgreipum banka og lánastofnana, þar að auki hefur markvisst verið aukin skattbyrgði þeirra. Þetta hefur leitt til þess að fleiri og fleiri fyrtæki hafa lagt upp laupana með tilheyrandi aukningu á atvinnuleysi. Stjórnvöld hafa lítið sem ekkert gert til að rétta hlut þeirra. Það sem verra er að stjórnvöld hafa staðið gegn allri nýuppbyggingu fyrirtækja. Meðan einn ráðherra situr að samningaborði við erlenda aðila um uppbyggingu, leggur annar ráðherra steina í götuna, eða öllu heldur heilu björgin. Þetta hefur leitt til þess að þeir aðilar sem vildu gjarna koma með sitt fjármagn og byggja upp, hafa snúið við okkur baki. Ekki vegna þess að hér sé ekki hæft fólk til að sinna þeim störfum sem þeir bjóða, ekki vegna staðsetningar, heldur eingöngu vegna þess að þeir treysta ekki stjórnvöldum!

Árið 2010 hefur einkennst af því hvað stjórnarliðar hafa leift sér að ljúga, bæði óbeint og einnig beint. Þetta er ljótur leikur, enda virðist stjórnin vera að hrynja innan frá. Árið endar í algerri óvissu um framtíð ríkisstjórnarinnar. Deilur og svívirðingar milli stjórnarliða eru meiri en svo að eðlilegt getur talist. Þó er alls ekki víst að við verðum svo heppin að stjórnin falli. Þó hún sé algerlega getulaus og komi ekki neinu máli gegn um þing nema með hótunum, er allt eins víst að óttinn við að hægri stjórn gæti gert betur, sterkari og hugsanlega nægur til að halda stjórninni saman um sinn. Stjórnvöld munu þó ekki ráða við fólkið í landinu þegar það rís upp gegn henni, þá mun hún nauðbeygð vera dregin upp úr stólunum!! 

Það sem ber að fagna á liðnu ári.

Þó svartsýni mín sé mikil hér fyrir ofan eru nokkur atriði sem ber að fagna á árinu 2010.

Við konan mín, synir okkar, tengdadætur og afastelpur erum öll heil heilsu og líður vel.  

Veðurfarið hefur verið okkur einstaklega hagstætt allt árið.

Mun betur fór en á horfðist í þeim náttúruhamförum sem dundu yfir okkur á árinu.

Rás 2 stóð að kosningu á manni ársins, eins og venja er. Í þetta sinn kaus þjóðin Þórð Guðnason hjálparsveitamann á Akranesi sem mann ársins, með miklum meirihluta. Þórður er góður drengur og stendur fyllilega undir þessum titli. Björgunarafrek hans á Langjökli var þrekvirki sem einungis hetjur geta drýgt. Innilega til hamingju Þórður!

Það er merkilegt og sýnir vel hversu fréttamenn eru utangátta, að á sama tíma kusu fréttamenn stöðvar 2 mann ársins. Þegar þjóðin leitar meðal fólkins í landinu og finnur hetju meðal hetja í hjálparsveitum landsins og kýs hann sem mann ársins, kjósa fréttamenn pólitíkus sem mann ársins. Þetta væri svo sem ekki alslæmt ef sá pólitíkus hefði látið eitthvað sérstaklega gott af sér leiða, eitthvað sem kæmi fólki vel. Því er þó ekki að heilsa í þessu tilviki. Þeir kjósa pólitíkus sem hefur staðið sig einstaklega illa í starfi og hefur tekið upp þá stjórnarhætti sem aflagðir voru fyrir mörgum árum. Enda er fylgi þessa manns á hraðri niðurleið! Þetta sýnir að fréttamenn eru ekki í neinu sambandi við þjóðina í landinu! 

Niðurstaða og framtíð.

Nú keppast formenn allra flokka við að tala um samstöðu og samvinnu. Þetta er göfugt markmið, en erfitt er þó að trúa. Þegar formaður eins stjórnmálaflokks lítur svo á að samstaðan verði ekki fengin nema allir hlýði henni, er ekki von til að ástandið batni. Stjórnarliðar hrópa „skotgrafahernaður“ þegar stjórnarandstaðan vogar sér að mótmæla einhverju frá stjórninni. Staðreyndin er að meðan stjórnarandstöðuþingmenn fá engu komið fram og stjórnvöld eru með einræðistilburði, ber stjórnarandstöðunni að mótmæla. Skotgrafahernaður þingmanna á árinu 2010 hefur fyrst og fremst verið milli stjórnarliða. Mikð vildi ég að þingmenn allra flokka tækju höndum saman og legðust á það allir sem einn að koma okkur út úr kreppunni. Þetta er þó einungis tálsýn. Því miður!

Vandi fjölskyldna í landinu er mikill. Ekki hefur enn komið fram viðurkenning á að forsendubrestur hafi orðið við hrun bankanna, jafnvel þó sá brestur hafi verið viðurkenndur við stofnun nýju bankanna og fjármögnun lífeyrissjóðanna. Fyrr en þetta verður viðurkennt og bætt eins og hægt er, verður engin sátt í þjóðfélaginu.

Þá er með ólíkindum að enn skuli vera í stjórnunarstöðum bankanna það fólk sem þar var þegar þessar stofnanir voru dæmdar sekar að lögbroti. Þetta fólk á að sjálfsögðu að bera ábyrgð og yfirgefa bankana. Það sem er þó öllu verra er að þetta sama fólk var flest í ábyrgðarstöðum í gömlu bönkunum og sem slíkt hluti af þeim hóp sem rændi þá innanfrá. Þetta er nokkuð sem fólkið í landinu skilur ekki og samþykkir ekki! Þá eru ótalin öll þau lögbrot banka og lánastofnana í formi innheimtu og vörslusviptingum. Það mál er svo ógeðslegt að vart er hægt að tjá sig um það!!

Ekki má gleyma fjölmiðlum. Þeir eru flestir hallir undir stjórnvöld, svo vægt sé til orða tekið. Einn fjölmiðill á blaðamarkaði er undanskilinn, en hann hefur þó mátt standa sig betur. Vandamálið er þegar sá miðill flytur óheppilegar fréttir, taka hinir sig til og hrópa í kór „hádegismóar“, eins og það sé eitthvað skammaryrði. Tveir ljósvakamiðlar eru einnig undanþegnir undirlægjuhætti undir stjórnvöld. Það er Útvarp Saga og ÍNN. Útvarp Saga stendur sig með ágætum en það verður að segjast eins og er að útvarpstjóri ÍNN hefur spillt nokkuð fyrir þeirri ágætu sjónvarpsstöð. Þó eru margir góðir og fróðlegir þættir þar. Aðrir fjölmiðlar eru allir hallir undir stjórnvöld, þó er fréttastofa RUV sennilega verst, sérstaklega vegna þess að það er skylda þeirrar stofnunar að vera hlutlaus!!

Nú standa yfir kjaraviðræður. Því miður er ekki mikils að vænta úr þeim. Fyrir það fyrsta er æðsti strumpur launafólks bæði flokksbundinn öðrum stjórnarflokknum auk þess sem hann er í stjórn fyrirtækja sem fulltrúi lífeyrissjóðs. Þessi maður situr því allan hringinn kring um borðið og vart hægt að ætlast til að árangurinn verði mikill. Þá eru margir formenn stéttafélaga tengdir stjórnarflokkunum. Að launafólk þurfi að láta það yfir sig ganga að pólitík skuli ráða för í þeirra stéttarfélugum er ótrúlegt. Líkur á verkföllum eru því mjög miklar. Það er launafólkið sem á síðasta orðið, ekki formennirnir og enn síður forseti ASÍ, sem situr allan hringinn við borðið!! 

Stjórnvöld eru dugleg að hæla sjálfum sér. Það á vel við máltækið „hátt hreykir heimskur sér“.  Staðreyndin er sú að þau örfáu batamerki sem hægt er að benda á er til komin þrátt fyrir ríkisstjórnina, ekki vegna hennar. Nú hampar fjármálaráðherra því að loks sé verðbólgumarkmiðum seðlabankans náð, en hvað gerir hann? Hækkar skatta og álögur sem aldrei fyrr og dengir verðbólgunni upp aftur eins og ekkert sé sjálfsagðara!!

Að lokum nokkur orð um ESB. Sú vegferð sem núverandi stjórn hefur komið af stað í því máli hefur tvístrað þjóðinni og stjórnmálaflokkum. Jafnvel stjórninni sjálfri. Þetta er það mál sem hvað mestu máli skiptir fyrir land og þjóð. Því er ekki með neinu móti hægt að sætta þjóðina meðan það er í gangi. Fyrir það fyrsta er umsóknin sjálf brot á stjórnarskrá og því lögleysa. Í öðru lagi átti aldrei að fara af stað í þessa ferð nema láta kjósa um það meðal þjóðarinnar fyrst. Þingmenn flestra flokka gáfu skít í sína kjósendur þegar atkvæðagreiðslan fór fram um þetta á þingi. Allir þeir þingmenn VG sem gáfu þessu sitt atkvæði sviku sína kjósendur, þar sem sá flokkur lofaði að alls ekki yrði farið í þetta ferðalag.  Allir þeir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sviku einnig sína kjósendur, vegna þess að báðir þessir flokkar lofuðu sínum kjósendum að ekki yrði lagt af stað fyrr en að lokinni þjóðarkosningu um slíkt!! Hafi þessir þingmenn skömm fyrir að svíkja sína kjósendur!! Allt tal um að skoða í pokann er rugl. Þetta vita allir sem vilja vita. Það er ekki hægt að stökkva hálfa leið og snúa þá við í miðju stökki. Um leið og aðildarumsókn er lögð inn, verður hugur að fylgja máli. Að öðrum kosti fara menn ekki af stað. Vissulega fylgir hugur máli hjá Samfylkingarfólki, hugsanlega einnig þeim þingmönnum annara flokka sem kusu að fara af stað. En það er enginn hugur hjá landsmönnum, einungis 19% þjóðarinnar hugnast þessi vegferð, það er minna en fylgi Samfylkingar einnar. Þetta mál VERÐUR að taka út af borðinu strax, að öðrum kosti gæti illa farið. Það er nefnilega ekki víst að það dugi þó stór meirihluti þjóðarinnar verði á móti aðild, þegar og ef til atkvæðagreiðslu kemur. Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að til stendur að breyta stjórnarskrá. Ef stjórnvöld ná því fram sem þau vilja í þeirri breytingu er nokkuð víst að fólkið í landinu mun ekki fá neinu um það ráðið hvort við gerumst aðilar að ESB!!

Lengi væri hægt að halda áfram, en hér læt ég staðar numið í bili. Það er ljóst að síðasta ár var erfitt fyrir margar sakir og vart mikil eftirsjá af því. Því miður eru horfurnar fyrir árið 2011 lítt skárri. Þó maður reyni að vera bjartsýnn og horfa með jákvæðum augum til framtíðar, er erfitt að sjá ljósið. Til þess þarf margt að breytast og ekki er að sjá nein merki þess að svo sé. Ekki er að sjá að stjórnvöld séu á því að viðurkenna þann forsendubrest sem fjölskyldur landsins urðu fyrir við fall bankana. Ég kvíði því að vinnudeilur eigi eftir að verða miklar og að mótmæli munu þróast á nýtt og skelfilegra svið. Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér. 

Með von um gleðilegt og gæfuríkt ár til allra sem þetta lesa.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband