Það er ekki hægt að vera bæði með og á móti ESB aðild, það er bara einfaldlega ekki hægt !!

Það er ljóst að einungis lítill hluti þjóðarinnar hefur áhuga á ESB aðild.

Sú staðreynd að fólk sem aðhyllist þessa stefnu skuli hafa náð völdum í Framsókn og Sjálfstæðisflokki er því nær óskiljanleg, en þó ber að geta þess að innan þessa hóps er fólk sem með hótunum hefur náð sínu markmiði. Þetta kom skýrt fram á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokks, en heldur meiri leynd er höfð um þessar deilur innan Framsóknar, þó ekki séu þær minni þar. Þessar hótanir valda því að formenn þessara flokka þora ekki að minnast einu orði á ESB á opinberum vettvangi!!

ESB aðild er ekki eins og hver annar utanríkissamningur um viðskipti eða samstarf. Þetta er umsókn um inngöngu í risastórt samband sem stýrt er af mikilli miðstýringu og stefnir að enn meiri miðstýringu. Þetta er umsókn um inngöngu og viðurkeningu á þeim lögum og starfsaðferðum sem þar eru fyrir. Hugsanlega er hægt að fá einhverjar undanþágur um upptöku einstakra samþykkta ESB, en einungis til skamms tíma! Þetta vita allir hugsandi menn en sumir vilja bara ekki viðurkenna það!!

ESB aðild er stór mál fyrir land og þjóð. Ekki einungis á viðskiptasviði, þar sem við verðum að hlýta í einu og öllu ESB, heldur og ekki síst vegna þess að með aðild er verið að færa nánast allt vald til Brussel. Þó við að nafni til höldum sjálfstæði okkar er ljóst að í reynd mun svo ekki vera. Það sem skiptir þó meira máli er að innan skamms tíma mun ESB verða skilgreint sem ríki. Nú þegar er komin einskonar ríkisstjórn, það er komin sameiginleg utanríkisstefna sem stjórnað er af þeirri stjórn. Sameiginlegur gjaldmiðill og stefnt opinberlega að því að koma á sameiginlegri efnahagsstefnu. Þá hefur framkvæmdastjórnin óskað eftir því við Sameinuðu þjóðirnar að ESB verði skilgreint sem þjóðríki á þeim vettvangi, með þeim skyldum og kostum sem því tilheyrir. Þegar ESB hefur öðlast viðurkenningu sem þjóðríki er ljóst að aðildarríkin inna þess geta ekki lengur talist þjóðríki!!

Innan þings ESB hefðu Íslendingar aðeins örfáa þingmenn. Sumir halda því fram að við gætum náð, með samstarfi við fulltrúa annara þjóða, einhverjum áhrifum á þessu þingi. Hugsanlega væri hægt að stunda einhver hrossakaup á þeim vettvangi, en þá ber að gæta þess að Evrópuþingið er gagnslaust apparat. Það hefur í raun einungis þann tilgang að samþykkja þau lög sem framkvæmdastjórnin leggur fram. Nær alltaf dugir einfaldur meirihluti til samþykktar þeirra laga og því yrðu slík hrossakaup okkur ansi dýr ef við ætluðum að hafa áhrif. Til að þingmenn geti lagt fram lagafrumvarp þurfa þeir hins vegar tvo þriðju þingmanna með sér svo hægt sé að leggja það fyrir þingið!! Svona er nú lýðræðið innan ESB.

Því er með öllu ófært að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur séu ekki með skýra stefnu í þessu máli. Lélegt fylgi þeirra nú má að mestu rekja til þessa.

Það er krafa kjósenda að þessir flokkar komi fram með skýra stefnu, að þeir gefi út skýrt og skorinort hvort þeir séu með eða á móti aðild. Undansláttur eins og að segjast vilja "sjá í pokann" er er ekki ásættanlegur. Þeir sem það segja eru að segja að þeir vilji aðild, með kostum þess og göllum. Það er nefnilega ekki í neinn poka að skoða!!

Ef þessir flokkar ætla að láta taka sig alvarlega verð þeir því að taka af skarið. Nokkuð er ljóst að það gæti orðið til þess að þeir muni klofna, en þá verður svo að vera. Það er betra að vera með fleiri flokka sem hafa ákveðna stefnu í þessu stórmáli, en færri með óljósa stefnu. Fólk veit þá hvað það á að kjósa og getur því mætt á kjörstað og nýtt sér sitt atkvæði, í stað þess að sitja heima og láta atkvæði sitt ónýtast!!

Nú styttist óðum í kosningar (vonandi), því verða þessir flokkar að fara að hugsa sinn gang ganvart kjósendum og gefa þeim skýr skilaboð!!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góður pistill og algjörlega sammála þér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.12.2010 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband