Flýtimeðferð bjargar ekki lánastofnunum!
4.7.2010 | 08:41
Lögfræðingurinn Ragna Árnadóttir, sem nú vermir stól dómsmálaráðuneytis í boði Samfylkingar, ætti frekar að gefa tilmæli til lánastofnana að fara eftir lögum og hlýta dómi hæstaréttar.
Það hlýtur að vera erfitt fyrir hana að þurfa að lúta ægivaldi pólitíkusana og horfa upp á stofnanir ríkisins brjóta stjórnarskrána með bakstuðningi frá fjármálaráðherra og forsætisráðherra.
Ef Ragna væri með bein í nefinu ætti hún að stöðva þessa lögleysu strax. Hún er yfirmaður dómsmála í landinu og ber sem slíkur að sjá til þess að lögum og dómum sé fylgt eftir.
Það hefur enginn enn getað vitnað í lagagrein sem réttlætir tilmæli SÍ og FME til lánastofnana, hinsvegar hefur verið bent á fjölda lagagreina sem styrkja málstað lánþega. Svo virðist sem þessar stofnanir hafi tekið hagfræðirök fram yfir lagarök. Fullyrðing þeirra um að verið sé að standa vörð um stöðugleika stenst ekki.
Ef lánastofnanir fara að tilmælum SÍ og FME er hætt við að lántakendur neiti að greiða af lánum sínum og segi þessum stofnunum að sækja sig til saka fyrir dómi. Við það munu lánastofnanirnar missa megnið af tekjum sínum, að minnsta kosti í nokkra mánuði. Það gæti hæglega riðið þeim að fullu. Hvar er stöðugleikinn þá sem SÍ og FME voru að verja?
Flýtimeðferð fyrir dómstólum er góðra gjalda verð, en dómarar þurfa þó tíma til að hlusta á rökfærslur beggja aðila og síðan þurfa þeir að meta þær og að lokum veita dómsorð. Eftir það þarf málið að fara fyrir hæstarétt. Jafnvel með flýtimeðferð tekur þetta ferli of langan tíma fyrir lánastofnanir, ef þær eru nánast tekjulausar á meðan.
Eina von lánastofnana til að lifa þennan skell af er að hlýta dómi hæstaréttar meðan leyst er úr þeim málum sem þær telja ósvarað, fyrir dómskerfinu. Hvað sem líður tilmælum SÍ og FME, hvað sem líður áhyggjum viðskiptaráðherra, hvað sem líður áhyggjum fjármálaráðherra!!
Telur flýtimeðferð vel koma til greina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Núna berast fréttir af því að kröfuhafar bankana hyggist fara í skaðabótamál við ríkið, vegna dóms Hæstaréttar.
Það bendir til þess að einkavæðingu bankana í fyrra, hafi annað hvort ekki verið gert ráð fyrir að myntkörfulánin væru ólögleg, eða þá að ríkið hafi fullvissað þessa kröfuhafa um að þeir þyrftu engan skaða að bera, yrðu myntkörfulánin, dæmt ólögleg.
Sé ástæðan fyrra atriðið, þá hafa stjórnvöld beinlínis, logið að kröfuhöfum. Það hefur komið fram, samkvæmt viðtali við Valgerði Sverrisdóttur, fyrrv. viðskiptaráðherra, að strax árið 2001, hafi verið uppi miklar efasemdir í Viðskiptaráðuneytinu, þess efnis að þessi lán væru lögleg. Slíkar efasemdir hverfa ekki úr ráðuneytinu, þó nýir ráðherrar, taki þar við völdum.
En sé ástæðan, seinna atriðið, þá hafa stjórnvöld, lofað ríkisábyrgð á þessi myntkörfulán, yrðu þau dæmd ólögleg í Hæstarétti. Samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins, má ekki undir neinum ástæðum, veita ríkisábyrgð fyrr en Alþingi, hefur fjallað um málið efnislega og samþykkt ábyrgðina.
Stjórnvöldum stóð það til boða, síðasta dag þingsins um daginn, að afgreiða í gegnum þingið, frumvarp um flýtimeðferð Hæstaréttar vegna myntkörfulánana, en því var hafnað. Enda stjórnvöld þá á bólakafi í viðræðum við fjármálafyrirtækin, um það á hvaða hátt þau gætu mætt þeirra ýtrustu kröfum. Með öðrum orðum, voru stjórnvöld að funda með fjármálafyrirtækunum, hvernig þau kæmust hjá því að fá á sig milljarða skaðabótakröfur frá kröfuhöfum bankanna.
Kristinn Karl Brynjarsson, 4.7.2010 kl. 12:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.