Að bera saman melónur og epli

Hvernig í ósköpunum ætlar umhverfis og samgöngunefnd Alþingis að draga lærdóm af Burnhead - Moss vindorkuverinu? Hvernig ætlar nefndin að nýta þann lærdóm til ákvörðunar um vindorkuver hér á landi.

Burnhead - Moss vindorkuverið saman stendur af 13 vindtúrbínum með uppsett afl hverrar þeirra um 2MW og hæð hverrar túrbínu um 126 metrar, miðað við spaða í toppstöðu.

Hér á landi eru áætlanir nokkuð stærri en þetta. Flestar hugmyndir hljóða upp á vindtúrbínur með um 6MW uppsett afl og hæð þeirra um og yfir 240 metrar, eða þrisvar sinnum öflugri og nærri helmingi hærri, hver vindtúrbína en þær sem reknar eru í Burnhead - Moss vindorkuverinu. Þá er fjöldi vindtúrbína í hverju vindorkuveri hér á landi, sjaldnast undir tuttugu og allt að 100 vindtúrbínum.

Það má alltaf blekkja fólk en þarna virðist umhverfis og samgöngunefnd helst vera að blekkja sjálfa sig. Ekki er hægt að trúa því að allt það fólk er hana skipa sé svona víðáttu heimskt!

Það er allra leiða leitað til að reyna að réttlæta það sem stjórnmálamenn virðast hafa lofað erlendum auðjöfrum, að gera Íslanda að einskonar villta vestri vindorkunnar. Fulltrúi Samorku flutti þjóðinni þann boðskap að ákvörðun um að fórna landi undir vindorkuver ætti að liggja hjá heimafólki, þ.e. landeigendum og sveitastjórnum. Að slíkt afsal náttúrunnar kæmi hvorki stjórnvöldum né þjóðinni við. Þetta er svo sem skiljanleg hugsun af þeirra hálfu. Það er auðveldara að bera smáaura á fátæka bændur og sveitastjórnir sem berjast alla daga í bökkum við að geta sinnt grunnþjónustunni. En þetta er þó svo brengluð hugsun, jafnvel þó hagsmunir kalli, að með ólíkindum er að þessi fulltrúi Samorku hafi látið hafa þetta eftir sér. Enn undarlegra er að hann stóð sperrtur þegar hann tilkynnti þetta og auðvitað datt blaðamanni ekki í hug að efast eða spyrja spurninga. Heimskulegast var er hann svo sagði að fjöldi vindtúrbína væri stórlega ýktar. Þær upplýsingar eru þó fengnar úr skýrslum sem tilvonandi vindorkuframleiðendur hafa kostað og sent til stjórnvalda. Varla eru þeir að kosta slíka skýrslugerð nema einhver alvara liggi að baki

Ráðherra orkumála er í klemmu, enda ber hann tvo hatta, annan fyrir málefni orkumála og hinn fyrir náttúruvernd. Þetta tvennt fer illa saman þegar talað er um vindorkuver. En hugur ráðherrans er skýr og þar er hann trúr sinni samfæringu. Hann sleppir að ræða náttúruna og sleppir að ræða orkuna. Hann heldur sig við peningana. Af veikum mætti nöldrar hann að fjármunirnir eigi að skila sér í "nærumhverfið". Ísland er nú ekki svo stórt að hægt sé að tala um eitthvað nærumhverfi, þegar náttúru þess er fórnað. En ráðherrann hugsar bara um peningana.

Sumir ráðherrar sem hafa beinan hag af því að vindorkuáformum verði komið á flot sem fyrst og náttúru landsins fórnað á altari Mammons. Umhverfis og samgöngunefnd ferðast á kostnað okkar til erlendra landa til að skoða vindorkuver. Hver það var sem skipulagði þá ferð hefur greinilega valið vel fyrir sinn ráðherra og annan, valið lítið og sætt vindorkuver í Skotlandi, með fáum og litlum vindtúrbínum. Það sést hvert plottið er.

Við umhverfis og samgöngunefnd get ég einungis sagt þetta: Ekki bera saman melónur við epli, berið saman melónu við melónu. Opnið á rökhugsunina. Þá getið þið sest niður og tekið ákvörðun um framhaldið og varið hina einstöku náttúru sem okkur er treyst til að vernda. Þið eruð jú fulltrúar náttúru landsins á Alþingi, ekki satt?


mbl.is Hjálpar okkur í vinnunni um vindorkuna sem er fram undan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband