Nagladekk- eða ekki / öryggisbelti- eða ekki

Nú síðustu daga hefur verið nokkur hálka á vegum. Þá er gott að vera kominn með nagladekkin undir bílinn.

Mikill áróður er gegn notkun nagladekkja hér á landi. Þar fara hæst sumir stjórnmálamenn, sem telja sig höndla sannleikann í hverju máli. Þó er staðreynd sem ekki verður hrakin að engin dekk ráða betur við þær aðstæður er verið hafa snemma morguns og seint að kvöldi, síðustu daga. Vissulega eru til dekk sem ráða ágætlega við þetta, harðkornadekk, loftbóludekk og sumar tegundir vetrardekkja eru orðin mjög góð í hálku, en engin þeirra betri en nagladekkin. Þá er einnig vitað að aldur dekkja skiptir máli, að ný sumardekk geti jafnvel verið betri í hálku en gömul ónegld vetrardekk. Auðvitað er það svo að engin dekk, negld eða ónegld, gefa fullkomna viðspyrnu í hálku. Ætið þarf að aka við þær aðstæður af varúð. En enginn getur haldið því fram að ónegld dekk séu betri en negld dekk, í ísingu og hálku.

Notkun nagladekkja er öryggismál. Þeir sem halda því fram að nagladekk séu óþörf, að slík tækni hafi átt sér stað í framleiðslu dekkja, að naglar séu óþarfir, geta allt eins sagt að framleiðsla bíla hafi tekið slíkum stakkaskiptum að öryggisbelti séu óþörf. Og vissulega hefur orðið mikil breyting í bílaframleiðslu síðust áratugi, þar sem megin áhersla er lögð á öryggi farþega, að ekki sé talað um að allir bílar eru komnir með loftpúða til að verja farþega. Engum, ekki einu sinni allra fávísustu stjórnmálamönnunum, dettur þó til hugar að nefna að öryggisbelti séu óþörf. Enda öryggi í umferðinni aldrei of mikið. Því er nánast ótrúlegt að fólk sem vill láta taka mark á sér, skuli tala gegn einu mesta umferðaröryggi sem hægt er að hugsa sér, þegar að hálku kemur. Einungis keðjur geta talist betri en nagladekk.

Þarna skipta aurar auðvitað mestu máli fyrir stjórnmálamenn. Notkun öryggisbelta eykur ekki neinn kostnað fyrir ríki og sveitarfélög, meðan hægt er að halda því fram að naglar auki slit á götum. Þar er þó kannski stærri sökudólgur saltaustur á göturnar. Á móti kemur kostnaður vegna slysa sem orsakast vegna notkunarleysis á nagladekkjum. Beinn kostnaður af þeim tjónum leggst á tryggingafélögin, ríki og borg og fyrirtækin og lendir að endingu alltaf á almenningi. Óbeini kostnaðurinn, örkumlun eða dauði, lendir hins vegar á nánustu fjölskylduaðilum. Þann kostanað er ekki hægt að reikna til aura.

Niðurstaðan verður alltaf að kostnaður við nagladekkjanotkun er lægri, þegar upp er staðið.

Verum ekki fífl, nýtum alla möguleika í umferðaröryggi.

Ökum á nagladekkjum.


mbl.is Hálka víða um land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband