Að hamra járnið kalt

Svo lengi má hamra kalt járn að það mótist. Þetta er málpípum ferðaþjónustunnar að takast, að hamra svo á hæpnum eða röngum forsendum að þær hljóma sem sannar.

Á góðviðrisdögum er talað um ferðaþjónustuna sem einn af hornsteinum íslensks hagkerfis og vissulega má að hluta taka undir það, eða hvað?

Velta ferðaþjónustunnar hefur vissulega aukist ævintýralega síðustu ár, enda fjölgun ferðafólks til landsins svo mikil að vart þekkist annað eins á byggðu bóli. Það er þó margt að í íslenskri ferðaþjónustu, gullgrafaraævintýrið virðist blómstra þar sem aldrei fyrr. Verðlag á þjónustunni er með þeim hætti að mafíósar myndu skammast sín. Þegar gengið féll, eftir hrun, voru allir verðmiðar í erlendum gjaldmiðlum, þegar svo gengi krónunnar fór að rísa, þótti ferðaþjónustunni hæfilegra að færa sína verðmið yfir í íslenskar krónur. Þetta hefur leitt til þess að fyrir herbergiskytru sem vart er fólki bjóðandi er tekið eins og um fimm stjörnu hótel sé að ræða. Sjoppumatur er verðlagður sem stórsteikur. Og svo kenna þeir sem tjá sig fyrir hönd ferðaþjónustuaðila alltaf einhverju öðru um, þegar sökudólgurinn er óhófleg fégræðgi þeirra sem að þessari þjónustu standa.

Umræðan í dag er um hækkun á virðisaukaskatti, á þjónustu sem veitt er ferðafólki. Samkvæmt orðum framkvæmdastjóra SAF mun þessi hækkun nema um 20 milljarða kostnaðarauka á ferðaþjónustuna. Ekki ætla ég að draga þá fullyrðingu í efa, enda ætti hún að vita hvað hún segir.

Nú er það svo að ekki er verið að tala um að hækka vask á ferðaþjónustuna umfram aðra þjónustu, einungis verið að afnema undanþágur sem ferðaþjónustan hefur notið. Undanþágur frá vask greiðslum, sem auðveldlega má túlka sem ríkisstyrk. Þessi ríkisstyrkur hefur því verið nokkuð ríflegur, u.þ.b. 43% hærri en sú upphæð sem notuð er til landbúnaðar í landinu.

Ef það er svo að ferðaþjónustan getur ekki keppt á sama grunni og önnur þjónusta í landinu, er spurning hvort hún eigi yfirleitt tilverurétt. Þetta eru stór orð og kannski full mikið sagt, en einhver ástæða hlýtur að liggja að baki "vanda" ferðaþjónustunnar. Væri kannski hægt að reka þessa þjónustu á sama grunni og aðra þjónustu ef arðsemiskrafan væri svipuð? Getur verið að græðgin sé að fara með ferðaþjónustuna?

Afnám undanþágu á vask greiðslu ferðaþjónustunnar er tengd öðru og stærra máli, nefnilega lækkun á almennu vask prósentunni. Þetta er því ótvíræður hagnaður fyrir almenning í landinu. Hvers vegna hefur enginn innan verkalýðsbáknsins tjáð sig um það? Hvers vegna opnar verslun og þjónusta ekki á þá umræðu? Hvers vegna þegja allir fjölmiðlar um þessa lækkun á vask prósentunni til almennings? Þessi mál eru þó spyrt saman.

Ferðaþjónustan vill ekki borga skatta og ferðaþjónustan kallar eftir lækkun gengis krónunnar. Þetta tvennt fer þó illa saman. Ef ferðaþjónustan er svo illa stödd að nauðsynlegt er fyrir hana að fá undanþágur frá skattgreiðslum, er hún væntanlega nokkuð skuldsett. Lækkun gengis krónunnar leiðir sannarlega til aukinnar verðbólgu og hækkunar á vöxtum. Varla eru skuldsett fyrirtæki að sækjast eftir slíku. Jafnvel þó víst sé að ferðaþjónustan muni færi verðmiða sína yfir í erlenda gjaldmiðla, svona á meðan gengið er fellt, dugir það vart til ef skuldastaðan er sú að undanþága á sköttum er nauðsyn.

Ekki getur verið að rekstrarkostnaður sé að sliga ferðaþjónustuna. Vegna þess hve hátt gengi krónunnar er, er ljóst að erlendur kostnaður, s.s. byggingarefni og fleira, hefur sjaldan verið lægra. Innlendur kostnaður er vart að leggja hana. Að vísu voru nokkrar hækkanir launa, en þar sem þær hækkanir eru í prósentum og grunnurinn sem sú prósentutala er lögð á svo lág, er þar einungis um smáaura að ræða, í samhengi við veltu í ferðaþjónustu. Fram til þessa hafa þessi fyrirtæki farið yfir einkalönd fólks án þess að greiða svo mikið sem eyri fyrir, jafnvel heilu flokkarnir af rútum sem mæta heim á hlað hjá fólki, án þess að spyrja húsráðendur. Ferðaþjónustan hefur vaðið yfir landið án þess að skeyta um eitt né neitt og skilið heilu svæðin eftir í sárum. Víða er svo komið að vart er hægt að komast nærri náttúruperlum landsins vegna stórskaða á umhverfinu. Svo er bara kallað eftir hjálp frá ríkinu og það krafið um bætur?!

Að margra mati er fjöldi ferðamanna kominn langt yfir þolmörk. Ekki þarf að fara víða til að sjá að a.m.k. sumir staðir eru komnir langt yfir þolmörkin. Málpípur ferðaþjónustunnar tala í sífellu um að dreifa þurfi betur ferðafólki um landið, að nægt pláss sé fyrir fleiri ferðamenn ef dreifingin verður meiri. En með það, eins og annað, eiga einhverjir aðrir að sjá um þá dreifingu. Það er þó ljóst að enginn getur séð um þá dreifingu nema þeir sem selja ferðirnar. Þá komum við enn og aftur að fégræðginni. Í auglýsingum erlendis eru fagrar myndir af okkar helstu perlum, minna um myndir frá öðrum perlum landsins og auðvitað engar myndir af moldarflögunum sem eru komin við fallegustu staðina. Þetta leiðir til þess að erlendir ferðamenn sækjast mest eftir að heimsækja þá staði sem fallegu myndirnar eru af. Af einskærri fégræðgi vilja því allir ferðaþjónustuaðilar selja inn á þá, það er auðvelt og gefur mest í aðra hönd. Að kynna nýja staði kostar peninga og enn og aftur vill ferðaþjónustan að þeir komi úr ríkissjóði.

Ferðaþjónustan fær nú 20 milljarða í dulbúnum ríkisstyrk, borgar lægstu laun sem þekkjast í landinu og greiðir helst ekki fyrir neitt sem hún selur ferðafólki. Henni er ekki vorkunn.

 

 


mbl.is Mikið virðingarleysi stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband