Færsluflokkur: Kjaramál

Litla gula hænan

Hollt væri fyrir peningastefnunefnd og kannski sérstaklega seðlabankastjóra að rifja upp söguna um litlu gulu hænuna. Tímalaus dæmisaga um hvernig brauðið verður til og hvað um það verður.

Litla gula hænan fann fræ. Hún bað um hjálp til að planta því, en enginn vildi hjálpa. Hún bað síðan um hjálp til slá öxin og þreskja, en enn varð hún ein að sjá um verkið. Hún bað um hjálp til að baka brauðið og enn og aftur þurfti hún að vinna verkið ein. Þegar síðan brauðið hafði verið bakað voru allir tilbúnir að koma og borða það, svo litla gula hænan fékk ekki neitt.

Þannig er þjóðfélagið okkar. Fáir skapa verðmætin en allir vilja njóta þeirra. Þeir sem skapa fá minnst. Megnið fer til þeirra sem síst skyldi, fjármagnsaflanna. Seðlabankastjóri hefur tekið sér stöðu með þeim síðarnefndu.

"Þjóðin getur ekki bæði étið kökuna og átt hana" segir seðlabankastjóri. Það verður hins vegar engri köku að skipta ef áframhald verður á varðstöðu bankastjórans fyrir fjármálaöflin. Nú þegar eru heimilin farin að þjást meira en góðu hófi gegnir og sum fyrirtækin einnig. Með sama áframhaldi verða engar kökur eða brauð bökuð á Íslandi, verður ekkert til skiptanna.

Verðbólgudraugurinn dafnar sem aldrei fyrr og bankar og fjármálastofnanir fitna, þar til of seint er að snúa á rétta braut.


mbl.is „Þjóðin getur ekki bæði étið kökuna og átt hana“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáviska SA

Það er alvarlegt mál þegar framkvæmdastjóri SA hefur ekki meiri þekkingu á kjarasamningum en virðist vera nú. Hún hleypir kjaragerð í uppnám á þeirri stundu er nánast er lokið samningsgerð, lætur stranda á endurskoðunarákvæði. Hún virðist ekki átta sig á að verkalýðshreyfingin hefur einungis eitt vopn í sínum fórum og ef ekki næst samningur verður því vopni auðvitað beitt.

Samningur sem á sér vart sögulegar forsendur liggur á borðinu. Þar hefur forusta verkalýðshreyfingarinnar teygt sig lengra en nokkurn tíman áður, jafnvel svo að ærlegt verk verður að fá þann samning samþykktan af launafólki. Kjarabætur eru langt frá því að bæta það tap er verðbólgan hefur stolið af launafólki,  þó ekki æðstu stjórn landsins. Þeirra laun eru verðtryggð. Og auðvitað ekki heldur forstjórum og þeirra næsta fólki. Það skammtar sér laun sjálft. En almennt launafólk hefur tapað miklu á verðbólgunni og eins og áður segir, þá er fjarri því að sá samningur sem nú liggur á borði bæti það tap, þó ástæða þessarar verðbólgu sé fjarri því launþegum að kenna.

Ástæða þess að forusta launþega hefur valið þessa leið, þá leið að gefa verulega eftir í því að fá bætt verðbólgutapið, er auðvitað sú viðleitni að kveða niður verðbólgudrauginn. Að sína í verki að launþegar leggi sitt af mörkum í þeirri baráttu, enda stærsta kjarabótin að verðbólgan lækki og vextir samhliða. Um þetta hefur forustan talað frá upphafi þessarar kjaragerðar.

En það eru ekki allir sem tapa á verðbólgudraugnum. Bankar græða á tá og fingri, fyrirtæki geta auðveldlega fært kostnaðinn út í verðlagið og fóðrað drauginn. Eins og áður segir eru æðstu stjórnendur með sín laun verðtryggð og þeir sem ofar eru í launastiganum, margir hverjir í þeirri stöðu að skammta sér laun. 

Því er eðlilegt að forusta launafólks setji fram kröfu um endurskoðunarákvæði í samninginn. Það er forsenda þess að samningurinn fáist samþykktur af launafólki. Það er ekki tilbúið að semja til langs tíma um lág laun, í baráttu við drauginn, ef ekki er hægt að skoða hvort aðrir taki þátt í þeirri baráttu og ef svo er ekki, þá falli samningurinn. Krafan um slíka endurskoðun er eftir eitt ár, en þá liggur fyrir hverjir standa við sitt. Boð SA er hins vegar að slík endurskoðun verði ekki fyrr en undir lok samningsins, eitthvað sem launþegar munu aldrei samþykkja, hvað sem forusta þeirra gerir.

Ef framkvæmdastjóri SA áttar sig ekki á þessum staðreyndum er hún óhæf í starfi. Þá mun hún baka sínum umbjóðendum miklum skaða, sem og þjóðfélaginu. Verkfallsvopnið mun verða virkjað.

Ég vona innilega að vinnuveitendur framkvæmdastjórans geri henni grein fyrir alvarleik málsins, eða skipi annan í hennar stað við samningsborðið. Það má ekki verða að launþegar neyðist til að beita sínu eina vopni, vegna fávisku fulltrúa SA.

 


mbl.is Segir fullyrðingar Vilhjálms rangar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draugar fortíðar, Glámur og esb.

Enn hefur draugur esb aðildar verið vakinn upp. Það sem mest kemur þar á óvart er hver stendur að þeirri uppvakningu. Ekki þeir hefðbundnu talsmenn þess að við "deilum" sjálfstæði þjóðarinnar, nei, þar að verki er einn öflugast starfsmaður verkalýðshreyfingarinnar, Vilhjálmur Birgisson formaður SGS og Veralýðsfélags Akraness. Þó segist Villi vera á móti aðild að esb.

Þennan draug vakti Villi upp með samráði við atvinnurekendur, að eigin sögn, um að fá "óháða" erlenda aðila til gera úttekt á upptöku annars gjaldmiðils og ástæðan er léleg hagstjórn hér innanlands. Hann svarar allri gagnrýni að þetta eigi að vera óháð athugun sem mun leiða "sannleikann" í ljós. 

Fyrir það fyrst er nokkuð undarlegt að Villi skuli hafa farið með þetta viðkvæma, pólitíska stórmál fyrst til atvinnurekenda, áður en það var rætt og afgreitt á vettvangi launafólks. 

Hvað varðar "óháða aðila" ætti Villi að vita best að þeir finnast hvergi í veröldinni, Enda gefur hann lítið fyrir nokkur hundruð blaðsíðna úttekt um þetta málefni. Ástæðan er að Seðlabankinn stóð að þeirri skýrslugerð. Að henni kom fjöldi álitsgjafa, bæði innlendra og erlendra,  en það dugir Villa ekki. Það væri hægt að fá hóp hagfræðinga til að gefa út í löngu máli að jólasveinninn væri til, bara ef einhver er tilbúinn að borga.

Varðandi hagstjórnina þá breytist hún ekkert við upptöku á erlendum gjaldeyri, Auðvitað kostar það okkur að halda eigin gjaldeyri, en sá kostnaður er smámynt í heildarsamhenginu. Jafnvel ekki þó við gengjum í esb mun það engu breyta í hagstjórninni hér. Það sannað Hrunið okkur. Jafnvel þó við afsöluðum algjörlega sjálfstæði okkar til erlends ríkis og legðum niður Alþingi, mun hagsæld okkar áfram miðast að þeirri staðreynd að við erum fámennt samfélag í stóru landi á eyju langt frá umheiminum. Hitt er ljóst að ef við ekki ráðum eigin gjaldmiðli og stjórn hans tekur mið af allt öðru hagkerfi en hér er, mun veða erfiðara að stýra hagkerfinu og því líklegt að vextir hækki enn frekar og það sem kannski verst er fyrir launafólk, atvinnuleysi eykst. Sjálfur vil ég frekar halda vinnu, jafnvel þó hagurinn skerðist tímabundið vegna misvitrar stjórnunar landsins.

Þetta vanhugsaða brölt Villa er óskiljanlegt. Ber því við að fleiri og fleiri hagfræðingar telji krónuna ónýta. Inn á þetta er ég búinn að koma.

Hins vegar hefur þetta brölt hans vakið upp draug esb aðildar. Fjölmiðlar farnir að vitna í hagfræðinga um ágæti evru, sennileg sömu hagfræðinga og tókst að dáleiða Villa. Enginn ræðir norska krónu, Kanadadollar eða usadollar. Og auðvitað ræðir enginn dönsku krónuna, enda sá gjaldmiðill fasttengdur evru. Það væri því óþarfa millistig með tilheyrandi flækjum að taka upp þann gjaldeyri.

Villi ætti að lesa Grettissögu og baráttu Grettis við drauginn Glám. Þann draug þorði enginn að eiga við, flestir forðuðust hann, þeim fjáðu tókst að semja við óværuna. Það þurfti heljarmenni sem búið var að gera útlægann úr samfélaginu, til að berjast við drauginn og að lokum fella hann. Gretti bauðst að gera samning við Glám, en valdi frekar að útrýma honum. Barátta Grettis við Glám er að öllu leyti dæmisaga, þar sem útlægt heljarmenni tekur sér stöðu gegn vá almennings, það var enginn efi í huga Grettis, enda engir hagfræðingar til að hvísla í eyru hans.

Þeir sem hafa lesið pistla mína vita að ég hef verið ötull varðmaður fyrir Villa, á þessum vettvangi hér. Mér er ómögulegt að verja hann í þessari nýju vegferð sem hann hefur haldið í. Þetta hef ég tilkynnt honum en vona innilega að hann sjái að sér.

Þeir sem fara að leita hins eina sanna sannleiks hafa tekið að sér óendanlegt verkefni. Hann mun hvergi finnast.

 


Röng mælistika

Hvers vegna er ekki notuð sama mælistika hér á landi og notuð er í okkar samanburðarlöndum, við mælingu verðbólgu? Það er til samræmd mæling verðbólgu sem öll lönd Evrópu nota, nema Ísland. Þó erum við að bera okkur saman við þessi lönd á flestum sviðum. Hvernig er hægt að bera saman verðbólgu ef ekki er notuð sama mælistika?

Nú mælist verðbólga hér á landi 10,2%, ekki alveg hæsta verðbólga í Evrópu en mjög nærri því. Ef sama mælistika er notuð hér og þar ytra, mælist verðbólga hins vegar ekki nema 8,8% og við komin á það plan að vera með nánast meðaltalsverðbólgu í Evrópu. Í Svíþjóð mælist hún 9,7% og í Noregi mælist verðbólgan 8,3%. Hins vegar eru stýrivextir í Svíþjóð einungis 3% og í Noregi 2,75%. Hér á landi eru stýrivextir hins vegar 7,5% og samkvæmt ummælum seðlabankastjóra munu þeir hækka enn frekar. Stefna þá í að verða hærri en verðbólgan mælist, samkvæmt samræmdri mælistiku. Þetta er auðvitað glórulaust.

Þessi sér íslenska mæling á verðbólgu er auðvitað arfur þess tíma er öll lán til húsnæðiskaupa voru verðtryggð. Þetta leiðir til þess að enginn hagur er af því að taka vaxtalán, jafnvel hættulegt. Afborganir slíkra lána er fljót að fara yfir greiðslugetu fólks, þegar vextir stökkbreytast. Því verður að afnema þessa sér íslensku aðferð við mælingu verðbólgu og taka upp sömu mælistiku og okkar samanburðarlönd nota. Mælistiku sem er talin gild og góð um alla Evrópu, utan Íslands. Einungis þannig er hægt að tryggja að fólk sem tekur lán í góðri trú, miðað við efnahag, geti staðið skil þeirra. Einungis þannig mun verða hægt að afnema verðtryggingu lána, sem einnig er sér íslensk.

Það er einstakt að stjórnmálamenn vilji ætíð mála skrattann á vegginn, að gera meira úr hlutum en tilefni er til. Vissulega er 8,8% verðbólga slæm en 10,2% er margfalt verri. Eins og áður segir er 8,8% verðbólga nærri meðaltalsverðbólgu Evrópuríkja. Það er engin krísa að geta haldið Íslandi nærri meðaltalsverðbólgu Evrópuríkja, reyndar bara ágætis afrek, miðað við ástandið í heiminum. En, nei, íslenskir stjórnmálamenn vilja mála ástandið enn verra. Mætti halda að þeir væru illa haldnir af "Stokkhólmseinkenni".

Fyrir nokkrum dögum hvatti seðlabankastjóri fjármagnseigendur til að mótmæla á götum úti, þar sem raun innvextir væru í mínus. Reyndar man ég ekki til að hafa nokkurn tíman fengið raunvexti af innistæðu og er þó kominn á efri ár. Ástæða þess að maður geymir nokkrar krónur í banka er ekki til að ávaxta þær, keldur til að minnka skaðann af því að hafa þær undir koddanum. Að fá einhverja vexti í stað engra. Þetta var náttúrulega svo absúrd hjá seðlabankastjóra að engu tali tekur. Ef hann hugsar sé að hækka stýrivexti svo að innlánsvextir banka verði jákvæðir, þarf hann að hækka þá nokkuð ríflega, þar sem vaxtamunur bankanna er mjög mikill. Hefur ætíð verið mikill en hin síðari ár keyrt úr hófi fram. Þetta mun auðvitað leiða til þess að öll útlán bankanna falla í vanskil, þar sem enginn getur borgað af lánum sínum. Afleiðingin er að bankarnir sjálfir falla. Hvað þá um innistæðurnar, með háu vöxtunum?

Bankastjóri seðlabankans segist vera í einkabaráttu við verðbólguna. Því þurfi hann að hækka vexti og mun hækka þá þar til verðbólgu lægir. Það mun sennilega verða seint, enda hækkun stýrivaxta sem fóður fyrir verðbólgudrauginn. Hækkun vaxta leiðir af sér að flest fyrirtæki verða að hækka verð á sinni vöru eða þjónustu. Flest fyrirtæki eru háð lánsfé, skammtímalánum eða lánum til til lengri tíma.

Þá eru auðvitað flest heimili landsins skuldsett, sum mikið önnur minna. Lán til húsnæðiskaupa eru þar umfangsmest. Hækki vextir svo að fólk geti ekki staðið skil á sínum lánum, mun verðbólga auðvitað lækka, lækka svo að við förum beinustu leið í kreppu!

Ég viðurkenni að seðlabankastjóri hefur það lögbundna hlutverk að halda verðbólgu niðri. Til þess hefur hann ýmis verkfæri. Hann virðist þó hafa einstakt dálæti á einu þeirra, hækkun stýrivaxta. Annað verkfæri væri þó sennilega enn betra, að auka bindiskyldu bankanna. Það leiðir til þess að bankar draga úr útlánum. Aðgerð sem ekki kemur í bakið á fólki, heldur hefur það val.

Það er eitt atriði sem ég get ekki með nokkru móti skilið og útilokað er að geti haft áhrif á verðbólguna, en það er hækkun vaxta á þegar tekin lán. Hækkun vaxta á lán sem fólk sækist eftir er aftur skiljanlegt. Hækkun vaxta á þegar tekin lán, lán sem fólk tekur í góðri trú og samkvæmt sinni greiðslugetu, munu einungis leiða til greiðslufalls. Hækkun lána á ótekin lán gefa lántaka val og mun að öllum líkindum draga úr verðbólgu.

Seðlabankastjóri starfar samkvæmt lögum. Þau lög eru sett á Alþingi. Það er því stjórnmálamanna að grípa í taumana þegar í óefni stefnir. Svo er nú. Annað tveggja fer seðlabankastjóri offari eða hitt að hann fer eftir lögum. Líklega er síðari kosturinn réttur og þá þarf að breyta lögunum. Annað getur ekki gengið.

En fyrst og fremst þarf að breyta mælistikunni, að færa hana til samræmis við það sem aðrar þjóðir nota. Einungis þannig er hægt að tala vitrænt um verðbólgu hér á landi og haga aðgerðum samkvæmt því.

 


mbl.is „Algjört forgangsmál að ná verðbólgu niður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tásumyndir frá Tene

Það er ekki oft sem samtök atvinnulífsins og fulltrúar launþega eru sammála. Það tókst þó seðlabankastjóra að ná fram, með undarlegri hegðun sinni. Ásgeir Jónsson er af góðum ættum og ágætlega gefinn, en að hann væri megnugur þess að sameina atvinnurekendur og launþega, svona á fyrstu skrefum samningaviðræðna, er sennilega hans stærsti sigur.

Seðlabankinn hefur ýmis tæki til að stjórna peningamálum þjóðarinnar. Eitt þessara tækja er hækkun stýrivaxta. Til þessa tóls er gjarnan gripið þegar stefnir í óefni á lánamarkaði, þ.e. þegar útlán eru komin út fyrir það sem gott þykir. Þá eru vextir hækkaðir til að stemma stigu við frekari útlánum bankanna og er gott og gilt að því marki. Það er hins vegar spurning hvers vegna þurfi að hækka vexti á þegar útgefnum lánum og hvaða áhrif slík hækkun hefur. Þegar einhver tekur lán á hann að geta gengið að því sem vísu að þeir vextir sem hann skrifar undir, séu þeir vextir sem hann þarf að greiða. Það er erfitt eða útilokað fyrir lántaka að skila láninu.

Að hækka vexti á þegar útgefnum lánum getur aldrei slegið á verðbólgu, heldur kyndir undir hana. Það er ekki bara launafólk sem er bundið bönkum með lánum, flest fyrirtæki í flestum geirum, eru einnig með miklar lántökur. Bæði langtímalán og skammtímalán. Ólíkt launafólki, sem ekki hefur neinn möguleika á öðru en að halda áfram að borga af sínum lánum ella missa heimili sitt, geta mörg fyrirtæki fært þessa auknu byrgði sína yfir á neytendur, þ.e. hækkað verð á sinni vöru eða þjónustu. Það er fæða verðbólgudraugsins.

Tásumyndir frá Tene eru seðlabankastjóra hugleiknar. Vill meina að landsmenn séu stórtækir í ferðum í sólina. Þó viðurkennir hann að þær ferðir séu ekki fjármagnaðar með lántökum, heldur innistæða fólks frá Covid tímanum. Fólk hlýtur að ráð hvernig það ráðstafar sínu fé, eða ætlar seðlabankinn að stjórna því líka? Stærri spurning er hvernig hann hyggst stjórna með vaxtahækkun, þegar fólk er upp til hópa að nota fé sem það á fyrir.

Alvarlegasta við þetta frumhlaup seðlabankastjóra er þó sú staðreynd að nú standa yfir viðræður um kaup og kjör á vinnumarkaði. Þessi gjörningur er ekkert annað en sprengja inn í þær viðræður. Það lá fyrir að einmitt vegna mikilla hækkana bankans á stýrivöxtum, yrðu þessar viðræður erfiðar. Ríkissáttasemjari er þegar tekinn til starfa.

Það dylst engum að verðbólga er í landinu. Hana má fyrst og fremst rekja til erlendra áhrifa. Þau innlendu áhrif sem oft eru talin, eru flest til komin af sömu ástæðu. Nær engin bein innlend áhrif má rekja til þessarar verðbólguhækkunar, ekki einu sinni tásumyndirnar. Innlend vaxtahækkun hefur því lítil áhrif á verðbólguna og innlend vaxtahækkun á þegar útgefin lán einungis fóður fyrir verðbólgudrauginn. Þeir sem græða á þessum hækkunum eru bankarnir, þeir sem tapa er fólkið og fyrirtækin í landinu.

Tásumyndatal seðlabankastjóra minnir nokkuð á flatskjáaumræðuna eftir hrun bankana. Kannski er Ásgeir búinn að átta sig á að við nálgumst þann stað er við vorum á haustið 2008 og er að búa í haginn fyrir afsökun hins nýja hruns landsins.


mbl.is Vaxtahækkun truflar kjaraviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein stétt

Það ætti ekki að vefjast fyrir vinnumálaráðherranum að kippa þessu í liðinn. Síðast nú á laugardaginn fullyrti fjármálaráðherra að einungis væri ein stétt í landinu. Því hlýtur jafnt að ganga yfir alla innan þeirrar stéttar, ekki satt?

Vinnumálaráðherra hlýtur að herma þessi orð uppá fjármálaráðherra, þannig að öryrkjar komist kannski með tærnar inn fyrir dyr hátíðarsalsins, þar sem "eina stéttin" úðar í sig kræsingum um jólin.


mbl.is Ræða jólabónus fyrir öryrkja í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tommustokkur Seðlabankans

Nýjasta útspil Seðlabankans er sem bensín á eld komandi kjarabaráttu. Hækkun stýrivaxta kemur launafólki verst, en bankarnir fitna enn meira. Það er fátt sem skerðir laun hins almenna borgara meira en hækkun stýrivaxta.

Verðbólga hér á landi er ekki svo há, ekki ef notaður er sami tommustokkur og löndin sem við viljum bera okkur samanvið nota. Mælt með þeim tommustokk er verðbólga á Íslandi ekki nema 6,4%, eða sú næst lægsta í gjörvallri Evrópu, einungis Sviss með lægri verðbólgu. Meðal verðbólga ríkja ESB, mælt með þessum sama tommustokk, er 9,8%. Hins vegar er til önnur verðbólgumæling hér á landi, aðferð sem hvergi annarstaðar þekkist. Samkvæmt henni mælist verðbólga hér 9,9%, eða 3,5% hærri en raunveruleg verðbólga og 0,01% hærri en meðaltalsverðbólga ESB ríkja. Ástæða þessarar aðferðar, til verðbólgumælingar hér á landi, er að til langs tíma voru nærri öll lán til húsnæðiskaupa tengd þessari mælingu. Nú hin síðari ár hefur fólk átt kost á óverðtryggðum lán til slíkra kaupa, en þá eru vextir gjarnan fljótandi, þ.e. fylgja breytingum á stýrivöxtum Seðlabankans. Þetta tryggir bankana og því ekki undarlegt að hagnaður þeirra sé ævintýralegur.

Nánast öll þessi 6,4% raunverðbólga sem er hér á landi skapast vegna hærri aðkaupa til landsins, sem eins og allir vita skapast af stríðinu í Úkraínu en þó mest vegna sjálfskipaðs orkuskorts í Evrópu, sökum rangrar orkustefnu ESB. Einhver smáhluti þessarar verðbólgu er sökum þess að fólk hefur verið að nota sparnað sinn til eigin nota. Hin 3,5% sem eru heimatilbúin í Svörtuloftum, koma til vegna skorts á íbúðahúsnæði.

Hækkun stýrivaxta mun því lítið gagnast til að lækka verðbólguna hjá okkur. Hærri vextir hér munu ekki slá á verð á vörum erlendis, hærri vextir hér hafa lítið að segja gegn því að fólk noti sinn sparnað til eigin not og kannski það mikilvægasta í þessu öllu, hærri vextir hér á landi munu ekki leiða til þess að stórkostlegur skortur á húsnæði leysist.

En bankarnir fitna sem aldrei fyrr og launafólkinu blæðir. Það er stutt í að við förum að heyra sögur af fólki sem borið er út á götu, í boði bankanna. Sömu sögur og þær sem voru svo átakanlegar í kjölfar Hrunsins.

 

Hvers vegna í ósköpunum má ekki nota sömu mælistiku á verðbólguna hér á landi og notuð er allstaðar annarsstaðar. Af hverju þarf að búa til einhvern sér íslenskan mælistokk til þessarar mælingar!


mbl.is Hvers virði eiga krónurnar að vera?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

57 blaðsíður af litlu

Jæja, þó höfum við fengið nýja ríkisstjórn og já, líka nýjan stjórnarsáttmála. Í stuttu máli má segja að niðurstaðan komi nokkuð á óvart. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fá "góðu" stólana en VG fær stjórnarsáttmálann.

Varðandi stólaskiptin ber að sjálfsögðu að fagna því að umhverfisráðuneytið hefur verið heimt úr helju. Ný nöfn og ný hlutverk sumra ráðuneyta ruglar mann nokkuð í rýminu, enda erfitt að átta sig á hvar sum málefni liggja. Var þar vart á bætandi, enda kom í ljós á síðustu dögum síðustu ríkisstjórnar, að ráðherrar þar voru ekki með á hreinu hver bar ábyrgð á hverju.

Stjórnarsáttmálinn er upp á heilar 57 blaðsíður, vel og fallega orðaður en málefnalega fátækur. Orðið "loftlagsmarkmið" kemur þar oft við sögu, sennilega algengast orð stjórnarsáttmálans.

Það sker þó í augun nokkur atriði þessa nýja sáttmála. Til dæmis er tekið fram að leggja á allt land sem hefur verið friðlýst, undir þjóðgarð. Þeir kjósendur hins fámenna grenjandi minnihluta er treystu loforðum frambjóðenda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hafa þar látið plata sig illilega. Þó umhverfisráðuneyti sé komið undan ægivaldi VG, virðist hafa verið þannig gengið frá hlutum að hálendisþjóðgarður er enn á borðinu, bara farnar aðrar leiðir en áður var ætlað. Reyndar vandséð hver aukin landvernd liggur í því að færa land úr verndun yfir í þjóðgarð, sem ekki hefur lýðræðislega kosna stjórn.

Þá er í þessum sáttmála tiltekið að sett verði sérstök lög sem hafa það markmið að einfalda uppbyggingu vindorkuvera! Þar hvarf öll umhverfisverndin í einni setningu!

Verst, fyrir almennt launafólk að minnsta kosti, er að sjá kaflann um vinnumarkaðsmál. Þar er ljóst að skerða á rétt launþega nokkuð hressilega. Salekdraugurinn er þar uppvakinn. Þetta er stórmál og mun sjálfsagt hafa meiri afleiðingar en nokkuð annað í komandi kjarasamningum. Verkfallsrétturinn er eina vopn launþega og virkjast einungis þegar samningar eru lausir. Ef ætlunin er að skerða þann rétt, er ljóst að langvarandi vinnudeilur munu herja á landið. Það er það síðasta sem við þurfum.

Þá er nýtt í þessum stjórnarsáttmála, a.m.k. mynnist ég ekki eftir að hafa séð slíkt ákvæði fyrr í slíkum sáttmála, heill kafli um aukna tekjuöflun ríkissjóðs. Aukin tekjuöflun ríkissjóðs er annað orðalag yfir aukna skatta. Nokkuð merkilegt af ríkisstjórn sem hefur Sjálfstæðisflokk innandyra. Hins vegar er ekki orð að finna um skattalækkanir eða hagræðingu í ríkisrekstri.

Sem aðrir kaflar í þessum sáttmála er kaflinn um byggðamál vel og fallega orðaður. Talað um að styðja byggðaþróun, nýsköpun, að gera Akureyri að varahöfuðborg og auðvitað að halda áfram að byggja upp háhraðanetrið. Það er kannski ekki vanþörf á vara höfuðborg, enda rekstur þeirrar gömlu ekki beysinn. Og þar sem Míla er flutt til Frakklands, þarf auðvitað aukið fjármagn til að klára uppbyggingu háhraðatengingu um allt land. Það sem hins vegar er nokkuð spaugilegt er svokallaður stuðningur við byggðaþróun í landinu. Þetta má skilja á tvo vegu, að styðja þróun til eflingar byggðar eða styðja þróun til flutninga á mölina. Í öllu falli voru verk fyrrverandi sveitastjórnarráðherra, núverandi innviðaráðherra, með þeim hætti að engu líkar væri en að hann styddi þá byggðaþróun að landsbyggðin flyttist bara á SV hornið.

Læt þetta duga í bili af þessum einstaklega fátæklega en langa stjórnarsáttmála.


mbl.is Nýtt ríkisráð fundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og lánin okkar hækka

Reykjavíkurborg hefur tekið ákvörðun um að hækka bílastæðagjöld um 375%, bara rétt sí svona, með einu pennastriki. Reyndar þurfa þeir sem aka á hreinum rafbílum ekki að greiða nema helming á við hina, en þeir fengu jú ókeypis stæði áður. Kann ekki að reikna út prósentuhækkun frá núlli, en víst er að hækkun frá núlli upp í 15.000 krónur er veruleg hækkun, hvernig sem á það er litið. 

Því er haldið fram að þessi ákvörðun sé liður í að flýta orkuskiptum, en það sér hvert mannsbarn að þarna er borgin einungis að seilast enn frekar í vasa borgarbúa, í örvæntingar tilraun til að afla fjár í galtóman borgarsjóð. Stjórnleysi vinstriflokkanna síðustu áratugi í borginni er búin að koma henni á vonarvöl. Þessi skattur mun leggjast þyngst á þá sem minnst mega sín, fjölskyldur sem minni fjárráð hafa. Þeir ríkari, sem geta leift sér að aka á nýjum rafbílum sleppa betur.

Þá mun þetta einnig leggjast á efnaminni fjölskyldur gegnum húsnæðislánin, þar sem þessi hækkun mun hafa áhrif til aukinnar verðbólgu, með þeim afleiðingum að verðtryggð lán hækka og í kjölfar þess vextir óseðjandi bankakerfisins. Þetta mun hafa áhrif út fyrir borgarmörkin og því misvitrir borgarfulltrúar þarna að taka ákvörðun sem mun hækka lán okkar landsbyggðafólks. Hélt satt að segja að viðværum laus frá þessu vinstra gengi sem sett hefur borgarsjóð á hausinn, en maður er víst hvergi hólpinn frá þeirri óværu!


mbl.is Bílastæðakort hækka úr 8.000 í 30.000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matvinningur

Matvinningur var þeir kallaðir er vegna aldurs, fötlunar eða annarra vankanta voru ekki meiri menn til vinnu en rétt fyrir mat.

Forstjóri Orkuveitu Reykjarvíkur fékk launahækkun fyrir nokkrum dögum. Þetta þykir svo sem varla fréttnæmt, enda laun manna í slíkum stöðum ekki ákvörðuð af vinnuframlagi eða getu til að skila því. Það sem þó kom nokkuð á óvart var hversu há þessi launahækkun var, þ.e. í krónum talið. Í prósentum var hún svo sem ekkert mjög há, bara nokkrum sinnum meiri en sú prósentuhækkun er féll til almennra launþega í landinu. En af háum launum þarf svo sem ekki mörg prósent til að krónurnar verði margar, jafnvel fleiri en lágmarkslaun almennings hljóða uppá.

Annað kom einnig á óvart, en það var svar stjórnarformanns OR um þessa launahækkun og tilurð hennar. Annars vegar var verið að "leiðrétta" laun forstjórans aftur í tímann og hins vegar var verið að bæta honum upp það tekjutap er hann varð fyrir er hann hætti sem stjórnarformaður í dótturfyrirtækjum OR. En eins og flestir vita er OR varla nema nafnið, þar sem allur rekstur fyrirtækisins og sala fer fram undir merkjum dótturfyrirtækja OR. En, sem sagt, forstjórinn minnkaði við sig vinnu hjá fyrirtækinu og fær væna launahækkun fyrir. Geri aðrir betur!

Nú er komin upp deila um hvort Árbæjarlón eigi að vera eða ekki. Um þetta hefur ekki verið deilt í heil eitt hundrað ár, eða frá því Reykjavíkurborg hóf framleiðslu rafmagns í Elliðaárdalnum. Lón þetta er því um aldar gamalt og fyrir löngu orðið hluti náttúrunnar. Þarna hefur því verið náttúruparadís fyrir menn og fugla um langt skeið. Ákvörðun um tæmingu lónsins og að því skuli eytt, tók hinn vellaunaði forstjóri OR. Nú þegar andmæli eru að komast í hámæli um þessa gjörð, fullyrðir forstjórinn að hann hafi gert þetta í samráði við fuglafræðing, sem á að hafa sagt honum að álftaparið sem hefur haldið sig í hólma lónsins, muni halda áfram að verpa í hólmanum, sem þó stendur nú á þurru landi! Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldi þessa máls, hvort lónið verði fyllt aftur eða ekki. Líklegt verður þó að telja að forstjórinn fái enn eina launahækkunina, fyrir snilli sína!

Það skal aldrei vanmeta menn þó þeir séu smáir, bæði á velli og innra með sér. Þar geta leynst snillingar!


mbl.is Segja tæmingu hafa óveruleg áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband