Færsluflokkur: Bílar og akstur
Landsbyggðaskattur
29.9.2017 | 09:39
Ekki trúi ég að nokkur þingmaður eða frambjóðandi þori að taka undir þessar tillögur starfshópsins, svo skömmu fyrir kosningar. Nema auðvitað Jón Gunnarsson, samgönguráðherra. Hann getur ekki svarið þessar tillögur af sér, svo mjög sem hann hefur talað fyrir þeim.
Þarna er auðvitað verið að leggja til aukinn skatt, sem í sjálfu sér er í algjörri andstöðu við stefnu flokks samgönguráðherra. Það sem meira er, þá eru auknar skattaálögur einnig í andstöðu við stefnu samtaka atvinnulífsins. Eða á það eingöngu við um skattlagningu á fyrirtæki? Að allt í lagi sé að skattleggja þá sem af nauðsyn þurfa að eiga og reka einkabíl, meðan fyrirtæki landsins geti grætt á slíkri skattheimtu?
Árið 2016 voru heildartekjur ríkisins af bílaflota landsmanna um 70 milljarðar króna (70.000.000.000.kr.). Á þessu ári un þessi upphæð verða enn hærri, aukinn innflutningur bíla, aukinn akstur landsmanna og stór aukinn fjöldi ferðafólks sem komast þarf um landið, sér til þess. Ekki kæmi á óvart þó tekjur ríkissjóðs næðu allt að 100 milljörðum króna á þessu ári, af þessum stofni einum.
Enn meiri hækkun tekna ríkissjóðs er sjáanleg á næsta ári. Fjárlagafrumvarp fráfarandi ríkisstjórnar verður auðvitað ekki samþykkt. Samkvæmt því átti að stór hækka álögur á eldsneyti, auk þess afnema undanþágur bílaleiga á innflutningsgjöldum. Þetta mun gefa ríkissjóð einhverja milljarða í kassann. Að auki er ljóst að krónan mun veikjast og innflutningsverð eldsneytis því hækka. Það mun einnig fita ríkissjóð á aurum bíleigenda.
Auðvitað er ljóst að fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp hægri stjórnarinnar, með öllum sínum skattahækkunum, mun ekki ná fram að ganga, en ljóst er að ef vinstri flokkar ná völdum munu þessar skattahækkanir verða enn meiri. Viðbrögð þeirra á Alþingi, þegar frumvarpið var lagt fram, sannar það.
Starfshópurinn telur að það þurfi 56 milljarða króna á næstu átta árum, til að koma vegakerfinu í þokkalegt stand. Það gerir þá nálægt 7 milljörðum á ári, að jafnaði. Það er þá væntanlega viðbót við þá 18 milljarða sem ætlaðir eru í málaflokkinn á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Að samtals þurfi sem svarar 25 milljarða á ári til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins.
Liggur nærri að það samsvari 1/4 þess sem ríkið innheimtir í dag af bílaflota landsmanna. Hinir 3/4 hlutar þess fjár fer þá væntanlega í annan rekstur ríkissjóðs, eða nálægt 75 milljörðum króna. Þennan skatt bera þeir einir sem þurfa að eiga og reka einkabíl. Undan þeim skatti getur fólk auðvitað komið sér, með því að sleppa því að eiga bíl. Það er mögulegt fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðafólk hefur ekki val. Því er þetta hreinn landsbyggðaskattur, skattur sem að stærstum hluta er nýttur til greiðslu hinna ýmis rekstrar ríkissjóðs, að mestu innan marka höfuðborgarsvæðisins.
Bíleigendur borga í dag sannanlega fyrir allt viðhald og endurnýjun vegakerfisins, c.a. fjórfallt! Og nú skal enn sótt í vasa þeirra. Þá 56 milljarða sem starfshópurinn telur þurfa, vill hann rukka af bíleigendum á næstu 20 árum. Það gerir 2,8 milljarðar á ári, sem sóttur verður beint í vasa bíleigenda, ofaná alla aðra skatta sem þeir þegar borga!
Það er vissulega sjónarmið hvernig staðið skuli að fjármögnun á viðhaldi og endurnýjum vegakerfisins. Mismunandi er eftir þjóðum hvernig að slíku er staðið og vegtollar orðið ofaná hjá sumum ríkjum. Önnur nota skattkerfið til þessarar fjármögnunar.
Við Íslendingar völdum að hafa þessa fjármögnun inn í eldsneytisverði. Vandinn er bara að misvitrir stjórnmálamenn hafa gegnum tíðina sælst æ meir í það fjármagn, þannig í dag fer hluti þess skatts á eldsneyti, sem ætlaður var til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins, inn í ríkishítina. Ástæða þess að eldsneytisgjald var valið umfram vegskatts, var auðvitað stórt og strjálbýlt land. Hætt er við að vegakerfið okkar væri ansi fátæklegt, ef vegskattur hefði átt að greiða hvern vegspotta, sér í lagi í dreifðustu byggðum landsins. Eldsneytisgjaldið var talið vænna út frá byggðasjónarmiðum og væri það vissulega, ef stjórnmálamenn stunduðu ekki massíf lögbrot með því að nota hluta þess fjár í annað!!
Forsenda fyrir vegsköttum er auðvitað að fólk hafi val, geti ekið aðra og kannski lakari vegi en þá sem skattur er innheimtur af. Önnur forsenda er að önnur skattheimta, í sama tilgangi, sé þá afnumin. En frumforsenda er að vegskattur sé ekki innheimtur fyrr en hægt er að aka um viðkomandi vegkafla. Hvergi í víðri veröld er innheimtur vegtollur af "væntanlegum" vegi, enda sennilega hvergi í víðri veröld sem hægt er að treysta stjórnmálamönnum fyrir slíkri fyrirfram skattheimtu!!
Eins og áður segir, eru tekjur ríkissjóðs af bíleigendum, hér á landi, gífurlegar. Hluti þeirrar skattheimtu er svokallað eldsneytisgjald og hann ætlaður til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins. Einungis hluti þess gjalds fer til þeirra nota, þar sem stjórnmálamenn hafa ráðstafað hluta eldsneytisgjaldsins til annarra nota. Væri allt eldsneytisgjaldið nýtt í þeim tilgangi sem til stóð, væri vegakerfi okkar ekki að hruni komið!
Engin ástæða er til að ætla að vegskattur verði eitthvað betur varinn fyrir misvitrum stjórnmálamönnum. Þeir munu ásælast hann, rétt eins og eldsneytisgjaldið!!
Gjald verði lagt á helstu stofnvegi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Rothögg á vegakerfi landsins
3.3.2017 | 22:30
Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngumála, hefur farið mikinn síðustu daga og vikur. Þar hefur hann talað um að framkvæma þurfi svo og svo mikið og nefnt ýmis verkefni, bæði innan og utan samgönguáætlunar. Þetta allt ætlaði hann að fjármagna með vegtollum umhverfis höfuðborgina. Eins og búast mátti við mætti sú ætlan ráðherrans mikilli mótspyrnu.
Nú hefur ráðherrann hins vegar skipt um kúrs, í stað þess að tala fyrir auknum framkvæmdum hefur hann nú skorið niður verulega, eða um 10 milljarða króna. Væntanlega er þetta herbragð hjá honum til þess ætlað að breyta hugsanahætti fólk til vegtolla, að vinna því máli fylgi með hótunum.
Það er nokkuð merkilegt að skoða þennan lista yfir niðurskurð ráðherrans. Öll eru þau verkefni út á landsbyggðinni, öll eru þau innan samgönguáætlunar og flest eru þau mjög brýn og mörg hver beðið í áratugi. Ekki kemur fram í fréttinni hvaða verkefni fá náð hjá ráðherranum, utan þrjú, gatnamót Krísuvíkurvegar, Vestmannaeyjaferja og Dýrafjarðargöng. Hvað fleira á að gera nefnir hann ekki, en ljóst er af listanum yfir það sem skorið er niður, að landsbyggðin mun lítið eða ekkert fá, meiri líkur á að einhverjir reiðhjólastígar innan Reykjavíkur verði þar í forgangi.
Í fjárlögum ársins 2017 kemur fram að 29 milljarðar eru ætlaðir til vega- og fjarskiptamála. Ekki kemur fram hvernig skiptingin á þessu fjármagni mun verða, milli þessara tveggja málaflokka. Í viðtali við ráðherrann segir hann að 4,5 milljarðar séu ætlaðir til nýrra framkvæmda. Nú hef ég ekki þekkingu til að segja til um hvort þetta sé eðlileg skipting né hvort 24,5 milljarðar dugi vegagerðinni til rekstur og viðhalds, auk eflingu fjarskipta á landinu. Við fyrstu sýn virðist sem veruleg vanáætlun hafi verið til þessara málaflokka, við gerð fjárlaga fyrir árið 2017. Samgönguáætlun er ekki eitthvað marklaust skjal, heldur ákvörðun Alþingis og því hljóta stjórnvöld hverjum tíma vera bundin af þeirri áætlun og finna fé til þeirra framkvæmda sem á þeirri áætlun eru, hverju sinni.
Svona til upplýsingar þá eru skattar og gjöld sem bíleigendur greiða til ríkissjóðs talin nema vel yfir 70 milljörðum á þessu ári. Þá er ekki tekið tillit til þess að umferð er að aukast til muna, bæði innlendra ökumanna og ekki síður vegna aukins fjölda ferðamanna. Jafnvel þó þangað yrði sóttir þeir 10 milljarðar sem þarf til að standast vegaáætlun, getur ríkið vel við unað, Hefur samt sem áður aukaskatt af bíleigendum vel yfir 30 milljarða, miðað við að bíleigendur séu einnig látnir greiða kostnað við eflingu fjarskipta á Íslandi, auk uppbyggingu og viðhalds vegakerfisins!!
Vegakerfið á Íslandi er ekki til sóma, verið svelt fjárhagslega í áratugi og ber þess skýr merki. Þegar hrunið skall á var nánast lokað algjörlega á allar framkvæmdir og það sem verra var, viðhald var dregið mjög niður. Enn vantar mikið upp á að jafnvægi sé komið milli framlaga til vegamála og þörf. Þó er fjáröflunin til staðar, en hún er nýtt til annarra verkefna, að stæðstum hluta. Þetta verður að laga og vissulega gladdist maður þegar samgönguáætlun var samþykkt á síðasta þingi. Þar var að sjá að nú ætti loks að taka á vandanum, sem í raun er að verða óviðráðanlegur víða. En eins og áður segir, þá virðast stjórnvöld ekkert mark taka á þeim lögum sem Alþingi samþykkir.
Forgangsröðun ráðherrans er nokkuð undarleg. Í umræðum síðustu vikna hefur hann talað um auknar álögur á bíleigendur, með því að leggja á vegtolla. Í þeirri umræðu var honum tíðrætt um vegabætur umhverfis höfuðborgina, Sundabraut, tvöföldun flestra vega í tugi kílómetra út fyrir borgarmörkin og fleira í þeim dúr. Að því loknu ætlaði síðan ráðherrann að nýta vegtollana til uppbyggingar á vegakerfinu út á landi.
Sem fáfróðum leikmanni er manni þessi forgangsröðun ráðherrans nokkuð framandi. Ég bý á Akranesi og vissulega myndi ég fagna tvöföldun Kjalarness og jafnvel Sundabraut. En þessar framkvæmdir eru þó ekki þær sem mest að kalla, fjarri því. Meðan fjöldi einbreiðra brúa skiptir tugum á hringveginum, meðan enn eru ómalbikaðir kaflar á helstu stofnleiðum, meðan einangrun heilu landshlutanna yfir vetrarmánuðina er staðreynd og meðan hundruðir kílómetra af þjóðvegum eru svo mjóir að vörubíla geta vart mæst, er æði flottræfilslegt að tala um tvöföldun vega vítt og breytt út frá höfuðborginni. Þá má hæglega minnka verulega álagið á veginn gegnum Hvalfjarðargöng til Reykjavíkur, með því einu að virkja enn frekar höfnina á Grundartanga, að öllum þungaflutningum sem nú fara á milli norður- og vesturlands að Sundahöfn, verði beint að Grundartangahöfn. Þannig mætti fresta tvöföldun þessa kafla um nokkur ár og Sundabraut um mörg ár.
Eins og áður segir, þá nefnir ráðherrann þrjú verkefni sem munu halda sér, Dýrafjarðargöng, Vestmannaeyjarferju og gatnamót Krýsuvíkurvegar.
Dýrafjarðargöng eru vissulega komin á tíma og það fyrir margt löngu síðan. Hins vegar er spurning hver bótin af þeim verður, ef íbúar norðurhluta Vestfjarða komast einungis yfir í Arnarfjörð. Þegar vegirnir um Gufudalssveit og Dynjandisheiði hafa verið afskrifaðir.
Um Vestmannaeyjarferju hefur verið deilt. Vissulega þarf að koma einhverju lagi á samgöngur milli lands og Eyja, hvort þessi ferja breyti einhverju þar um er svo annað mál.
Sannarlega er þörf á mislægum gatnamótum á Krísuvíkurveg. En þar, eins og svo víða hjá vegagerðinni, virðast menn hafa hugsað með einhverju öðru en hausnum. Innan við 2 kílómetrum norðan eða austan þessara gatnamóta eru mislæg gatnamót. Um þau lá Krísuvíkurvegur þar til fyrir skömmu að honum var breytt og ný gatnamót voru gerð þar sem þau eru nú. Auðvitað átti ekki að breyta þessum vegi nema mislæg gatnamót kæmu samtímis, enda nánast sami umferðarþungi þar á Reykjanesbrautinni og 2 kílómetrum norðar!
Nokkuð hefur verið um alvarleg slys þar sem tvöföldun vega lýkur og við tekur einfaldur vegur. Þetta á helst við um Reykjanesbraut og Suðurlandsveg. Þetta er auðvitað skelfilegt og þarf að taka á. Áframhald tvöföldunar er þó ekki lausn, nema kannski á kaflanum suður af Hafnarfirði. Frekari lausn væri að taka niður ökuhraða og setja upp hraðamyndvélar, á þá kafla sem flest slys verða. Þar til búið er að tvöfalda allan hringveginn og allar stofnbrautir á landsbyggðinni, mun alltaf verða hættukafli þar sem tvöföldun endar.
Megin málið er þó að byrja á að taka af allar einbreiðar brýr í landinu, malbika alla ómalbikaða kafla á stofnbrautum, brjóta eins mikið og mögulegt er einangrun sveitarfélaga og landshluta og að breikka alla vegi þannig að ekki skapist hætta þegar bílar mætast. Þegar þessu er lokið má skoða hvort flottræfilshátturinn getur tekið við, með tvöföldun vega allt í kringum höfuðborgina og lagningu nýrra vega svo hægt sé að bruna til hennar á sem mestum hraða.
Ekki veit ég hvernig landsbyggðaþingmenn stjórnarflokkanna ætla að réttlæta þennan niðurskurð ráðherrans. Það er hætt við að einhverjir þeirra hlaupist undan merkjum þegar á reynir, enda ljóst að tilvera þeirra á þingi er alltaf háð kjósendum. Jón Gunnarsson fór vel af stað, en nú hefur hann spilað rassinn úr buxunum, svo vægt sé til orða tekið. Standi þessi ákvörðun hans mun það verða rothögg á vegakerfi landsins og öryggi allra sem um það fara!!
Vegatollar
13.2.2017 | 07:44
Hugmyndin um vegatolla er ekki ný af nálinni, umræðan um þá leið hefur alltaf dúkkað upp aftur og aftur. Að mörgu leyti er þessi hugmynd ekki fjarstæðukennd, enda hugsunin að þeir sem nýta sér vegakerfið greiði fyrir þá notkun.
Því er hugmyndin um vegatolla alls ekki svo vitlaus, nema fyrir þá einföldu staðreynd að þeir sem um vegina fara eru þegar að greiða vel fyrir, reyndar svo vel að erfitt er að sjá hvaða rök réttlæta vegatollana. Bifreiðaeigendur, en það er jú í flestum tilfellum bílar sem um vegina aka, eru að greiða um 70 milljarða á ári til ríkisins. Ekki er hægt að sjá í fjárlögum ársins 2017 nákvæmlega hversu mikil útgjöld ríkisins eru til vegamála, þar sem fjarskipum er þar spyrt saman við vegamál. Til þeirra tveggja málaflokka er áætlað að nýta tæpa 29 milljarða, af þeim 70 sem innheimtast. Frekar lélegar endurheimtur!
Ráðherra bendir réttilega á að víða erlendis séu vegtollar þekktir. Það er vissulega rétt, en hann lætur vera að nefna þá staðreynd að þar sem slíkt er gert eru aðrar álögur á bíleigendur mun minni en hér á landi og sumar álögur hér með öllu óþekktar þar ytra. Bíleigendur þurfa þar ekki að greiða til ríkisins nánast jafn háa upphæð og framleiðandinn, flutningsaðilinn og dílerinn fær, þegar keyptur er nýr bíll. Þar þurfa bíleigendur ekki heldur að greiða til ríkisins nánast sömu upphæð fyrir eldsneytið og framleiðandi þess, flutningsaðilar og dreifingaraðilar fá. Svona mætti lengi telja.
Það er ekkert því til fyrirstöðu að taka upp vegtolla og fráleitt að halda því fram að með því væri verið að brjóta einhverja jafnræðisreglu. Ekki frekar en sú innheimta sem nú er stunduð á bíleigendur.
En frumforsenda vegtolla hlýtur að vera að aðrir tollar og gjöld séu þá lækkuð eða afnumin. Það er sjálfsagt að bera sig saman við erlendar þjóðir og taka upp það sem vel reynist þar, ef við teljum það gera okkur gagn. Þá verðum við að sjálfsögðu að horfa til heildarmyndarinnar, ekki bara einn þátt.
Brýtur ekki gegn jafnræði íbúa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hinn falski nagladekkjasöngur
28.1.2017 | 07:34
Enn á ný kyrja stjórnendur Reykjavíkurborgar sama sönginn og enn er hann jafn falskur. Það er ekki bara ógjörningur að banna nagladekk innan borgarmarkanna, heldur halda rök þeirra sem það vilja alls ekki.
Fyrir það fyrsta eiga nagladekk undir fólksbílum og venjulegum jeppum lítinn þátt í eyðingu malbiks á götum borgarinnar. Þeir orsakavaldar eru fyrst og fremst lélegt hráefni sem notað er í malbikið, gengdarlaus saltaustur á það og svo auðvitað veðurfarið hér á land, þar sem umhleypingar yfir vetrartímann eru tíðir.
Svifmengun er vissulega mikil af götum borgarinnar, á stundum, en orsök hennar er ekki eyðingin sem á sér stað á malbikinu, heldur þeirri einföldu staðreynd að borgin tímir ekki að sópa göturnar. Sóðaskapurinn í Reykjavík er að verða heimsþekktur!
Og hvernig hafa svo þessir sjálfhverfu menn, sem allt þykjast vita og hafa með stjórn borgarinnar að gera, að fara að því að framkvæma bann við nagladekkjum innan borgarmarkanna? Ætla þeir að setja upp varðhlið við alla innganga að borginni og banna þeim sem eru með slíkan nauðsynlegan öryggisbúnað undir bílum sínum inngöngu í höfuðborg landsins?!
Það slær ekkert undan í fávitaskap þessarar manna sem stjórna höfuðborg Íslands. Jafn skjótt og rykið sest af einni fáviskunni dúkkar sú næsta upp. Enginn endir virðist vera á þessum fíflalátum!!
Sífellt fleiri nota nagladekk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Landsbyggðaskattur
20.12.2016 | 09:32
Bensíngjald, olíugjald, kolefnisgjald og virðisaukaskattur á þessi gjöld er tær landsbyggðaskattur. Á höfuðborgarsvæðinu þarf enginn að eiga bíl, frekar en hann kýs. Þar eru almenningssamgöngur þokkalegar, lagðir hafa verið stígar ( að hluta á kostnað landsbyggðafólks) vítt og breytt um borgina, þannig að göngu og reiðhjólafæri þar er með því betra sem þekkist í víðri veröld.
Landsbyggðafólkið er hins vegar nauðbeygt til að eiga bíl. Vinnu geta fáir sótt nema á eigin bíl, innkaup af öllu tagi eru útilokuð nema með eigin bíl og stundum þarf að fara langar leiðir til slíkra þarfa. Þjónusta er flest eða öll þannig að bíl þarf til. Og þar er enn verið að auka vegalengdir með sífelldri kröfu um stærri sveitarfélög, sem leiðir af sér að þjónusta, einkum ríkis og bæja, verður enn torsóttri.
Verst er þó með heilbrigðiskerfið. Þar er markvisst unnið að því að færa sem mest af allri slíkri starfsemi á einn stað, í miðbæ Reykjavíkur. Sjúkir og slasaðir verða því að sækja sífellt meira af slíkri þjónustu þangað. Fyrir landsbyggðafólk er það eitt slæm þróun og þegar síðan eina leið þess til að sækja slíka þjónustu er skattlögð enn frekar verður mismuninn enn frekari.
Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að stór hluti aðfanga út á land fara með vörubílum, hvort heldur þar er um að ræða klósettpappírinn fyrir heimilið eða rekstrarvaran fyrir fyrirtækið. Þá þurfa flest fyrirtæki að koma sinni framleiðsluvöru til baka, eftir sömu leið.
Það er því verið að skattleggja landsbyggðafólk umfram annað fólk hér á landi. Slík mismunun er óviðunnandi og líklega brot á 65.gr. stjórnarskrár.
Skilar tveimur milljörðum aukalega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |